Sögumaður Heklugjár, sem heitir Ófeigur og er rithöfundur, situr á Þjóðskjalasafninu með hundinum sínum og les glósubækur ævintýramannsins Karls Dunganons. Sá kom víða við á langri og ótrúlegri ævi og lifði í raun mörgum lífum undir ýmsum nöfnum víða um heim. Meðan rithöfundurinn og hundurinn Kolur sitja á skjalasafninu, þræða bari og myndlistaropnanir, berjast í gegnum túristaörtröðina fyrir framan Hallgrímskirkju og vandræðast í kringum hinga undurfögru Heklu sem vinnur á Þjóðskjalasafninu, spretta alls kyns persónur og kynjaverur upp af skjölunum og úr ýmsum skúmaskotum. Ítalskur fræðimaður grefur sig í gegnum Ísland í leit að fjársjóðum þeim sem musterisriddarar fólu á Íslandi á tímum krossferðanna. Samkvæmt honum voru hið heilaga gral, flís úr krossi Krists og fleiri helgir gripir faldir hér þar sem tvö fljót mætast. Þetta vissu mestu listamenn miðalda og endurreisnartímans, Dante, Leonardo Da Vinci og fleiri og því má finna vísbendingar um fjársjóðinn í verkum þeirra, enda er fróðlegt ferðalag Dantes til Íslands meðal þess óvænta sem Heklugjá lýsir. Forfeður rithöfundarins koma líka við sögu og tengjast Dunganon á ýmsa vegu og Sigurður Jórsalafari, Noregskonungur, leggur í mikla svaðilför sem tekur yfir síðari hluta bókar. Hér koma Kristur og Óðinn jafnt við sögu, Dante og Sæmundur fróði, Snorri Sturluson og Noregskonungar. Lyklarnir liggja víða og opna ólíklegustu dyr.
Þetta er löng bók og orðmörg og við fyrstu sýn getur vaðallinn virst erfiður yfirferðar eða þar til hann er lesinn gaumgæfilega og í ljós kemur að hann er alls enginn vaðall heldur stórskemmtilegur og sprúðlandi texti. Frásagnirnar renna allar saman í kolli rithöfundarins, raddirnar keppa um athygli og lesandinn má hafa sig allan við að átta sig á hvort við erum stödd á 19. öld í kóngsins Kaupmannahöfn, á tímum Sturlunga á Íslandi eða í Austurlöndum með Sigurði Jórsalafara. Inn á milli þessara ævintýralegu ferða, í fylgd enn ævintýralegri leiðsögumanna, dettum við ávallt aftur í kollinn á rithöfundinum þar sem hann lufsast brúnaþungur framhjá Hallgrímskirkju, tínir upp eftir Kol og engist um í tilvistarlegum kvíða yfir sambandinu við Heklu. Hekla hin og hamfarir tengdar henni eru svo ofnar inn í þennan þétta og litskrúðuga vef, til að mynda grófust víst ómetanleg handrit Sæmundar fróða undir hrauni hennar og ösku, Dante til mikils ama.
Rithöfundurinn er kostuleg persóna. Illa farinn eftir skilnað, alkóhólíseraður og óhamingjusamur og vorkennir sér gríðarlega mikið. Hatur hans á ferðamönnum Reykjavíkur og þeirri andlegu auðn sem þeir hafa gert borgina að er grátbrosleg sem og vanmáttur hans til að halda uppi samræðum um annað en böl og hnignun heimsins. Með annan fótinn í fortíðinni og hinn í nútímanum rekur hann ættir sínar beint til Adams. Stíll Heklugjár kallast þannig á köflum á við bæði Biblíuna og Heimskringlu og ekki síður Íslendingasögurnar, sérstaklega í löngum (og oft kómískum) lýsingum á útliti og atgervi hinna ýmsu kappa. Lýsingarnar á Heklu (og flestum öðrum konum bókarinnar sem allar eru hún) eru hins vegar fengnar úr ævintýrum. Þó er hún að mörgu leyti óskrifað blað, fögur og góð en mikið til mállaus, alla vega framan af, eins og Beatrice Dantes.
