Það setti að mér ugg þegar ég hóf lestur minn á Hálendi Steinars Braga. Ekki vegna þess hryllings sem höfundurinn sníður svo listilega vel á síðum bókarinnar, heldur einfaldlega vegna þess að ég óttaðist að verkið stæðist ekki væntingar.
Steinari Braga hefur áður tekist með eindæmum vel upp við að birta vægðarlausa mynd af íslenskum veruleika og óveruleika í skáldsögum sínum, síðast og eftirminnilegast í Konum, sem kom útá besta tíma, í miðri katastrófunni haustið 2008. Ég hreifst af Konum – líkt og svo margir aðrir – þótti það hugrakkt, ögrandi og umfram allt mikilvægt bókmenntaverk. Það vaknaði hjá manni einhver von um að íslenskur skáldskapur gæti verið „relevant“; átt eitthvert raunverulegt erindi við samtíma sinn og þjóðfélagsástand. Nú getur verið að ég geri hér lítið úr öðrum íslenskum rithöfundum sem sett hafa sér það markmið að gagnrýna íslenskan samtíma, og jafnvel tekist það vel, en höggþunginn í Konum var slíkur að skuggi féll yfir aðrar tilraunir til þess. Steinar Bragi hafði með þessari bók sjálfur gert sér þann óleik að setja sér svo háan gæðastuðul að óhóflega kröfuharður lesandi getur hæglega orðið fyrir vonbrigðum. Það liggur því mikið undir þegar maður fær í hendurnar nýtt verk frá honum.
Árinu seinna kom svo út Himinninn yfir Þingvöllum, sem varð um leið ákveðið áhyggjuefni, vitandi það að líklegast hefði það slæm áhrif á gæði verka að gefa sér ekki meiri tíma á milli þeirra. Himinninn reyndist svo vera dæmigerð millibilsbók, ekki alslæm, á köflum fjandi góð, en ekki nálægt því besta sem hann hafði áður reynst fær um. Í bókinni keyrir um þverbak í depurð og tómhyggju, svo mjög að hún sýnir hættumerki um að falla inn í sig – snúast í andhverfu sína og verða brosleg. Einhvern tímann var mér bent á að með Himninum væri Steinar Bragi ef til vill að hreinsa út úr kústaskápnum; minna á sig eftir þá miklu lukku sem Konur vakti, en leggja um leið minna undir og mögulega minnka væntingarnar fyrir næstu bók – sem er kannski ekki svo fjarstæðukennd hugmynd, eftir á að hyggja.
En nú er sem sagt komin út ný bók eftir hann, Hálendið, þar sem sagt er frá tveimur pörum úr Reykjavík, Hrafni og Vigdísi, Agli og Önnu, sem leggja í jeppaferð um sandana norðan við Vatnajökul. Þau villast í þoku og keyra á hús í miðri auðninni, með þeim afleiðingum að bíllinn verður óökuhæfur. Í húsinu búa karl og kerling, þau eru dularfull og sérkennileg í meira lagi en veita bílbrotsfólkinu húsaskjól. Borgarbúarnir finna það þó strax á sér að þarna eru þau ekki velkomin, en þau eru ekki fyrr komin inn en dyrunum er læst og þeim meinað útgöngu þar til nóttin er liðin. Karl og kerling virðast óttast eitthvað sem leynist í myrkrinu fyrir utan, þaðan sem dularfull hljóð heyrast og eldar kvikna í fjarska. Í ljós kemur að þau búa við nánast algjöra einangrunin; lítill sem enginn gangur á mill húss og byggðar og ekkert símasamband og fljótlega kemur í ljós að tilraunir sandaglópanna til að komast aftur til byggða muni ekki verða giftusamar.
Á yfirborðinu virkar Hálendið sem ósköp einföld hryllingssaga. En þetta er bók sem ristir fjandi djúpt og er fjarri því einfalt bókmenntaverk. Hér er teflt fram sígildu andstæðupari, stjórnleysi náttúrunnar gegn véböndum siðmenningarinnar, og þekktum þjóðsagna- og ævintýraminnum ofið saman við samtímahrylling með áhrifaríkum og margslungnum hætti. Hálendið er í fyrstu fagurt og heillandi, kyrrðin og víðáttan einstök, en gegnt markaleysi eyðilandsins tekur mannskepnan að afmarka og hólfa og koma auga á útgangsleiðir. Persónur Steinars Braga ná þó engri viðspyrnu hér, heldur spóla áttavillt á söndunum, í leit að næsta mannvirki.
