Heimsins besti tangóari er stutt smásaga (um 15 síður) eftir Kristínu Bjarnadóttur. Sagan er sögð í 1. persónu af „norðurevrópskri og tangóþyrstri” konu og gerist á tangóballi, eða milongu, síðla nætur í apríl í Buenos Aires. Í bókinni er einnig spænsk þýðing hins geðþekka fréttaritara RÚVs í Madrid, Kristins R. Ólafssonar.
Sagan hefst á að sögukonan fær spurninguna: „Langar þig að dansa við heimsins besta tangódansara?“ Spurningin er sett fram af dansfélaga hennar og vekur hún strax forvitni lesandans, honum, eins og konunni leikur forvitni á að vita hvað dansfélaginn á við. Sögukonan og dansherra hennar (og lesandinn) dansa síðan í gegnum söguna í átt að svarinu við spurningunni. Hún reynist reyndar vera misheyrn en svarið kemur engu að síður fram í lok sögunnar.
Samhliða lýsingunni á dansi sögukonunnar og félaga hennar er almenn lýsing á tangódansinum, siðum hans og venjum með viðeigandi slangri sem tilheyrir heimi tangósins. Tangóinn reynist ekki bara vera einhver dans heldur verður hann með sínum serómóníum eins konar tákngerfingur lífsins:
Líkt og á venjulegu hringtorgi og í mörgum samfélögum ertu rétthærri í innsta hringnum. Þar eru mistök hugsanleg í skjóli hinna ytri, þar leyfast lengri spor, ganchos, bóleos, smáskreytingar með fótum sem ekki halda sér við gólfið. Það er að segja ef enn er útrými í innsta hringnum. Þangað flýja bæði hömlulausir og viðvaningar sem ekki hafa tök á að laga sig að umferðinni mót sólu með spuna. (8)
Einnig er vikið lítillega að argentísku samfélagi eins og það birtist í Bueons Aires og þá er tengingin við tangódansinn aldrei langt undan:
Að halda stílnum og stoltinu þrátt fyrir allar ytri takmarkanir, það er galdurinn meðal tangódansara, trúlega líkt og þegar tangóinn var að mótast, vaxa upp úr vanmætti og vonbrigðum í hverfum fátækra og aðfluttra við Rio de la Plata. Að lifa við óöryggi er ekkert nýtt fyrir Buenos Airesbúa og þótt söngvarnir fjalli um sárustu svik og horfin skjól, má kannski líta á tangódansinn sem frjóa aðlögun, aðferð til að dreyma saman og gera sig óháðan morgundegi. (7) Sagan er í raun ákaflega falleg lýsing á tangódansinum, ástríðan og tilfinningahitinn sem gjarnan er tengdur þessum dansi kemst vel til skila. Um leið er hægt að greina ákveðna angurværð og ef til vill ekki síst væntumþykju sögukonunnar til tangósins og til Bueons Aires og fær lesandinn ágætis hugmynd um þetta samfélag sem er svo nátengt þessum dansi. Spænsk þýðing Kristins er alveg til fyrirmyndar og vel við hæfi að hafa söguna einnig á spænsku, tungumáli tangósins og Argentínu.
Guðríður Sigurbjörnsdóttir, maí 2006