Beint í efni

Harðskafi

Harðskafi
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Kápuhönnunin á nýjustu glæpasögu Arnaldar Indriðasonar er sérlega vel heppnuð. Bátur siglir á bláum vatnsfleti og undir honum, í dökkblárra dýpinu djarfar fyrir öðru farartæki. Titill bókarinnar, Harðskafi, marar með rauðu nokkuð flúruðu letri á milli þessara, rétt fyrir neðan miðju, efst er nafn höfundar ritað einföldum hvítum stöfum.

Harðskafi er nafn á fjalli en undir því týndist bróðir rannsóknarlögreglumannsins Erlendar Sveinssonar, í snjóbyl þegar báðir voru ungir drengir. Hvarf bróðurins og sú staðreynd að lík hans fannst aldrei hefur litað persónu Erlendar, persónu sem óhætt er að segja að sé orðin ein þekktasta skáldsagnapersóna síðari tíma hér á landi. Erlendur er hér í aðalhlutverki, þau félagar hans Sigurður Óli og Elínborg lítt sýnileg, enda fjallar bókin um mannshvörf og næsta sjálfstæða rannsókn Erlendar á slíkum, auk þess sem hann finnur sig knúinn til að kanna nánar aðstæður sjálfsmorðs konu sem finnst hengd í sumarbústað við Þingvallavatn. Í ljós kemur að vatnið geymir ýmsa dramatíska atburði og jafnvel drauga, en faðir konunnar fórst þar þegar hún var barn og varð hún vitni að drukknun hans, en sá atburður hefur mótað persónu hennar alla tíð síðan, líkt og hvarf bróður Erlendar mótar hann.

Þannig eru minningar og það að minnast og muna ríkur hluti sögunnar, sem er vel við hæfi því það er óhætt, aftur, að fullyrða að Harðskafi er bók sem ekki gleymist fljótt og mun lifa lengi í minningu lesanda.

Það er líka alveg óhætt að segja að það sé ekki beint bjart yfir Harðskafa og enn á ný sýnir það sig að skyndibitahugtök eins og ‘léttmeti’ sem oft eru notuð um glæpasögur eiga á stundum takmarkaðan rétt á sér. Þetta þýðir þó ekki að sagan sé ekki sakamálasaga, en líkt og Arnaldur sýndi áður í Vetrarborginni eru tök hans á forminu orðin slík að honum tekst að flétta ‘hefðbundna’ glæpasagnaþræði fimlega og fumlaust inní miklu stærri sögu, og styrkja þarmeð innviði verka sinna, sem (að hætti góðra reyfara), fjalla um annað og meira en sögu af glæp.

Í þessari sögu er það sorgin, eða missirinn, sem er aðalviðfangsefnið. Konan í snörunni hefur gengið í gegnum mikla sorg í sínu lífi, en eftir að hafa misst föður sinn svo voveiflega tengist hún móður sinni sterkum böndum, sú er svo einnig látin tveimur árum áður en Harðskafi gerist. Sorgin hvílir eins og farg yfir Erlendi sjálfum og hefur áhrif á tilfinningasambönd hans við fyrrum eiginkonu og börn, auk þess sem hún gerir hann ofurnæman fyrir missi þeirra sem hafa orðið fyrir því að ástvinir þeirra hverfa. Það er óvenjulítið að gera og þegar svo stendur á rifjar Erlendur upp nokkur næstum fyrnd mannshvörf, tveggja ungra manna og ungrar stúlku, og tekur aftur til við að rekja slóðir þeirra fram að hvörfunum. Hann hefur bundist aðstandendum annars mannsins nokkuð nánum böndum og óskar þess að geta gefið eftirlifandi öldruðum föður einhverskonar lok á hinu dularfulla hvarfi sonarins, lyktir sem mögulega slá á sorgina.

Vissulega má segja að sorgin og missirinn séu alltaf einskonar viðfangsefni glæpasagna, sérstaklega þeirra sem fjalla um morð eða álíka mannskemmandi glæpi, en í Harðskafa tekur Arnaldur það undirliggjandi tema og gerir að aðalviðfangsefni sínu, án þess þó að tapa nokkru sinni niður meginþráðum sakamálasögunnar eins og fyrr segir. Reyndar má segja að sorgin og missirinn hafi verið nokkuð áberandi minni í fyrri sögum Arnaldar af Erlendi, kannski sérstaklega frá og með Röddinni þegar einkalíf Erlendar fer að færast mun meira í forgrunn sögunnar og því er Harðskafi fullkomlega rökrétt framhald af höfundarverki þessa vinsæla höfundar sem er alveg óhætt (enn og aftur) að kalla brautryðjenda íslenskra glæpasagna.

Það telst alltaf til tíðinda þegar öflugur höfundur á borð við Arnald Indriðason sendir frá sér nýja skáldsögu, ekki aðeins er það þakklátt starf fyrir fjölda aðdáenda hans sem treysta orðið á nýja bók á hverju ári, heldur er það einnig tíðindavert að fylgjast með því hvernig vinsæll höfundur heldur áfram að vinna með formið og sýna á því örugg tök samhliða því að krefja lesendur sína um að leggja í næsta ströng ferðalög.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007