Spjótunum er beint í allar áttir, Kristur á krossinum, kóngar og keisarar, höfuðskáld Íslandssögunnar, fræknir kappar, undirmálsfólk og ekki síst ferðamenn verða fyrir ófáum skotum, en rithöfundurinn sjálfur fær þó bróðurpartinn. Þyrnum stráð og beiskt hlutskipti hans er stundum eilítið endurtekningarsamt en oftar brakandi fyndið eins og þegar hann hyggst uppfylla ósk hinnar ungu draumadísar um að þau taki saman eiturlyf. Í stórkostlegum kafla má lesa þegar Ófeigur, á yfirfullum skemmtistaðnum, reynir árangurslítið að yfirgnæfa hávaðann og tjá barþjóninum sem útvegaði þeim efnið áhyggjur sínar af því að það sé banvæn blanda þar sem umræður um slíkt mátti heyra í útvarpsþættinum Speglinum á Rás 1. En Ófeigur ferðast ekki bara fótgangandi um í skugga Hallgrímskirkju heldur leggur hann í víking eins og svo margar persónur verksins. Hann og hin rauðhærða og græneyga Hekla leggja land undir fót og eyða jólunum í Istanbúl þar sem höfundurinn heldur á söguslóðir bókar sinnar. Hann gleðst gríðarlega yfir því að finna nánast enga ferðamenn í hinni fornu borg. Kaldhæðnin sem felst í því að ferðamaðurinn þoli ekki aðra ferðamenn verður enn meiri þegar í ljós kemur að ferðamannaskorturinn helgast af nýlegri hryðjuverkaógn sem rithöfundurinn hafði ekki frétt af sökum rafhlöðuleysis í snjalltækjum.
Ótalmargar persónur frá öllum tímum og af ólíkum stéttum taka til máls og vald Ófeigs á tungumálinu er ekki síst augljóst í tungutaki þeirra – bæði í bundnu og óbundnu máli. Hann leikur sér að því að byggja upp áhrifamiklar og sannfærandi myndir en snúa þeim svo á hvolf eins og þegar Jón Loptsson segir Snorra Sturlusyni ungum: „Andrés var fóstri minn, rétt eins og ég er fóstri þinn. Andrés var kynsæll maður og hönk mikið, hann átti mörg börn með mörgum konum, Guð hlustaði líka frekar á hann en aðra menn.“ (bls. 188) Oft halda persónur langar tölur í trúverðugum, fornum stíl en skjóta svo óvænt inn vísunum í snjallsíma, plötusnúða eða önnur fyrirbæri úr nútímanum. Hundurinn Kolur kórónar sköpunarverkið þar sem hann situr undir borði á Þjóðskjalasafni og kveður undir dróttkvæðum hætti. En það er ekki bara tungumálið sem höfundur snýr á heldur sömuleiðis opnar hann svo lítið beri á fyrir nýjan söguskilning á frægðarförum konunga og hreystiverkum ýmissa kappa. Þegar betur er að gáð var kannski ekkert svo frábært að ryðjast með 10.000 manna lið í gegnum heilu þjóðlöndin, rupla, ræna, limlesta, nauðga og myrða. Orðin „sigursæll konungur“ geta vissulega orkað tvímælis og sverð þeirra sömuleiðis verið tvíeggja.
Ekki er heiglum hent fyrir lesandann að kortleggja ferðalag sitt í gegnum skáldsöguna, hvorki á landabréfi né í tíma, og trekk í trekk missir hann fótanna. En þetta er ekki sakamálasaga, hér er engin línuleg frásögn, ef lesandinn glutrar niður tengingum eða missir einhverja þræði er ekki eins og hann villist af leið og komist ekki á áfangastað. Hér leyfist lesandanum að fljóta með straumföllunum niður bugðótta á, stundum er hægðarleikur að sjá til lands og staðsetja sig en í næstu andrá er ekkert kennileiti merkjanlegt og allt þýtur hjá, jafnvel erfitt að botna. Það er ekkert annað í stöðunni en að berast með straumnum og njóta.
Marianna Clara Lúthersdóttir, 2018