Náttúran er fjórmenningunum fjandsamleg, en eftir því sem líður á ógöngurnar verður sífellt óljósara hvort ógnin stafi af yfirnáttúruleika hálendisins eða illskunni sem blundar innra með sögupersónunum. Smæð manneskjanna andspænis endimarkalausri auðninni verður til þess að eitthvað rofnar innan í þeim. Undir niðri kraumar vantraust, reiði og sjálfsfyrirlitning, sem magnast upp og losnar úr böndum sínum eftir því sem líður á frásögnina.
Höfundurinn heldur hér áfram gagnrýni sinni á hugmyndafræði kapítalismans, sem lá Konum til grundvallar og var sömuleiðis áberandi í Himninum yfir Þingvöllum. Hann flysjar ofan af persónum sínum í atlögum, undirbyggir sambönd þeirra vandlega og dregur fram forsögur, þar til glitta tekur í sálarlíf þeirra. Karlarnir tveir, Hrafn og Egill, auðguðust hvor með sínum vafasama hættinum á meðan á svokölluðu góðærinu stóð. Saman eru þeir ákveðnir fulltrúar þess hluta Davíðskynslóðarinnar sem plumaði sig svo vel í siðferðislega vönuðu umhverfi bóluáranna, sem var knúið áfram af félagslegum Darwinisma; þar leiddu minnstu veikleikamerki til markaðsdauða, á meðan þeir ófyrirleitnustu klifu tindinn. Kvenpersónurnar tvær, Vigdís og Anna, eru öllu geðfelldari, þó þær séu einnig smitaðar af innihaldsleysi síðkapítalismans.
Hálendið er jafnframt kynjapólitískt verk. Karlarnir tveir takast á við ýmsa djöfla: bælda reiði, óöryggi og fíknir. Vigdís er sálfræðingur og kynntist Hrafni þegar hann sótti meðferð til hennar vegna stigvaxandi sjálfseyðileggingarhvatar og áfengissýki. Alkóhólismi Hrafns er rakinn til „eins konar velgju, eða óreiðu“ sem liggur djúpt innra með honum í bældri minningu sem grefst upp í meðferðinni. Vigdísi grunar þó að minningin sé tilbúningur Hrafns og til þess gerð að hafa stjórn á eigin veikleikum: „Allt hið kvenlega innra með honum var réttlætt og beislað með þessari einu sögu.“ (bls. 142). Meðferðin þróast svo yfir í einhvers konar ástarsamband – móðurlegt jafnvel. Egill, æskuvinur Hrafns, er sljór klámfíkill sem hefur ekki undan kynþörf Önnu og hafa þau þegar við sögu er komið alfarið hætt að stunda kynlíf saman. Kynhvöt Önnu er gríðarleg og er sú persóna nýtt til að grafa undan fyrirframgefnum ranghugmyndum um þarfir kvenna:
Goðsögnin um kyndeyfð kvenna hafði nefnilega aldrei verið nema þetta: óttinn við óendanlegt og alltumlykjandi hungrið í klofinu á þeim, sem gæti étið upp hvaða karlrindil sem var, heilu raðirnar af þeim; spýtt þeim linum og ringluðum út úr sér aftur, og var þegar öllu var á botninn hvolft bæði ópersónulegra og karlmannlegra en þeirra eigið. (bls. 103)
Þennan kynjapólitíska þráð verksins má svo tengja við áðurnefnt andstæðupar, þar sem í vestrænni menningarsögu hefur hið kvenlega iðulega verið tengt náttúrunni og rökleysi, en hið karllæga menningu og rökhyggju. Formlaus og óefniskennd ógnin sem steðjar að sögupersónunum á hálendinu, þar sem rökleg úrvinnsla utanaðkomandi áreitis leysist upp í stjórnlausan hrylling, öðlast með þessu aukinn merkingarlegan þunga.
Steinar Bragi býr yfir meistaralegum tökum á skáldskapnum og hefur ítrekað sýnt fram á einstakt lag við að vekja með lesendum djúpan beyg og næstum líkamleg ónot með textann að vopni. Óhugnaðurinn sem hann magnar upp í Hálendinu er slíkur að undirrituðum varð um og ó, en þetta er engu að síður aðgengilegasta verk hans til þessa – sannkallaður „blaðaflettir“. Það er lítið hægt að finna að Hálendinu. Þetta er úthugsað verk, mögulega um of, en ungæðishátturinn og heillandi tilraunagleðin sem einkenndi svo mjög skáldsögur Steinars Braga fram að Konum hefur nú slípast í hárbeittan odd.
Davíð K. Gestsson, janúar 2012