Hið stórfenglega leyndarmál heimsins eftir Steinar Braga hlýtur að teljast óvenjulegasta morðgáta jólabókaflóðsins að þessu sinni. Þar er kynntur til sögunnar íslenski leynispæjarinn Steinn Steinarr og aðstoðarmaður hans Muggur Maístjarna sem jafnframt skráir atburði. Kvöld eitt birtist maður á heimili Steins og reynist sá vera farþegi á skemmtiferðaskipinu Heiminum, hann tilkynnir þeim félögum að voveiflegir atburðir muni gerast á skipinu innan skamms og fær þá til að koma um borð og taka túr með skipinu. Og viti menn, fyrr en varir er ung stúlka myrt og kemur það auðvitað í hlut hins víðfræga spæjara að leysa málið sem reynist að sjálfsögðu miklu flóknara en virðist í fyrstu.
Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins er þannig öðrum þræði hreinræktuð morðsaga. Steinn Steinarr og Muggur Maístjarna eru kunnuglegar persónur en þar er sótt djarflega í smiðju Sir Arthur Conan Doyle og sagna hans um Sherlock Holmes og aðstoðarmann hans og ævisöguritara Dr. Watson. Steinn er á margan hátt líkur Holmes, hann klæðir sig eins, það vantar hvorki húfuna góðu né pípuna og hann er álíka fjölhæfur og nákvæmur þó að hann sé ekki alveg á heimavelli þegar kemur að tölvum. Eins og Holmes bregður hann sér í dulargervi, hann getur líka orðið afar tilfinningasamur og öfgafullur þegar hann rekur af leið og svo hefur hann erft kókaínfíkn fyrirmyndarinnar. Lesendur sjá Stein í gegnum frásögn Muggs sem er vanur að skrásetja ævintýri vinar síns sem er reyndar lítið um skrifin gefið. Muggur er býsna fallvaltur, hann drekkur til dæmis ótæpilega og hefur engan veginn sömu innsýn í málin og Steinn sem leysir þessa gátu eins og aðrar með ótrúlegri rökvísi og innsæi. Morðmálið er býsna flókið og lausu endarnir hrannast upp en höfundi tekst nokkuð vel að hnýta þá þó ég sé enn að velta sumu fyrir mér, en mig grunar að þeir endar sem eru lausir við lok bókarinnar eigi einmitt að vera þannig.
Leyndarmálið stórfenglega er þannig býsna sannfærandi morðsaga þó mér finnist hún verða full hæg um miðbikið. En hún er ekki aðeins morðsaga heldur líka frásögn af ákveðnu samtímaástandi. Skemmtiferðaskipið Heimurinn siglir viðstöðulaust umhverfis jörðina og þar geta menn búið allan ársins hring og aðeins farið í land þegar þeim hentar. Þannig er Heimurinn ákveðin flóttaleið fyrir þá sem einhverra hluta vegna kjósa að snúa baki við raunveruleikanum. Heimurinn hefur upp á margt að bjóða, veitingastaði, námskeið, verslanir, endalausa dægradvöl til að halda íbúunum við efnið. Þetta virðist vera þægilegur, yfirborðskenndur hversdagsleiki og er lýst í bókinni sem eftirsóknarverðum lífstíl. En við morðrannsóknina kemur í ljós hvernig raunveruleikinn hefur lag á því að brjóta sér leið í gegnum þessar hugmyndir um þægilegt líf og í raun má segja að hér sé verið að fjalla um möguleikana sem við höfum til að forðast raunveruleikann einmitt núna eða kannski öllu heldur búa til nýja veruleika.
Þar koma tölvur og internetið mikið við sögu og ekki verður farið nánar út í þá sálma til að spilla ekki fyrir þeim sem eiga eftir að lesa morðgátuna. Læt ég nægja að segja að hér er sýnt fram á hvernig margvísleg mishættuleg sambönd geta orðið til í sýndarheimum internetsins en þetta er auðvitað langt frá því að vera vísindaskáldskapur núorðið. Möguleikarnir til að stofna til tengsla við aðra og endurskapa sjálfan sig á internetinu eru ótrúlegir, nú eru til heilu heimarnir á netinu þar sem fólk hannar eigið útlit og persónuleika, stundar vinnu, fær greitt í einhverjum sýndarpeningum sem jafnvel er hægt að skipta út fyrir áþreifanlega gjaldmiðla, það er hægt að stunda kynlíf, gifta sig, eignast börn, allt í sýndarheimum. En það er svo spurning hvort maðurinn er tilbúinn til að lifa mörgum lífum, hafa allskonar lífstíla með tilheyrandi kröfum og svo framvegis. Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins opnar þessa möguleika og það á vægast sagt skuggalegan hátt. Allar þessar sýndarhugmyndir eru svo í sláandi ósamræmi við þá félaga Stein og Mugg sem eru vanir því að fást við mannlegt eðli upp á gamla mátann og þurfa því að setja sig í nýjar stellingar.
Þó að Hið stórfenglega leyndarmál Heimsins skeri sig að mörgu leyti frá öðrum verkum Steinars Braga má samt líka finna ákveðin líkindi. Steinar hefur áður fjallað um hliðarveruleika, til dæmis í skáldsögunum Sólskinsbörnin og Áhyggjudúkkur og sumpart minnir andrúmsloftið hér á þessar skáldsögur, sögusviðið er í senn raunsætt og óraunsætt. Það er líka háskaleg heimsendastemning í þessari bók eins og fyrri skáldsögum Steinars Braga, þó að morðgátan leysist að sjálfsögðu að lokum er morðið sjálft þó táknrænt fyrir ákveðið ástand sem leysist ekki si svona. Hér er því væntanlega aðeins um tímabundið logn að ræða eins og reyndar verða vill í lífi eftirsótts leynispæjara. Það áhugaverðasta í mínum huga við þessa bók eru líklegast átökin milli hins skuggalega en samt undarlega aðlaðandi sýndarveruleika og rökfestu hefðbundnu morðsögunnar og hins nokkurnveginn alvitra spæjara. Þarna skarast tveir heimar og tvær gerólíkar frásagnaraðferðir sem tengjast þeim og það kemur býsna vel út. Þessi bók situr nokkuð fast í mér og ég er ennþá að velta ýmsu fyrir mér í huganum, þetta er slungin frásögn sem sleppur manni ekki svo glatt. Og þegar á heildina er litið bara fínasta glæpasaga líka.
Þorgerður E. Sigurðardóttir, desember 2006