Nýlega var tilkynnt um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunna og þótti mér það mikið gleðiefni að allar bækurnar sem tilnefndar eru í flokki barna- og ungmennabóka eru skáldverk. Á síðasta ári voru fræðibækur fyrir börn og ungmenni í meirihluta tilnefninga og það er ánægjulegt að sjá að skáldskapurinn fær verðskuldaða athygli í ár. Tvær þeirra bóka sem hlutu tilnefningu verða teknar til umfjöllunar hér, bækurnar Allt er svart í myrkrinu, frumraun Elísabetar Thoroddsen og Frankensleikir – eða hinn nýi Aurgelmir eftir Eirík Örn Norðdahl. Það er svo Elías Rúni sem myndlýsir Frankensleiki auk þess sem hann hannar kápur beggja bóka.
Allt er svart í myrkrinu er fyrsta bók Elísabetar Thoroddsen sem hefur komið víða við. Hún hefur starfað við kvikmyndagerð, komið fram með og samið lagatexta fyrir Ukulellur ásamt því að sjá um ljóðasamkeppni Hinsegin daga. Elísabet tekur fram í þakkarorðum bókarinnar að hún sé einnig móðir unglings og fjallar bókin einmitt um unglingsstúlku sem lendir í ótrúlegum ævintýrum.
Tinna er í 9. bekk og á leið í sumarbústað með foreldrum sínum í vetrarfríinu. Þau lenda í bílslysi á leiðinni og foreldrar Tinnu eru fluttir á sjúkrahúsið í Reykjavík en Tinna sjálf er flutt á lítið sjúkrahús í nágrenni slysstaðarins þar sem hún verður svo veðurteppt í nokkra daga. Þar kynnist hún Dóru, dóttur yfirlæknisins og saman lenda þær í háskalegu ævintýri þar sem andaglas, draugagangur og hjúkrunarfræðingur sem er frávita af sorg koma við sögu. Dóra og Tinna fella hugi saman og á endanum er Tinna farin að vona að óveðrinu sloti ekki svo hún þurfi ekki að yfirgefa Dóru. Allt endar þetta í eltingaleik úti í óveðrinu þar sem minnstu munar að illa fari fyrir Tinnu.
Sagan er í grunninn efnileg og margir áhugaverðir þræðir byggja hana upp en því miður vantar mikið upp á útfærsluna til þess að þeir fléttist allir saman á trúverðugan og spennandi hátt. Atburðarásin byrjar hratt og þegar komið er inn í fléttuna sem á að vera spennandi hefur höfundurinn ekki kynnt persónurnar nægilega vel til sögunnar og þar af leiðandi eiga lesendur erfitt með tengja við þær. Tinna sjálf er kynnt ágætlega til sögunnar en ég hefði samt viljað vita meira um hana. Innri samtöl hennar eru þó það sterkasta í sögunni, lesandinn fær að kynnast óöruggri unglingsstúlku sem upplifir sterkar tilfinningar í fyrsta sinn og lendir á sama tíma í erfiðum aðstæðum. Þau fáu skipti sem Elísabet hægir aðeins á og leyfir hugsunum Tinnu að flæða eru það besta við söguna og sýna að Elísabet á vel innistæðu fyrir meira.
Tærnar á mér gægjast undan sænginni og ég dreg andann, eins djúpt og ég get. Held honum niðri á meðan ég tel tærnar, ein, tvær, þrjár, fjórar og alla leið upp í tíu. Þegar ég er komin upp í tíu anda ég hægt og rólega frá mér, alveg eins og amma Jóna kenndi mér. Þá verð ég í góðu jafnvægi í dag, hugsa ég, það var allavega það sem amma sagði alltaf. (40)
Hinar sögupersónurnar öðlast því miður ekki nægilega dýpt. Dóra er skemmtilegur og lifandi karakter og á eftir Tinnu sú sem lesendur ná að kynnast best en þar er of margt látið ósagt um hvað það er sem mótar Dóru í þá manneskju sem Tinna heillast af.
