Beint í efni

Hringnum lokað

Hringnum lokað
Höfundur
Michael Ridpath
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Dagur Þorleifsson

Skáldsaga breska höfundarins Michael Ridpath, Hringnum lokað, er lýst sem glæpasögu, alþjóðlegri metsölubók sem gerist á Íslandi. Bókin, sem á frummálinu nefnist Where The Shadows Lie, er sú fyrsta í nýrri glæpaseríu höfundar, undir yfirskriftinni ‚eldur og ís‘, en þar er hinn íslenski rannsóknarlögreglumaður Magnús í aðalhlutverki. Sagan kom út fyrr á þessu ári en höfundur er þegar tilbúinn með næstu bók, sem nefnist 66 North og kemur út á næsta ári.

Aðalviðfangsefni þessarar sögu er hringurinn Andvaranautur sem kemur fyrir í Norrænum goðsögnum. Upphaflega sagan er á þá leið að Óðinn og félagar hans, Loki og Hænir, eru á ferð saman (einu sinni sem oftar). Loki veiðir og drepur otur sem reynist vera sonur Hreiðmars nokkurs og bróðir þeirra Fáfnis og Regins. Hreiðmar þessi er mikill fyrir sér og krefst hárra manngjalda fyrir son sinn. Loki reynir að redda málum og kúgar gjaldið út úr dvergnum Andvara. Fengurinn inniheldur meðal annars hring, sem dvergnum er sérlega sárt um en Loki tekur samt og Andvari leggur þá bölvun á hringinn og alla sem eiga hann. 

Bölvunin virðist felast í því að eigandi hringsins eflist og magnast og verður erfiður viðureignar, en í kjölfarið fylgir ógæfa sem sækir á eigandann. Loki hefur ekki miklar áhyggjur af þessari bölvun og snýr til baka með feng sinn. Feðgarnir eignast hringinn og að sjálfsögðu byrjar hann strax að valda þeim vandræðum. Fáfnir drepur föður sinn, hirðir allt gullið og breytir sér í dreka – eða orm réttara sagt. Seinna drepur svo Sigurður Fáfnisbani drekann, sem kunnugt er, eignast hringinn sem heldur áfram að uppfylla bölvun sína og skapar sundrungu milli Sigurðar og mága hans, sem endar með því að þeir drepa Sigurð. Hringnum hendir annar þeirra í Rín og þar með lýkur sögu hans í Eddukvæðum.

Þar tekur hinsvegar bók Ridpath við. Víkingurinn Úlfur finnur hringinn í Rín og magnast allur upp við það, eldist meðal annars hægar en aðrir menn, en fellur svo að lokum í bardaga við Trandil (föður Gauks Trandilssonar sem bjó á Stöng). Trandill eignast hringinn en það snýst á verri veg fyrir honum líkt og öðrum, hann er á endanum drepinn af vinum sínum í Noregi, eftir að hafa sturlast. Sonur hans Ísildur (sem er viðbót höfundar við ætt Trandils og greinileg vísun í sögur Tolkien) fer út og fær hringinn og fylgir fingur Úlfs með. Þegar Ísildur fer aftur til Íslands fer ekki betur en svo að Gaukur nær hringnum af þessum bróður sínum og drepur hann en fóstbróðir þeirra, Ásgrímur, drepur síðan Gauk - eins og kemur fram í Njálu. Þegar Hekla gýs í kringum árið ellefu hundruð og Þjórsárdalur leggst i eyði, þar með talið bærinn á Stöng, hverfur loks hringurinn.

Löngu löngu síðar, í okkar nútíma, finnst hringurinn í hrauninu í Þjórsárdal og kemst í hendur prestsins í Hruna en fyrir honum fer sem fyrri eigendum, hann eflist fyrst en fer svo forgörðum. Það er hér sem annar þáttur sögunnar hefst, en sá er einfaldlega í búningi hversdagslegs amerísks reyfara. Þar er kynntur hinn íslenski rannsóknarlögreglumaður Magnús. Hann starfar í Bandaríkjunum og lendir í stríði við eiturlyfjahring frá Rómönsku-Ameríku, en kemst að því að lögreglan er blönduð í málið. Þetta stefnir honum í lífshættu og hann er sendur til Íslands í felur. 

Um leið og Magnús kemur til landsins lendir hann á kafi í hringmálunum. Búið er að drepa prófessor í  íslenskum fræðum og fleiri morð fylgja. Útlendingar sem hafa augastað á hringnum koma við sögu, meðal annars sérvitur amerískur grúskari og vörubílsstjóri frá Englandi, en þeir tilheyra hópi fólks sem hefur sérlegan áhuga á Hringadróttinssögu.

Frásögnin í Hringnum lokað er eins og til hliðar við Hringadróttinssögu breska höfundarins J.R.R. Tolkien, önnur saga en samt hliðstæð. Hringurinn sjálfur er greinilega sambærilegur, til dæmis eru rúnir ristar í hann og þar stendur ‚Andvaranautur‘. Persónur eru auðvitað aðrar, en þó bera sumar þeirra nöfn sem vísa í verk Tolkien. Meðal annarra tilvísana í Hringadróttinn má nefna eldsumbrot og djöfulgang og hlutverk Heklu. Sömuleiðis eru persónur látnar finna fyrir áhrifum hringsins, en seiðkona nokkur segir ill öfl fylgja honum. „Hann myndi fyrirkoma hverjum þeim sem ætti hann þar til svo mikill maður kæmist til valda að hann réði yfir gjörvallri veröldinn og myndi eyða öllu sem gott gat heitið og jörðin sykki í eilífðarmyrkur“ (101). Hringnum yrði að fyrirkoma með því að kasta honum í gin Heljar, sem í sögunni á greinilega að vera gígur Heklu með tilheyrandi vísun í sagnir um Heklu sem inngang Helvítis.

Lýsing höfundar á aðstæðum á Íslandi, í Reykjavík og á öðru umhverfi er nokkuð sannfærandi, hann horfir á þetta utanfrá og er margt vel gert í umfjöllun hans um Íslendinga. Þýðingin er sömuleiðis vel af hendi leyst. Sagan er í heildina séð ágætlega gerð. Það liggur afskaplega beint við að taka þennan hring Eddukvæðanna, sem margir hafa bent á að líktist nokkuð hring Tolkiens (þó hann afneitaði þeim tengslum sjálfur), og gera úr honum sögu. Sem spennusaga er verkið vel læsilegt og það er ekki hægt að kvarta yfir heimildavinnunni þó að einhverjar breytingar séu gerðar, eins og kannski má búast við.

Dagur Þorleifsson, desember 2010