Bergrún Íris Sævarsdótir og Simmi (Sigmundur Breiðfjörð) leiða saman hesta sína í ungmennabókinni VeikindaDagur sem kom nýverið út hjá Bókabeitunni. Sagan fjallar um Dag sem er skilin eftir einn heima í fyrsta sinn í nokkra daga. Hann gleymir að taka ADHD lyfin sín og í kjölfarið fara hrollvekjandi atburðir að gerast.
Í fyrsta kafla byrjar Dagur að verða slappur en heldur samt sínu striki og mætir í skólann, en slappleikinn ágerist og á endanum missir hann minnið í marga klukkutíma. Þá fær lesandinn að sjá fyrstu myndasögu Simma en þær brjóta upp textann í gegnum söguna. Fyrsta myndasagan er mjög myrk og erfitt er að átta sig á því hvað ber fyrir augu. En strax næsta dag þegar Dagur rankar við sér kemur í ljós að eitthvað saknæmt hefur átt sér stað á meðan hann missti minnið. Þó að Dagur fatti ekki sjálfur hvað hefur gerst verður það þegar í stað augljóst fyrir lesendur. Kápa bókarinnar og uppvakningamyndin sem Dagur horfir á í upphafi sögunnar gefa sterklega til kynna hvað er að hrjá hann. Að lokum kemur svo í ljós að lyfin sem hann mátti alls ekki gleyma eru ekki við ADHD heldur til að bæla niður uppvakningagen sem hefur fylgt fjölskyldu hans í nokkur hundruð ár.
Uppbygging bókarinnar er mjög áhugaverð. Texti Bergrúnar er settur upp líkt og dagbók þar sem hver kafli fjallar um einn dag í vikunni sem Dagur er einn heima. Kaflarnir eru svo brotnir upp með tímastimplum sem skipta sköpum seinna í sögunni þegar lögreglurannsókn fer af stað og Dagur er fastur á lögreglustöðinni og kemst ekki heim til að taka lyfin sín áður en einkenni uppvakningagensins brjótast fram á ný.
Þrátt fyrir að vera staddur í ansi súrrealískum aðstæðum eru vandamálin sem Dagur glímir við ansi hversdagsleg. Hann upplifir allskonar tilfinningar sem hann á erfitt með að skilja.
Neðri vörin tók að titra og tár spruttu fram í augun án þess að ég fengi við þau ráðið. Kalli hafði ekki séð mig gráta síðan ég var lítið barn. Ég var ekki barn lengur og dauðskammaðist mín fyrir að grenja svona. (83)
Inni á milli orðanna birtast svo myndasögur Simma sem eru hluti af framvindunni. Myndirnar bæta ekki aðeins upp textann heldur sýna einnig atburði sem ekki er sagt frá í textanum þegar Dagur missir minnið. Í fyrstu var ég dálítið svekkt að myndirnar skyldu ekki vera í lit til að ýkja splatterlegar myndirnar en eftir að hafa lokið lestrinum skil ég þá ákvörðun að hafa myndasögurnar svarthvítar. Dulúðin yfir voðaverkunum verður meiri og oft ógeðfelldar lýsingar Bergrúnar í textanum fá annað vægi vegna litleysis myndanna.
Í þetta sinn sótti ég hægri þumal og vinstri stórutá. Staðgóður morgunverður, hugsaði ég og kjamsaði á þykkri tánni. Það tók dálítinn tíma að naga gróft siggið og greinilegt að Agnes sparaði við sig að mæta í fótsnyrtingu. Þetta var þó merkilega gott og minnti dálítið á stökka purusteik. (70)
Þrátt fyrir að vera í grunninn hrollvekja er sagan einnig ástarsaga. Þegar uppvakningagenið brýst úr fjötrum lyfjanna býr Dagur yfir ýmsum ofurmannlegum hæfileikum eins og ofursjón, auknum hraða og síðast en ekki síst meira sjálfstrausti. Áður hafði hann verið vandræðalegur og feiminn en eftir að hafa svalað blóðþorstanum líður honum svo vel að hann þorir að tala við Ylfu Dögg, stelpuna sem hann er bálskotinn í. Ekki bara það heldur er hann líka hnyttinn og heillandi og Ylfa endurgeldur áhugann. Ástarsaga Ylfu og Dags sýnir fullkomna unglingaást, yfirdrifnar tilfinningar og vandræðaleika í fallegu jafnvægi.
Nýfundið sjálfstraust Dags gerir honum líka kleift að afvegaleiða lögguna þegar hún tekur að spyrja hann um hvarf bekkjarfélaga hans sem hann gæddi sér á nokkrum kvöldum fyrr. En þrátt fyrir skrímslið sem býr í honum, sýna innri samræður Dags að mannlegt eðli hans er ekki alveg horfið og hann upplifir togstreitu. Eitt fórnarlamba hans, Breki, á tvo pabba og eftir að Dagur lýgur því að löggunni að hann hafi verið þunglyndur og íhugað sjálfsmorð heyrir hann fólk leiða hugann að því að það geti verið vegna þess að hann hafi aldrei upplifað sanna móðurást. Viðbrögð Dags við þessu sýna hlægilega togstreituna sem hann upplifir.
Á meðan ég hneykslaðist á fordómafullu viðhorfi Eyrúnar fann ég sterkt fyrir eigin hrænsni. Ég hafði ekki átt í neinum vandræðum með að drepa og éta Breka. Það vottaði ekki fyrir minnsta samviskubiti, hvorki gagnvart foreldrum hans, né fjölskyldum vöðvatröllsins eða Agnesar. Hvernig gat ég verið algjörlega siðblindur en á sama tíma var ég svaka meðvitaður og réttsýnn? (71)
VeikindaDagur er stórskemmtileg bók og útkoma samvinnu Bergrúnar og Simma er glæsilegt listaverk þar sem texti og myndir skipta jafnmiklu máli og saman mynda góða heild. Sagan er ógeðfelld og sprenghlægileg á sama tíma. Bergrún Íris kemur sterk inn í ungmennabækurnar eftir að hafa margsannað sig sem höfundur fyrir yngri lesendur. Sérstaklega ber að nefna það hvað orðafar unglinganna er áreynsluslaust, sannfærandi og hæfilega vandræðalegt en það er ekki á allra færi að skrifa sannfærandi unglingamál. Hryllingurinn og ástin mynda fallega fléttu þar sem mannlegar tilfinningar og ógeðslegar gjörðir fara með lesendur í stórkostlegt ferðalag.
Kristín Lilja, nóvember 2023