Stelpurnar kynnast svo Elfari sem hjálpar þeim að leysa ráðgátuna sem þær standa frammi fyrir eftir að hafa farið í andaglas í yfirgefnu herbergi í lokaðri álmu sjúkrahússins. Tinnu líkar illa við Elfar og sér hann sem ógn við samband þeirra Dóru og því kannski eðlilegt að hún reyni ekki að kynnast honum mikið. En vegna þess að Elísabet ákveður að fara þá leið að kynna Elfar lítið fyrir lesendum verður hann eingöngu verkfæri til að keyra framvinduna áfram. Hann fer allt of létt með að leysa ráðgátuna, er fluglæs á tengiskrift í gömlu bréfi og kann að nota Tímarit.is eins og ekkert sé, án þess að miklar skýringar séu gefnar á því. Á meðan karakterar Tinnu og Dóru eru trúverðugir unglingar er Elfar alltof ótrúverðugur og með því að skrifa hann inn í söguna leysir Elísabet vanda Dóru og Tinnu á ódýran og alltof fljótlegan hátt. Lesendur fá ekki tíma til þess að tengja nógu djúpt við ráðgátuna og verða spenntir fyrir henni því hún er leyst næstum jafn fljótt og hún er kynnt til sögunnar.
Það sama má segja með Sólveigu, fúllynda hjúkrunarfræðinginn sem gerir stelpunum lífið leitt á sjúkrahúsinu, missir svo vitið og telur Tinnu vera löngu látna dóttur sína. Vegna þess hversu fljótt ráðgátan um fortíð Sólveigar er leyst og hversu grunn persónusköpunin er á lesandinn erfitt með að gleyma sér í spennunni sem höfundur reynir að skapa þegar Sólveig tapar sér algjörlega í fortíðinni.
Ég vildi óska þess að mér hefði þótt þessi saga betri, hún hefur svo marga eiginleika sem ég hefði getað fallið fyrir. Hún er ungmennabók, með hryllingsívafi og hinsegin aðalpersónum en við miður nær hún ekki því flugi sem ég vonaði. Það má að mestu skrifa á að bókin er heldur stutt, hún er aðeins 102 síður og til þess að skila henni nógu vel til lesenda hefði hún líklega þurft að vera að minnsta kosti 102 síður til viðbótar. Mögulega er sögunni haldið svona stuttri til þess að höfða til ungmenna sem veigra sér við því að lesa langar bækur. Það er í sjálfu sér gott markmið en þá hefði þurft að útfæra það betur. Sagan er því miður of stór til þess að passa inn í naumt plássið sem henni er gefið.
Elísabet er engu að síður efnilegur ungmennabókahöfundur, það er augljóst að hún umgengst ungmenni og textinn er aldrei stífur og litaður af því að vera skrifaður af fullorðinni manneskju eins og oft vill verða með bækur fyrir þennan aldurshóp. Ég vona að hún sendi frá sér fleiri bækur og verði þá óhrædd við að kafa dýpra ofan í söguheiminn sem hún skapar og gefa sér meira rými til að staldra við forvitnilega anga hans.
Frankensleikir – eða hinn nýi Aurgelmir er fyrsta barnabók Eiríks Arnar Norðdahl sem hefur áður sent frá sér fjöldamargar skáldsögur fyrir fullorðna. Söguna samdi hann upphaflega fyrir börnin sín á aðventunni fyrir tveimur árum. Sagan segir frá systkinunum Fjólu og Hrólfi sem eiga foreldra sem eru ekki vont fólk. „Þau voru kannski stundum svolítið ferköntuð – svolítið stíf og – og pínulítið upptekin af því að setja alls konar reglur sem enginn gat skilið og enn síður farið eftir“ (5-6). Fyrir jólin þegar Fjóla er sex ára ákveða þau að þau vilji ekki ljúga að henni lengur og segja henni að jólasveinarnir séu ekki til. Fjóla neitar að trúa því og flýr að heiman, hún fer í vonskuveðri upp á fjöll og finnur þar þrettán grafir í helli, eina merkta hverjum jólasveini. Hún bregður á það ráð að grafa líkin upp og flytja þau heim. Þar búa þau Hrólfur til einn jólasvein úr því sem er nýtilegt úr hverjum sveini og þannig verður Frankensleikir til. Það er svo aðeins sá líkamshluti sem tilheyrir þeim jólasveini sem á að koma til byggða hverju sinni sem vaknar til lífsins. Systkinin þurfa þá að hjálpa honum að komast út í nóttina til að uppfylla skyldur sínar.
Sagan er á köflum ansi svæsin og lýsingarnar á aðförum systkinanna og háttalagi Frankensleikis skiptast á að vera ógeðfelldar og sprenghlægilegar.
