Beint í efni

Hvernig ég kynntist fiskunum

Hvernig ég kynntist fiskunum
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
hljóðbók.is
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Hljóðbækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í raun gæti þessi fyrirsögn verið: „Veiðar og stríð“, en þá er hætt við að lesendur álíti að hér sé um einhverja klisju að ræða og missi áhugann. Þó er það svo að viðfangsefni smásagnasafns Ota Pavel, Hvernig ég kynntist fiskunum, er einmitt veiðar og stríð en tök hans á samspili þessara þema, sem svo auðveldlega gætu virkað margtuggin, eru þannig að þau virka nýbökuð, rjúkandi fersk eins og innyfli úr nýveiddu dýri.

Verkið er nefnt smásagnasafn, en þó eru sögurnar svo þétttengdar að í raun gæti fullt eins verið um skáldsögu að ræða, eða eins og segir í káputexta: „Verkið leikur á mörkum skáldsagna- og smásagnagerðar“. Reyndar eru þessi mörk bókmenntaforma ekki alltaf eins skýr og tegundaheitin gefa til kynna, smásagnasöfn geta iðulega virkað skáldsöguleg, auk þess sem það er ekki alltaf auðvelt að skilja á milli stuttra skáldsagna og langra smásagna, eða örstuttra smásagna og prósaljóða. Þýðandi bókarinnar, Norðurlandameistarinn Gyrðir Elíasson, er einmitt dæmi um höfund sem labbar reglulega yfir bókmenntalegar landamæralínur. Eitt smásagnasafna hans, Bréfbátarigningin (1988), hefur einmitt verið skoðað í samhengi við þennan ‚leik á mörkum skáldsagna- og smásagnagerðar‘, í grein Svanhildar Óskarsdóttur (Heimur skáldsögunnar 2001).

Ennfremur er bókin blanda æviskrifa og skáldskapar, en sögurnar byggja á bernskuminningum höfundar. Ota Pavel er tékkneskur og faðir hans er gyðingur. Sögurnar gerast í kringum síðari heimsstyrjöld, fyrstu sögurnar fyrir stríð, nokkrar á meðan stríðinu stendur og þær síðustu eftir að styrjöldinni og hernámi Þjóðverja lýkur. Helsta áherslan er þó ekki stríðið, eða réttara sagt, lýsingar á stríðinu, heldur veiðar, aðallega fiskveiðar, en hjartarveiðar koma líka við sögu. Veiðarnar, og kynni sögumanns af fiskunum, taka svo á sig nýja mynd þegar stríðið byrjar. Áður voru veiðarnar sport, næstum listgrein, sem tjáði samband manns og náttúru, þrungið gagnkvæmri virðingu (eða allavega virðingu manns gagnvart náttúru, en fiskarnir virðast á einhvern sjarmerandi hátt nokkuð virkir aðilar). Í stríðinu verða veiðarnar að nauðsyn, sem síðan verður forboðin, því nasistar eigna sér alla bráð. Veiðarnar verða því táknrænar í tvöföldum skilningi, bæði hvað varðar hernað sem veiðar og svo veiðar sem lífsafkomu þeirra sem hernaðurinn bitnar helst á. Nauðsynin eykst þegar eldri bræður sögumanns og faðir hans eru sendir í fangabúðir; ein sagan lýsir því þegar faðirinn í örvæntingu sinni veiðir hjartardýr, í trássi við bann nasista, og gefur sonum sínum að borða rjúkandi heitt kjöt áður en þeir fara í fangabúðirnar.

Hjörtinn veiðir hann með aðstoð vinar síns, mikils veiðimanns, en sá á hund sem hefur náð einstakri tækni við að fella hjört. Vinátta og manngæska er áberandi stef, öfugt við margar stríðssögur sem lýsa uppljóstrunum og mannvonsku. Fjölskyldunni er hjálpað eftir föngum og þó ein dýrmætasta bráðin sé vissulega tekin af drengnum, þá er bjart yfir sögunum. Sumar eru beinlínis bráðfyndnar, þó aðallega þær sem gerast fyrir og eftir stríð, og ber þar hæst lýsingar á tilraunum föðurins til að auðgast á skjótan hátt.

Þýðing Gyrðis er hljómmikil og lesandi finnur hvernig fiskarnir sprikla í textanum sem á stundum tekst á loft í lýsingum á íbúum vatna. Sagan af álnum, „Flökkufiskinum mikla“, undir lok bókarinnar er sérlega fallegt dæmi, ekki síst í ljósi þess hversu mikla fordóma þessi snákumlíki fiskur hefur þurft að þola:

Ég gekk aftur að náttstað okkar, lagðist í grasið rétt við eldinn og hugsaði um þennan ál, þennan flökkufisk og allt hans kyn. Líf hans, hugsaði ég, geymdi fleiri ráðgátur en staðreyndir. Ég hugsaði um alla þá fiska sem hafa synt á þessari jörð í milljónir ára, þátttakendur í leyndarmáli ánna, stöðuvatnanna og hafsins. (149)

Öll náttúran vakir yfir vötnunum, enda er vatnið upphaf og endir alls: „Öggar stukku eftir smærri fiskum, og leðurblökur svifu hljóðlega til og frá milli elritrjánna. Stjörnurnar syntu í ánni og máninn leit eftir þeim, hafði áhyggjur af hverri einustu þeirra, því Alheimur frændi hafði trúað honum fyrir þeim og mundi refsa honum ef hann verndaði þær ekki“ (148).

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2011.