Beint í efni

Hversdagsgæfa

Hversdagsgæfa
Höfundur
Þóra Jónsdóttir
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Smáprósar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Stundum er ég fengin til að fjalla um hlutverk gagnrýnandans. Eitt af því sem ég legg mikla áherslu á er að gagnrýnandinn á að þjóna lesendum bókarinnar, mun frekar en höfundi hennar (hvað þá útgefanda). Í því hlutverki felst að gefa lesanda upplýsingar um bókina, höfund hennar og inntak og þar á meðal að segja til um hverskonar bók er að ræða. Allt er þetta afskaplega göfugt en þó ekkert endilega svo auðframkvæmanlegt, því svo vill til að bækur eru margskonar og hafa tilhneygingu til að skríða undan viðteknum flokkunum. Dæmi um þetta er hvernig mörk skáldsögu og æviskrifa hafa tæst upp á undanförnum árum (jafnvel áratugum), þótt vissulega séu enn gefnar út hefðbundnar ævisögur og skáldsögur. Annað dæmi er það sem á bokmenntir.is er kallað „smáprósar” flokkur sem gæti í raun hvort sem er tilheyrt ljóði eða smásögum, jafnvel skáldsögu (þó öllu lengra sé í skáldsöguna, svona yfirleitt).

Bók Þóru Jónsdóttur, Hversdagsgæfa, er gott dæmi um hvort tveggja, óljós skil æviskrifa og skáldskapar plús óljós skil ljóða og prósaskrifa. Í bókatíðindum er hún flokkuð með skáldverkum (prósum), þó mér finnist persónulega að verkið sé skyldara ljóðinu. Smáprósar lýsir fyrirbærinu vissulega vel, en segja þó ekki alla söguna, því smáprósarnir í þessu tilfelli mynda einskonar samfellu, heildstætt verk frekar en samsafn.

Þóra hefur síðustu áratugina sent frá sér 10 ljóðabækur og árið 2005 kom út ljóðasafn hennar hjá Sölku. Hún er eitt þeirra skálda sem ekki ber mikið á, og ekki mun þessi bók líkleg til að vekja á henni frekari athygli, en útgáfan er í alla staði hljóðlát, bókin lítil um sig og prósarnir fjarri öllum æsingi. Það þýðir þó ekki að bókin sé hljóðlát að gæðum, en sem fyrr búa texta Þóru yfir einkennilega heillandi yfirbragði, í raun öllu því sem gera ljóð góð (svo ég haldi mig við mína eigin bókaflokkun). Á margan hátt minna prósarnir í Hversdagsgæfu á þulukennd ljóð í einni af fyrri bókum höfundar, Línur í lófa (1991), en sú bók er nokkuð ólík öðrum verkum hennar. Ljóðin eru frásagnarkenndari og byggja á minningum úr æsku skáldkonunnar. Hér er einnig á ferð einhverskonar upprifjun, þó ekki sé endilega ljóst hvað sé skáldskapur eða hvað minningar (enda skiptir það engu máli).

Bókin skiptist í sex hluta og hverjum hluta fylgir ljósmynd, yfirleitt gamaldags eða gömul mynd. Þetta, í bland við lítið og fallegt brot bókarinnar, gerir hana strax að sérlega fallegum grip, sem prósarnir undirstrika enn frekar. Þó sjóndeildarhringurinn sé ekkert endilega mjög víður fer Þóra vítt og breytt um, sumir prósanna lýsa æsku í sveit, aðrir borginni, borgarbúum og enn aðrir ferðalögum. Sögumenn eða ljóðmælendur eru ýmist ungir eða gamlir og þjóðsagan er skáldkonunni sem fyrr nærtæk. Í eldhúsinu gengur gamla vinnukonan aftur og í fjallinu býr tröllkona, margir prósanna eru svo einskonar draumsýnir. 

Ferðasögurnar eru fyndnastar, en þar segir meðal annars frá hárlagningu sem hélst óhögguð vikulanga strandferð með Esjunni. Í annarri sögu eru tvær gamlar konur á ferð og njóta þess hvað fararstjórinn tekur lífinu rólega. En þegar þær villast í Dimmuborgum kemur í ljós að hann er kærulaus líka, því rútan fer án þeirra: „Óvænt finnst okkur það léttir og höldum áfram á puttanum.” Það er einhver tærleiki í textum Þóru sem gerir þá bæði aðgengilega og heillandi, jafnt þá kómísku sem þá alvörugefnu.

Hversdagurinn er helsta viðfangsefnið með öllum sínum undrum, meðal annars hanska sem sögukona finnur og tyllir í gluggakistu, bara til að hitta þar stuttu síðar fyrir konu sem er ægiglöð yfir að hafa fundið hanskann sinn: „Ég samgleðst því að blár kvenhanski, nöturlegt tákn einsemdar og reiðileysis, hefur raðast snögglega á réttan stað í almyndina. Þetta örstykki í púsluspili tilverunnar.” Og þannig er bók Þóru, örstykki í púsluspili skáldskaparins, einmitt eitt þeirra stykkja sem heldur myndinni saman.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010