Eitt einkenni nútímaljóða (og jafnvel allra ljóða) er það sem kallað hefur verið rödd skáldsins, einhverskonar nærvera eða ‚ég‘ sem heldur öllu í hendi sér og réttir lesanda ýmsa þræði tilvísana, hugleiðinga eða mynda. Þessi rödd eða nærvera tekur yfirleitt á sig form ljóðmælanda, en getur líka verið hlutlaus með öllu. Þetta gefur þó ekki til kynna neina einsleitni eða innilokun, nærveran getur verið miságeng og jafnvel mótsagnakennd, en í það heila tekið er hún yfirleitt kunnugleg á einhvern hátt, lesandi gengst henni á hönd og lætur leiða sig um hina ýmsu króka og kima hugarfylgsnanna – sinna eigin jafn sem skáldsins.
Gyrðir Elíasson er einn þeirra höfunda sem hafa skapað sér sérlega örugga rödd innan íslenskra bókmennta, og nú, með tilkomu afar verðskuldaðra Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, mun sú rödd vonandi berast víðar. Þetta þýðir þó ekki, eins og fram hefur komið, að röddin sé óbreytanleg eða stirðnuð, þó slíku hafi verið haldið fram. Eins og Hermann Stefánsson bendir á í grein í Okkurgulum sandi, greinasafni tileinkuðu verkum Gyrðis, þá virðist sem skrif um Gyrði hafi staðnað, meðan skáldskapur hans hélt áfram að taka breytingum. Og Hermann talar um nokkur skil í höfundarverki Gyrðis í þessu sambandi.
Ein þessara skila eru mörkuð af auknum tilvísunum til nútíma með gagnrýnu viðhorfi eins og kom vel fram í verðlaunasmásagnasafninu Milli trjánna, en einnig í fylgibók þess, ljóðabókinni Nokkur almenn orð um kulnun sólar. Áður hafði samskonar stef birst í Sandárbókinni og jafnvel víðar. Hér má velta fyrir sér hvort hin sterka rödd skáldsins sé hreinlega farin að hafa heftandi áhrif, en sá ljóðræni hógværi tónn sem einkennir verk Gyrðis getur virkað sefjandi og þannig villt lesendum sýn.
Hér vex enginn sítrónuviður er fyrsta bók Gyrðis síðan verðlaunabókin Milli trjánna kom út árið 2009. Ekki hefur hann þó setið auðum höndum, því á síðasta ári kom út hnausþykkt safn þýddra ljóða sem nýverið hlaut íslensku þýðingaverðlaunin. Sítrónuviðurinn er ljóðabók og sver sig um margt í ætt við fyrri ljóðabækur höfundar, eins og við er að búast, en þó er hér einnig nokkurt nýmæli sem kemur hvað helst fram í nokkrum hvössum ljóðum um illa meðferð á dýrum. Dýr hafa alltaf átt sinn stað í ljóðum Gyrðis, enda órjúfanlegur hluti af þeirri náttúrusýn sem finna má svo víða í verkum hans, en hér er áherslan lögð á grimmd mannsins gagnvart þessum ferðafélögum sínum.
Dauði dýranna helst svo í hendur við það þema dauðans sem er sérlega áberandi í bókinni, en mér virðist svo að sjaldan hafi dauðinn verið jafn ríkjandi í verki eftir Gyrði. Nærvera dauðans er næstum áþreifanleg á síðum verksins og tengist öðru þema, sem hefur orðið meira áberandi á síðari árum, en það er þunglyndið. Fyrsta ljóðið setur strax tóninn fyrir það ferðalag sem lesandinn á fyrir höndum:
Glötuð orð
Framundan var vegurinn
einsog strikaður jafnóðum á
fölgrænt gamalt landakort
sem við ókum eftir í þögnBílljósin lýstu upp skilti
sem sandfokið hafði máð
allt letur af
Vegurinn er ósýnilegur og liggur ekki einu sinni eftir landslagi heldur landakorti, og er því í raun ekki til. Skiltin eru ólæsileg og þögnin hvílir yfir ferðafélögunum. Hlýtur þetta ekki að vera móðan mikla? Ferðin er eitt af þessum klassísku táknum skáldskaparins og Gyrðir nýtir hana hér á margvíslegan máta, en „Öðruvísi ferðaljóð“ eru fimm talsins í bókinni, auk annarra ferða, eins og „Úr ferðadagbók nútímamannsins“, en þar er ljóðmælandi „staddur í landi dauðra vona.“ Vegabréf eru óþörf og ljóðmælandi verður að „bíða eftir leiðsögumanni yfir háu / fjöllin í norðri. Allir vængir hafa / verið logskornir af flugvélunum“. Hér fellur þunglyndið saman við ferðina, og sem fyrr eru ófærur og vegvillur hvarvetna. Velta má fyrir sér hvort og hvernig skáldskapurinn komi að þessum auðnum, en lesa má „land dauðra vona“ og „logskorna“ vængi sem tákn þess að skáldið sé kreppt. Ljóðið „Langur vetur“ mætti lesa sem myndlíkingu fyrir þetta þema:
Fiskurinn sem syndir í djúpum hugans
er steingrár og risastór. Hann er búinn
að éta alla hina fiskana og heimtar
sífellt meira fóður. Ég hef ekki lengur
neitt að gefa honum nema nokkur orð
úr gömlum uppáhaldsbókum. Hann vill
ekki sjá þau og skyrpir þeim út úr sér
með fyrirlitningu svo djúpið gruggast
Hér mætti hugsa sér að fiskurinn sé skáldskapurinn sem krefst sífelldra fórna, en vandfýsnin er svo mikil að hann gruggar djúp hugans og byrgir höfundinum sýn. Titill ljóðsins, „Langur vetur“, vísar hinsvegar til þunglyndisins, svo ljóðið mætti fullt eins túlka sem tilraunir til að fæða fjörfiskinn á gleði sem hann hafnar og myrkvar hugann í staðinn. En hvað sem því líður þá hefur skáldskapurinn sigrað að lokum: því ljóðið er hrein dásemd og ein af þessum fjölmörgu krydduðu myndum Gyrðis sem halda áfram að synda um í huga lesanda.
Ljóðið „Langur vetur“ er einnig gott dæmi um þann lúmska húmor sem einkennir verk Gyrðis og er líklega eitt af því sem hvað mest fer framhjá lesendum sem límast um of við hið hógværa yfirborð textanna. Svartasta dæmið um húmor er að finna í „Öðruvísi ferðaljóð I“:
Þegar lestirnar skullu
saman, rétt sunnan við
Greifswald í Norður-
Þýskalandi, sat hann
við gluggann og las
Dauðann í Feneyjum
Litla borðið sem hann
hafði fellt niður til að
leggja bókina á, klippti
hann í tvennt
Hér vantar bara myndir eftir Hugleik til að fullkomna stemninguna. Og það merkilega er að hin fullkomna friðsæld heldur sér út í gegn, þrátt fyrir skellinn, sem fer svo snöggt framhjá að hann varla finnst, í staðinn staldrar lesandi við landakortið (hvar er nú Greifswald?) og bókina (ætli hann sé á leið til Feneyja, eða þaðan?) og loks við litla (ó)þægilega borðið sem einmitt myndar fullkominn hníf milli fjögurra lestasæta (og hver hefur ekki íhugað þann möguleika að þetta borð gæti skorið ferðalanginn í tvennt ef til árekstar kæmi).
Ég gæti haldið svona lengi áfram, en ljóð Gyrðis eru svo auðug í einfaldleika sínum að þau eru algerlega ómótstæðileg. Draumafjallgangan á Mars sem endar á því að ljóðmælandi hnoðar lítið tungl úr rauða leirnum sem hann finnur undir skósólunum á fjallgönguskónum er dæmi um þessi fallegu augnablik sem skáldskapurinn einn getur skapað og það sama má sega um það „Að lesa yfir sig af austurlenskum bókum“, en þar vaknar ljóðmælandi í bambusþykkni eftir að hafa lesið um kínverska aftökuaðferð með bambus. Og svo eru fjölmörg önnur ljóð um dauðann og depurðina sem draga fram ólíka sýn á þessi kunnuglegu þemu.
Eitt þeirra verður lokadæmið hér og nefnist „Nætursakir á Snæfellsnesi“. Ljóðmælandi ætlar að biðjast gistingar á bæ og „kvöldskugginn / af fjallinu lagðist yfir“. Til dyra kemur maður „með stóran / ryðgaðan ljá í höndunum:
„Hér borga menn nóttina
fyrirfram,“ rumdi í honum,
Af einhverjum ástæðum
fór að hljóma í höfðinu
á mér lína úr laginu um
hótelið með Eagles. Ég
leit á bílinn minn, sem
gekk nú annarlega
rykkjótt, og sagði við
manninn með ljáinn:
„Ég hef farið bæjavillt“
Að þessu sinni er dauðinn afþakkaður. Og þó nærvera hans sé samtsemáður stöðug þá þarf það ekki endilega að þýða neitt annað en dálítið öðruvísi ferðalag.
úlfhildur dagsdóttir, maí 2012