Hrólfur og Fjóla voru sannfærð um að þetta hefði virkað, þótt þau skildu ekki alveg hvernig rass sem gat ekki einu sinni opnað bílskúrsdyr aðstoðarlaus færi að því að gefa öllum í skóinn. Eða hvar hann fengi gjafirnar. En þá skildu þau ekki heldur hvernig hann vaknaði til lífsins, prumpaði konfettíi, skoppaði eða flaug. Eða hvernig flugvélar þveruðu himininn, hvernig Soda Streamtækið tróð loftbólum í annars kyrrt vatn eða hvernig svartholin í geimnum virkuðu. Kannski þurfti maður ekki að skilja allt. (52)
Þó að sagan hefjist á því að foreldrar Fjólu segi henni hreint út að jólasveinarnir séu ekki til, kemur allt annað á daginn þegar sögunni vindur fram. Eiríkur kemur með margar skemmtilegar og frumlegar tilgátur um það hvernig jólasveinarnir fara að því að gefa öllum íslenskum börnum í skóinn á einni nóttu og eins velta Hrólfur og Fjóla því fyrir sér hvort foreldrum sé fjarstýrt af jólasveinunum eða hvort þau séu einfaldlega heilaþvegin svo þau haldi að það séu þau sem gefi börnunum sínum gjafir í skóinn. Ef þau héldu að það væru í alvöru gamlir, krípí tröllkallar sem kæmu inn í herbergi barnanna þeirra á hverri nóttu myndu þau aldrei taka það í mál. Þó að húmorinn sé alltaf í fyrirrúmi eru undirliggjandi vangaveltur um samskipti fullorðinna og barna hvernig börn sjá heiminn í allt öðru ljósi en hinir fullorðnu.
Ég velti því mikið fyrir mér á meðan á lestrinum stóð hver markhópur bókarinnar væri. Fjóla er sex ára og Hrólfur þremur og hálfu ári eldri en hún. Eiríkur hefur sjálfur látið þau orð falla að hann viti ekki alveg hversu barnvæn bókin sé.* Sonur minn er átta ára og ég þorði ekki annað en að lesa bókina sjálf fyrst til að meta hvort hún hentaði honum eða ekki. Eftir lesturinn tók ég þá ákvörðun að bíða með að rétta honum bókina að minnsta kosti í eitt til tvö ár. Ekki vegna þess að ég vilji hlífa honum við hryllingsköflum bókarinnar. Það hefðum við alveg getað rætt og sjálfur segir Eiríkur að börn séu „ekki nærri því jafn viðkvæm og margir halda“* og ég er alveg sammála honum í þeirri afstöðu.
Ástæðan fyrir því að ég kaus að lesa bókina ekki strax með syni mínum er sú að ég á aðeins erfitt með bækur sem gefa í skyn að það séu foreldrar en ekki jólasveinarnir sem gefa í skóinn. Slíkt getur verið fyndið og skemmtilegt fyrir eldri lesendur en hættan er alltaf sú að hulunni sé svipt of snemma af töfrunum fyrir þá yngri sem trúa ennþá. Það gerir sonur minn ennþá (að ég best veit) og þó ég væri ekki beint að afhjúpa neitt með lestri á bókinni er ég hrædd um að það gætu kviknað efasemdir. Fjóla verður ósátt við foreldra sína þegar þau segja henni frá því sem þau telja sannleikann og ég vil leyfa honum að halda í trúna aðeins lengur. Bókin fannst mér engu að síður frábær og um leið og ég verð vör við einhverjar efasemdir hjá syni mínum mun ég rétta honum bókina og leyfa honum sjálfum að dæma hvort við þurfum nokkuð að skilja allt.
Allt er svart í myrkrinu ber þess merki að vera frumraun höfundar og þó mér finnist ýmislegt vanta upp á eru bókin og höfundur hennar engu að síður velkomin viðbót við bókmenntaflóru landsins. Það þarf alltaf fleiri höfunda sam vilja skrifa fyrir unga lesendur. Frankensleikir ber þess einnig merki að vera fyrsta barnabók höfundar sem áður hefur skrifað mikið fyrir fullorðna. Bókin veit ekki alveg hvaða markhóp hún hefur í huga og þó hún sé virkilega áhugaverð gæti það unnið á móti henni að vera flokkuð sem barnabók. Hún er of fullorðinsleg fyrir yngri börn en ungmenni gætu litið fram hjá henni vegna aldurs aðalpersónanna. Ég vona þó að það verði ekki raunin því ég held að mörg ungmenni og fullorðnir gætu haft virkilega gaman að henni.
Kristín Lilja, desember 2022
*Viðtal í Fréttablaðinu: https://www.frettabladid.is/lifid/jolasveinar-risa-upp-ur-grofum-sinum/