Beint í efni

Hundgá úr annarri sveit

Hundgá úr annarri sveit
Höfundur
Eyþór Árnason
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hann var sannarlega hrókur alls fagnaðar, nýkrýnda ljóðskáldið Eyþór Árnason, þegar hann tók við bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar á Borgarbókasafninu hinn skáldlega dag 13. október (sem er afmælisdagur Steins Steinarrs (og pabba)). Þetta er í fjórða sinn sem bókmenntaverðlaun kennd við Reykjavíkurskáldið eru helguð ljóðum eingöngu og svo virðist sem þar sé að myndast hefð fyrir því að vekja athygli á nýjum skáldum. Ingunn Snædal var vissulega enginn nýgræðingur þegar hún hlaut þau árið 2006, en var þó ekki almennt þekkt. Árið eftir læknaði Ari Jóhannesson ljóðið í Öskudögum og í fyrra voru ljóð Magnúsar Sigurðssonar í Fiðrildi, myntu og spörfuglum Lesbíu alveg laus við kreppu.

Og í ár ber Tómas Guðmundsson enn með sér einhvern ferskleika, en ljóðin í Hundgá úr annarri sveit eru að vissu leyti áþekk ljóðabók Ara; þau eru greinilega skrifuð yfir nokkuð langt tímabil, hafa yfir sér ákveðið yfirbragð samtínings, án þess þó að vera eitthvað samsull eða sitthvað. Heildarmyndin í ljóðum Ara skapaðist af tengingum hans milli læknastarfsins og ljóðsins, en í ljóðum Eyþórs má finna sterkan þráð tilvísana til fólks, leikara, skálda og skáldaðra sem óskáldlegra persóna sem stundum eru nefnd með nafni, en stundum ekki. Mögulega kemur þetta til af tengslum skáldsins við leikarastarfið, en í ljóðinu „Apríl 2005” er ljóðmælandi í „leikarastellingum í Reykjavík” meðan páfinn liggur „fársjúkur suðrí Róm”. Ljóðmælandi hugar að textanum en tekst svo á loft með hundslappadrífunni sem er kunnuglegur gestur aprílmánaðar, flögrar yfir í Landakotskirkju og sér þar andlit gamla páfans mást út: „og í staðinn kemur engilblíð / ásjóna Bjössa Karls í ljós og það er / auðséð að hann er þess albúinn að taka / þetta hlutverk að sér”. Á þennan hátt er fólkið í ljóðunum einhverskonar persónur í hlutverkum, hvort sem það eru Clint Eastwood, Jenný eða fjórir kunnuglegir menn á leið yfir gangbraut.

Skáldið bregður sér svo sjálft í ýmis hlutverk, sem hæfir anda samtíningsins; ýmist eru ljóðin mínímalísk og dálítið dramatísk eða orðmörg og glöð en styrkur Eyþórs liggur þó fyrst og fremst í þeim síðarnefndu, þó hið tálgaða ljóð eigi sér vissulega sín sterku móment eins og „Við vatnið”:

Sporin lágu niður að
vatninu

Nýfallinn snjór í sólinni
og vatnið kyrrt

Á borðinu í skálanum
var miði:

„Er farinn að veiða”

Morguninn eftir var full fata
af hornsílum á pallinum

Og miði:

„Þeir stóru koma seinna”

Hér teiknast upp ofurlítið augnablik sem þó hefur klassískar skýrskotanir. Hér ber hvergi á tilgerð þó notast sé við ofurþekkt myndmál en slíkur ferskleiki einkennir almennt ljóðin í Hundgá úr annarri sveit og gefur til kynna að hér sé á ferðinni nýtt skáld - sem tilheyrir þó ekki endilega dýrategundinni ‘ungskáld’. Þó má vissulega einnig merkja óþarflega kunnuglega ‘ljóðrænu’, eða bara klisjur, sem eru, vel að merkja, langtífrá óþekktar hjá vanari skáldum, en er auðvelt að afgreiða hér sem reynsluleysi, sem jafnvel getur orðið svolítið sætt á stundum. Þannig er mikið af sporum, eða skorti á slíkum, en slíkum hættir til að verða dálítið dramatísk. Spor Eyþórs eru þó lunkin á köflum eins og í öðru sporaljóði:

Óboðinn gestur

Einn morgun
var skyndilega óboðinn gestur
í draumum mínum

Ég hef aldrei sagt frá þessu fyrr
reynt að breiða yfir...
en nú fæ ég ekki dulið þetta lengur

því alltaf sjást 
sporin í dögginni

Það er ómögulegt annað en hugsa til ástarljóðs Vilborgar Dagbjartsdóttur, en þar koma einmitt spor uppum alltsaman.

Meirihluti ljóðanna er þó meira á flugi og ferð, til dæmis Fuglaflensu ljóðin tvö sem segja frá rjúpum Guðmundar frá Miðdal og hvítu hröfnunum á Mýrum. Einnig stinga sér niður mystísk ljóð eins og „Sigling”, sem er enn eitt dæmið um notkun á kunnuglegu minni sem Eyþór færir í nýtt form, en þar hoppar ljóðmælandi milli skipa, frá því sem siglir í sólarátt, yfir á „dallinn / sem stundar sjórán” og tekur sér svo loks far „með / svörtu skipunum / sem sigla í tungláttina / og leggja að bryggju / bak við mánann // Þar bíða / skuggalegir menn / með skjalatöskur / fullar af engu”. Á einhvern hátt næst að bjarga þessu ljóði frá því að verða dramatísk tilgerð, þrátt fyrir að það bjóði uppá alla möguleika til þess. Kannski er það vegna þess að dauðinn, sem iðulega fylgir ljóðrænum siglingum fær einfaldlega ekki far með bátum Eyþórs og skuggalegu mennirnir eru ekki ógvænlegir, heldur frekar einhvernveginn eins og útrásarvíkingarnir, bara einhverjir náungar, útbelgdir af engu.

Önnur ljóð segja frá fiskum og veiðum, og enn önnur, eins og áður segir, eru mönnuð misþekktum persónum. Húmorinn er almennt ráðandi í þessum ljóðum, í bland við afslöppuð tengsl við náttúru og umhverfi og líflegt hugmyndaflug, sem gerir meira að segja heimsendi að skemmtilegum atburði:

Augun blunda.
Vatnskettir hugans
kíkja í gegnum skráargatið.
Fiðlustrengurinn er þaninn.
Með útungunarvél bak við
klósettkassann hefur tekist
að svæfa margar vekjaraklukkur.
Fjaðrirnar úr þeim fylla alla fataskápa.
Brátt verður ekki við neitt ráðið.
Boðskortin hafa verið send út

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009