Það fór ekki hjá því að mann sundlaði öðru hvoru við lestur Í hendi Guðs eftir Niccolò Ammaniti, svo mörg voru fylleríin, svo mikil ölvunin, svo magnaðir timburmennirnir, að það var eins og stæðu áfengisgufur upp af bókinni þar sem hún lá á sófaborðinu. Lestrarreynslan minnti einna helst á áfengan ógeðsdrykk.
Sagan segir frá ákaflega ólánsömum feðgum, fátækum og næstum allslausum, vinum þeirra, fortíð og atburðum á örlíkaríkri nótt. Miðja bókarinnar og þungamiðja atburðarásarinnar gæti haft yfirskriftina ‘It was a dark and stormy night’ því hún gerist um nótt í nóaflóðslegu ofviðri. Þetta er vel þekkt minni úr bókmenntum og kvikmyndum og nægir að nefna Eftirmála regndropanna eftir Einar Má Guðmundsson sem dæmi um þegar fjölmargir ótengdir atburðir spinnast saman á epískri óveðursnótt.
Lýsingarnar eru sérlega grafískar, ofbeldið gegndarlaust og hlífir lesandanum aldrei, því endursögnin er aldrei látin duga, heldur eru allir atburðir sviðsettir og öllum hræðslubrögðum ofbeldislýsinga beitt: Dýr í hættu, konur í hættu, börn í hættu. Málgleðin er ógurleg og dembist yfir lesandann eins og foss, ekkert er svo ómerkilegt að því sé ekki fundinn þarna staður (sbr. fjölda klósettferða, uppkasta, timburmanna o.s.frv.) og engin aukapersóna svo léttvæg að hennar saga komist ekki að.
Þetta er önnur bókin eftir Ammaniti sem Bjartur gefur út, sú fyrri, Ég er ekki hræddur, kom út 2004. Hann hefur vakið töluverða eftirtekt og deilur í heimalandinu Ítalíu með fyrri bókum sínum, þar sem hann gerir miskunnarlaust grín að ítölskum gildum og ítölskum þjóðernisímyndum – meintri fágun þeirra, trúarhita og fleiru og fleiru. Þessi bók er framhald af þeirri ranghverfu mynd af póstkorta-Ítalíu sem höfundurinn hefur einbeitt sér að. Persónurnar eru meira og minna sér í lagi ógeðfelldar, siðlausar, reikular, veiklunda og trú þeirra er ekkert nema hræsni. Þarna koma við sögu rasistar, kvenhatarar, glæpamenn, fyllibyttur og siðspilltir vinnuveitendur.
Samband feðganna er miðja bókarinnar og í raun það eina sem eftir stendur í öllum hamaganginum. Blind ást sonarins á meira lagi ógeðfelldum föður er aumkunarverð, en um leið virðast það vera einu ‘ekta’ tilfinningar bókarinnar; þessar sem eru milli foreldra og barna. Bókin sver sig mjög í ætt við ákveðna tegund af lýsingum á undirmálsfólki í bókmenntum og kvikmyndum frá öllum heimshornum. Textinn einkennist af miskunnarleysi gagnvart persónunum, farsakenndum lýsingum á heimsku þeirra og ráðaleysi, ofbeldi og fylleríum. Undirmálsfólkið lifir skelfilegu lífi sem lýst er af töffaraskap og kaldhæðni og viðleitni þeirra er öll meira og minna fyrirfram vonlaus en svo kemur í ljós að millistéttin og ‘heiðvirða’ fólkið er ekkert öðruvísi, alveg jafn siðlaust og villimannslegt og jafnvel verra því það hefur völdin.
Þegar kollsteypa skal fegruðum ímyndum og hugmyndum er auðvitað oft gripið til þess að sýna ranghverfuna hroðalegu. Þetta mætti kalla ‘tell it like it is’-skólann, en útkoman hefði alveg mátt vera frjórri, þótt atburðarásin sé byggð upp í spennandi stíganda og oft megi hlæja að ólukkulegri keðju atburðanna, þá eru hugmyndirnar sem á er byggt helst til fyrirsjáanlegar og fátt þar sem kemur á óvart.
Án þess að nokkur samanburður hafi verið gerður við frummálið er þó óhætt að segja að þýðingin sé að mestu hnökralaus, þótt hún hefði vel þolað einn prófarkalestur til viðbótar.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2008.