Beint í efni

Höfuð drekans á vatninu

Höfuð drekans á vatninu
Höfundur
Guðbrandur Siglaugsson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Aftan á bókarkápu stendur að Höfuð drekans á vatninu sé ellefta ljóðabók Guðbrands Siglaugssonar, allt frá árinu 1977. Þetta fannst mér athyglisvert og dáldið skelfd fór ég að skoða gegni.is og komst að því að svo virðist sem flestar séu þessar útgáfur með frekar smáu sniði, jafnvel einskonar sérútgáfur sem hafa ekki einu sinni ratað inn á þann ágæta bókaforðavef og alls ekki allar á mitt safn. Mér létti nokkuð, því annars var þetta farið að vera vandræðalegt: ég bara man ekki eftir að hafa rekist á þetta ljóðskáld áður. En því verður snarlega kippt í liðinn, því nú þegar ég hef lesið Höfuð drekans á vatninu er ég afar áhugasöm um að leggja mig eftir meira efni eftir Guðbrand.

Og af því að ég er forvitin þá þefaði ég uppi upplýsingar um þetta dularfulla skáld og komst að því að hann er bæði tónlistarmaður og myndlistarmaður og að fyrri bækur hans hafi, allavega einhverjar þeirra, einkennst af fallegu útliti sem svo oft má finna í metnaðarfullum sjálfsútgáfum. Því miður er ekki svo með þessa nýju bók, en hún er ein fjögurra ljóðabóka sem Uppheimar sendu frá sér í vor. Allar eru þær áhugaverðar en engin kallar á lestur með útliti sínu, reyndar svo að ég var búin að vera með þær á borðinu hjá mér alllengi áður en ég lagðist í lestur - en þá hætti ég heldur ekki.

Eftir þessi fororð er víst best að fjalla aðeins um ljóðin. Bókin er frekar þykk og mun lengri en hinar bækurnar þrjár í þessum ,flokki’. Að ósekju hefði mátt grisja, en þó er heildarmyndin sterk, skáldið vinnur með ítrekuð stef og víða birtast skemmtilegar tengingar milli ljóða. Sjóræningar birtast á allavega tveimur stöðum, sömuleiðis Oz. Skemmtilegasta dæmið er myndin ,dyr ljóðsins’ sem birtist fyrst í „Ljóð úr stofu”, og gengur aftur í tilbrigðum í „Lykilorð” (,gáttir ljóðsins’) og „Gamalt erindi” (,sá til dyra’) og jafnvel víðar (best að láta ekki um of undan svona freistingum). Eins og sjá má af þeirri mynd er eitt helsta stef bókarinnar skáldskapurinn sjálfur, samtalið við ljóðið og tungumálið, orð og stafi. Guðbrandur yrkir bæði til skáldkvenna og músa og hikar ekki við að skella fram stórum nöfnum sögunnar - en er sér jafnframt skemmtilega meðvitaður um það sem í slíku ,namedroppi’ felst:

Hroki

Ég ætla að leyfa mér
að yrkja allt þar til ég dey
þessu sömu gömlu kvæði:

Litlu gulu hænuna
og svo framvegis
upp á nýtt
og Ódysseifskviðu
og Ilíons
fyrir ljóðið eitt
og ógleymið
meðan allt
stendur heima stýft
og gagnbitað.

Þetta ljóð er dæmi um létt og leikandi ljóðmál, en einkenni bókarinnar er, eins og áður sagði, vinna með ljóðið sjálft. Því þó þessar tíu ljóðabækur hafi farið framhjá mér (og hvað veit ég svosum?) þá er ljóst að hér er á ferðinni þaulvant skáld. Fyrstu ljóðin gefa þetta strax til kynna, en þau eru ekki endilega ætluð til að leiða lesanda ljúflega inn í bókina. Án þess að vilja nota orðið stirð, þá má finna í þeim ákveðna mótstöðu, einskonar formlegheit. Þó vekja þau umsvifalaust forvitni: formið er athyglisvert, einhversstaðar á mörkum hefðbundinna ljóðhátta og frelsis rímleysisins, og virkar spennandi - en sumsé ekkert endilega aðgengilegt. Jafnframt skynjar lesandinn sérstæða hrynjandi, enda er skáldið einnig tónlistarmaður. Skoðum tvö erindi úr fyrsta ljóðinu, „Vörubílstjóri”:

Spölur til vors en grænt er í hugarins fylgsnum.
Með dulúð, en þó ekki dulúð, geng ég að borði.
Völubílstjórinn leikur að lykli og skrúfum.

Útvarpið þegir og enn er korteri sáldrað
á fíngerða vöku sem safnar ryki og spurn:

Hér er fjallað um tímann, sem er eitt þema ljóðanna, en tilfinningin fyrir tímanum fléttast mjög fljótt við skáldskapinn, eins og í fyrrnefndu „Ljóði úr stofu”, en þar glymur í bréfalúgunni „og byltingar og gagnbyltingar eru gerðar á víxl / á forstofugólfinu”. Ljóðmælandi, sem birtist hér í þriðju persónu „sér á blaðhausnum / að það er annar dagur en í gær / og dyr ljóðsins á nýjum vegg.”

Tónnin í þessu ljóði er dálítið grimmur, enda segir um ljóðmælanda: „Hann fyllist hroða / og glottir.” Sum ljóðanna eru pólitísk, jafnvel dramatísk, en önnur léttari og ísmeygilegri. Í fyrstu fannst mér það ofurlítið ruglandi að ljóðunum var ekki skipað niður á agaðari hátt (ég er jú bókaverja), því tóntegundin breytist ört, auk þess sem mörg ljóðanna eru í raun einskonar bálkar. Í seinni lestrum hætti þetta að trufla mig og í staðinn leyfði ég mér bara að flakka um þennan ljóðaheim, tilfinningin minnti svolítið á það að fljóta um í hæfilegum öldugangi. Ljóðið „Tveir harmleikir” teiknar ágætlega upp þetta flakk milli dramatíkur og kómíkur:

Á árshátíð hvíslaranna var rífandi
fjör og kjaftaði á hverjum og einum
hver tuskan. Þar var hvað atkvæðamestur
sá sem síðast las Hver er hræddur við 
Virginíu Woolf?

Aftur á móti var dauft 
yfir duftkerasmiðunum
sem áttu að skemmta sér
í hliðarsalnum. Þar var hvískrað um hvort
þeir væru eða væru ekki.

En snúum okkur aftur að árshátíð hvíslaranna:

Án þess að hafa hátt um það
er þögn einatt skýrasta svarið.

Hinsvegar er ekki minnsta ástæða til að þegja um þessa ljóðabók Guðbrands Siglaugssonar.

Úlfhildur Dagsdóttir, júní 2011.