Beint í efni

Hugsjónadruslan

Hugsjónadruslan
Höfundur
Eiríkur Örn Norðdahl
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Gömul laglína úr Bubbalagi hljómaði í hausnum á mér þegar ég lagði frá mér skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahls, Hugsjónadruslan. Eitthvað um glugga og norðanvind, afskaplega hugljúft eitthvað og ekki alveg fannst mér í takt við lesturinn. Svo kom þetta, hægt og hægt, línan sem kallaði lagið fram: „það er ekkert hér“. Ekki man ég hvað lagið heitir, en textinn er eitthvað á þessa leið: „stundum heyri ég hlátur, í gólffjölum marra, hjartað tekur kipp, en það er ekkert hér“. Og þá var það komið, það sem ég hef um bók Eríks að segja.

Í raun væri hægt að hætta hér, en tökum upp hátt sögumannsins sjálfs, sem í miðri bók ávarpar lesandann og ræðir við hann um bókmenntir og hefðir og segir svo: „byrjum aftur“ og síðar „byrjum enn á ný“.

Hugsjónadruslan segir frá ungum manni sem er búin að vinna ógurlega mikið (alveg tvöfalt) til að geta farið til Kaupmannahafnar að hitta stúlku sem hann hefur kynnst í gegnum internetið. Þau eru bæði mikið hugsjónafólk, hann þó öllu meiri hugsjónadrusla, eins og hann lýsir sjálfum sér. En sumsé, bæði eru þau upptekin af pólitískum málum samtímans, hjá sögumanni, Þrándi, kemur þetta sérstaklega fram í gagnrýni á nýrri útlendingapólitík Dana. Á leiðinni, í Norrænu, hittir Þrándur unga og fríða Færeyjamey og ástamálin fara ofurlítið á flakk. Í Kaupmannahöfn hittir hann svo netvinkonuna, Maggie, en hún reynist all-flókin í viðskiptum og er á leið til Árósa til fundar við (fyrrum?) kærustu. Þrándur leitar á náðir vinar síns Billa, sem er hommi og heldur til í Kristjaníu og saman svalla þeir mikið.

(Ef marka má sögumann er ekki meira um málið að segja, en á blaðsíðu 124, í áðurnefndu rithöfundaspjalli, segir hann: „Í þessari sögu er ekkert að finna sem ekki stendur hér skrifað“ og „Það eina sem dvelur á milli línanna eru lygarnar sem kvikna í hugum ykkar sjálfra.“ Þar sem sagan fjallar öðrum þræði um lygar, en sögumaður lýsir sér sem krónískum lygara sem nú sé heltekinn af sannleikanum, er dálítið erfitt að líta á þessi orð sem annað en skáldskaparlegt trikk, en ég hef þá allavega sinnt upplýsingaskyldu minni við lesanda þessa pistils.)

Sagan er að hluta til ferðasaga, því fyrri hluti hennar gerist á ferðalaginu og lýsir ýmsum ævintýrum þar, meðal annars örlagaríkum fundi við berklaveikan hassista. Einn enn þráðurinn er dagbókin, en sögumaður hefur ákveðið að skrifa dagbók, þó honum hafi ekki hugnast slíkt áður. Inn í söguþráðinn blandast svo afturlit, þarsem sögumaður rifjar upp atriði úr ævi sinni, og tölvupóstar, aðallega frá stúlkunum tveimur.

Skáldsagan var kynnt á kraftmikinn hátt sem ögrandi saga eftir ungan höfund, en það er dálítið erfitt að sjá hvað er ögrandi hér, „hispursleysið ... jafnt í ríki hugmyndanna sem kynferðismálanna“, sem lofað er á baksíðu tókst mér aldrei að finna, þó nóg hafi verið af kynlífinu, en lýsingar á því má sjálfsagt kalla hispurslausar eins og hvað annað, þá var hugmynda- og hugsjónaumræðan öllu takmarkaðari. Þannig varð ég eiginlega dálítið kjaftstopp eftir lesturinn, því mér fannst verkið óttalega átakalítið. Vissulega var sagan fyndin á köflum (hlátur), og á stundum marraði aðeins í gólffjölum skáldskaparins; ég tók við mér, en svo rann þetta út í sandinn, „það er ekkert hér“.

Óneitanlega minnti sagan mig dálítið á aðra skáldsögu annars ungs manns, sem kom út fyrir jólin 2003, Áhrif mín á mannkynssöguna eftir Guðmund Steingrímsson: báðar sögurnar einkennast af gífurlegri löngun til að skrifa, en hvorug þeirra gefur til kynna að höfundur hafi neitt að segja.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2005