Beint í efni

Heljarþröm og Geitin Zlata

Heljarþröm og Geitin Zlata
Höfundur
Philip Ardagh
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Heljarþröm og Geitin Zlata
Höfundur
Isaac Bashevis Singer
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Já, ég veit ég hef sagt það áður, en aldrei er góð vísa ... og allt það: nú er blómatími barnanna í bókmenntum. Það er svo mikið af skemmtilegum barnabókum að ég hef varla við og finnst stundum að ég sé gengin í barndóm þarsem ég sit umkringd ljónadrengjum, galdrastrákum, kóralínum og grímuborgum, svo ekki sé talað um öll hrakföllin, en þeim er helgaður bálkur Lemony Snicket. Og það er ekki að undra að mér verði hugsað til Snickets, því bók Philip Ardagh, Heljarþröm, minnti mig dálítið á frásagnaraðferð þess undarlega höfundar.

Hér er sögð sagan af drengnum Edda Dickens sem er sendur að heiman því foreldrar hans eru veikir. Eða rotinpúrulegir og lyktandi af gömlum hitapokum, eins og því er lýst í upphafi bókar. Því er frændi nokkur og kona hans fengin til að taka drenginn í fóstur, meðan læknir reynir að fríska upp á foreldrana. Og hefjast þá heilmikil ævintýri, sem involvera gistihús, leikhóp og munaðarleysingjahæli, því frændinn og eiginkonan eru hreint ekki eins og fólk er flest. Reyndar á það við allar persónur bókarinnar, nema kannski helst Edda greyið sjálfan, þetta er allt kolklikkað lið! Aðferðir læknisins eru vægast sagt óvenjulegar, til dæmis er honum umhugað að halda á sjúklingunum hita og til þess þá stingur hann nokkrum olíubrennurum undir rúm... Frændinn er herfilega nískur og greiðir fyrir alla þjónustu í hertum fiski... og svo má lengi telja, en það ætla ég ekki að gera, því þetta er skemmtun sem ekki má skemma fyrir lesendum. Óttalegt bull myndu sumir segja – og ég get vel tekið undir það, nema ekki í neikvæðum skilningi, því þetta er skemmtileg og skrítið bull, hæfilega klikkað en með hæfilega miklum undirtónum svo það leysist aldrei upp í hreina vitleysu. Semsagt, gaman.

Frásagnarmátinn, eins og áður sagði, minnir á aðferð Snickets – og reyndar líka aðferð Þorvaldar Þorsteinssonar í Blíðfinnsbókunum, en hún gengur út á að rabba við lesendur jafnhliða því að segja söguna. Þannig upplýsir höfundurinn lesendur sína um hitt og þetta, aðallega þó sem viðkemur tímasetningu, því sagan er látin gerast í ''gamla daga'' sem mér sýnist vera 19. öld. Með þessu móti er lesandi gerður að þátttakanda, þetta er skemmtilegt og virkar vel fyrir söguna, íþyngir henni ekki heldur myndar ágætis mótvægi við öll undarlegheitin.

Á sama hátt er sögumaðurinn í þjóðsögunum sem sagðar eru í Geitinni Zlötu í ákveðinni fjarlægð frá söguefninu, hann veit meira, líkt og söguhöfundur Heljarþramar. Hér eru á ferðinni þjóðsögur í endursögn Isaacs Bashevis Singer, og segja þær aðallega frá íbúum þorpsins Skelm, en það virðist mannað ''bakkabræðrum'' í ýmsum formum. Sumar sögurnar eru kunnuglegar, minna bæði á ævintýri úr safni Grimms-bræðra, og svo auðvitað íslenskar sögur og það er alltaf gaman að sjá hvernig sömu minnin ferðast. Svona fyrir fullorðna fólkið er áhugavert að sjá hvernig þessi grunnminni birtast í ólíkum formum, eftir hverju samfélagi fyrir sig – á Íslandi vantar t.d. þessa öldungahefð sem er rík í þessum þýsku og gyðinglegu sögum. Fyrir börnin eru hér skemmtilegar sögur, af heimskingjum, púkum, sjálfum djöflinum – sem kemur í heimsókn til að spila, eins og svo oft áður (loksins, LOKSINS, fann ég hér fyrirmynd banns ömmu minnar við spilamennsku á jólanótt – þá kæmi skrattinn í spilin – því í sögunni sem ber hinn viðeigandi titil "Sagan hennar ömmu" kemur skrattinn einmitt og spilar með börnunum sem sitja við spil á ljósahátíðinni), og svo auðvitað titilhetjunni, litlu trúföstu geitinni Zlötu.

Að lokum langar mig að benda á að báðar eru bækurnar fallega og skemmtilega myndskreyttar af David Roberts og Maruice Sendak, og eins og svo oft áður í barnabókum eiga myndirnar heilmikinn hlut í upplifun sagnanna. Kristín R. Thorlacius þýðir báðar bækurnar af mikilli fimi, sérstaklega dáðist ég að því hvernig hún gat fundið skrýtin og skemmtileg orð til að passa við öll skringilegheitin í Heljarþröm, en í þeirri sögu leikur tungumálið mikilvægt hlutverk eins og ljóst má vera. Án þess að hafa haft tækifæri til að bera saman við frumtexta, þá held ég að mér sé óhætt að segja að þýðingin sé vel heppnuð að því leyti að efni og orðalag sameinast við að skapa þá stemningu sem ríkir í sögunni.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004