Sumarandinn svífur yfir vötnum í Iðunn og afi pönk, nýjustu barnabók Gerðar Kristnýjar. Sagan gerist í Mosfellsbæ og fjallar um hina 11 ára gömlu Iðunni og fjölskyldu hennar. Iðunn er nokkuð hress týpa, yfirleitt frekar ánægð með lífið og er jákvæð og praktísk að eðlisfari. Bókin hefst á því að haldið er upp á 11 ára afmæli hennar og vinkonur hennar koma og fagna með henni. Afmælisveislan heppnast mjög vel, hún fær nýtt hjól í afmælisgjöf og á almennt frábæran dag. Fram undan er svo enn meiri skemmtun því foreldrar hennar ætla í nokkurra daga hálendisgöngu og afi Iðunnar ætlar að koma passa hana á meðan. Iðunn hlakkar mikið til því afi hennar gefur alltaf alveg frábærar og óvenjulegar gjafir og er þar að auki uppátækjasamur og skemmtilegur. Afi Iðunnar er reyndar ekki mjög hefðbundinn afi, hann er gamall pönkari og spáir ekki mikið í hvað öðrum finnst um hann. Hann hlustar á pönktónlist, klæðist yfirleitt stuttermabol með mynd af hljómsveitinni Ramones og ekur um á háværum, gömlum skrjóð sem vekur almenna hneykslan hvert sem hann kemur.
Foreldrar Iðunnar hafa nokkrar áhyggjur af pössuninni, aðallega vegna þess að í næsta húsi búa afskaplega korrekt og friðelskandi hjón sem finnst afi Iðunnar helst til óheflaður og hávær og ekki er laust við að Iðunn hafi svolitlar áhyggjur af þessu líka, nágrannana vegna. Áhyggjurnar reynast ekki úr lausu lofti gripnar og foreldrar Iðunnar eru varla farin út úr húsi þegar allt virðist komið í óefni, ekki bara tekst afa að móðga nágrannana alveg stórkostlega, heldur er nýja flotta hjólinu hennar Iðunnar stolið. Iðunn og afi hennar fara strax að reyna að finna leiðir til að endurheimta hjólið og Iðunn virkjar vinkonu sína með sér í leitinni. Ekkert virðist ganga né reka og ekki bætir úr skák að þrátt fyrir að hafa gefið Iðunni afmælisgjöf sem stendur algerlega undir væntingum er afi ekki alveg eins skemmtilegur og venjulega. Hann er alltaf eitthvað að hanga í kringum aðra nágrannakonu þeirra, hana Klöru, sem er einhleyp eins og afi og virðist ekki leiðast samveran með honum.
Yfirbragð sögunnar er létt og fullt af húmor þrátt fyrir hjólastuldinn. Iðunn ver vissulega töluverðum tíma í að leita að hjólinu en nær samt alveg að skemmta sér og hafa gaman af lífinu inn á milli. Hún fer á reiðnámskeið og tekur sér líka af og til pásur frá hjólaleitinni og skellir sér á trampólín með vinkonu sinni, það hreinsar hugann að hennar mati sem getur verið afskaplega gagnlegt af og til. Þessi skoðun hennar lýsir Iðunni reyndar ágætlega því hún er skynsöm og djúpt þenkjandi og hugmyndirnar sem afi hennar kynnir fyrir henni um nauðsyn þess að hafa smá pönk í lífinu, eða að hugsa út fyrir kassann og festast ekki í fyrirframgefnum hugmyndum, vekja hana enn frekar til umhugsunar.
Út frá pælingum Iðunnar um fólkið í kringum hana spinnast oft fyndnar aðstæður, en það sem öðrum finnst eðlilegt kemur Iðunni oft spánskt fyrir sjónir. Má þar til dæmis nefna farangurinn sem foreldrar hennar hafa með sér í fjallgönguna, sem samanstendur eftir því sem Iðunn kemst næst aðallega af ullarfötum og plástrum en hún fær ekki fyrir nokkra muni skilið hvað getur verið spennandi við ferð þar sem þarf slíka hluti með sér. Samræður hennar við afann eru líka oft skondnar, enda eru hugmyndir hans um lífið og tilveruna oft ansi flippaðar og ólíkar hugmyndum annarra. Tilraunir hans til að aðstoða nágrannana við garðyrkju enda þannig með ósköpum þegar hugmyndir hans um runnaklippingar samræmast ekki þeirra og hann er ákveðinn í því að velta sér nakinn upp úr dögginni í garðinum á Jónsmessunótt, hvað sem Iðunni og nágrönnunum kann að finnast um það:
Afi hafði greinilega hugsað þetta allt út. Allt var þegar komið á skrið og of seint að stoppa þessi hörmulegu áform. Afi gaf mér olnbogaskot. „Ekki verða viðskila við góða skapið! Vertu hress!“
„Hress? Hefurðu gleymt að hjólinu mínu var stolið?“
„Alls ekki! Það finnst samt ekkert frekar þótt við séum niðurdregin,“ sagði afi.
„Ekki velta þér nakinn upp úr dögginni, afi. Þú lendir bara á YouTube.“
Þetta var síðasta hálmstráið mitt en afi kunni ekkert að skammast sín. „Það væri sko gaman! Hvað ætli gamall húsvískur pönkrass fengi mörg áhorf?“
Honum var ekki viðbjargandi.
(bls. 76)
Afi Iðunnar hefur jákvæðni og trú á að hlutirnir leysist að leiðarljósi, og þrátt fyrir efasemdir Iðunnar þá reynist hann hafa rétt fyrir sér, það leysist ekkert á því að vera niðurdreginn. Frásögnin er afar vel uppbyggð, sagan gerist á nokkrum dögum og hverfist að mestu um leit Iðunnar að hjólinu og samveruna með afanum. Þræðirnir fléttast saman á óvæntan hátt og í lokin er lesandanum komið á óvart ekki einu sinni, heldur tvisvar, þegar leysist úr ýmsum málum sem hafa hvílt bæði á Iðunni og afa hennar. Iðunn lærir líka margt á þessari viku og þarf í leitinni að hjólinu að taka sér fyrir hendur verkefni sem virðast óyfirstíganleg í fyrstu, meðal annars að koma sér í samband við systur í hverfinu sem fara svakalegar sögur af og enginn þorir að koma nálægt. Systurnar hræðilegu og afi Iðunnar eiga það reyndar sameiginlegt að verða fyrir fordómum vegna þess hvernig þau klæða sig og á endanum er það ekki bara Iðunn sem lærir að draga ekki ályktanir um fólk, heldur ekki síður fullorðna fólkið í sögunni. Bókin er myndskreytt af teiknaranum Halldóri Baldurssyni og myndirnar eru fullar af smáatriðum sem bæta ýmsu við söguna. Systurnar ógurlegu eru til dæmis frekar skuggalegar og afi pönk verður sérlega skýr í huga lesandans.
Á þessum tímum farsóttar þar sem aldrei virðist vera neitt jákvætt að frétta er ótrúlega nærandi fyrir sálina að lesa sögu sem gerist í sól og sumaryl, þar sem áhyggjur af svolítið ógnvekjandi systrum, horfnu hjóli, afa sem lætur ekki alveg að stjórn og fúlum nágrönnum eru það sem einna helst hvílir á aðalpersónunni, þó það séu vissulega hlutir sem ekki ber að gera lítið úr og þarf að leysa á einn eða annan hátt. Ef undanfarnir mánuðir hafa kennt okkur eitthvað þá er það að meta þetta venjulega og hversdagslega, afmæli, grillveislur í garðinum, að fara út að hjóla með vinum sínum, eða að vera í pössun hjá afa á meðan foreldrarnir skella sér í fjallgöngu. Megi sá veruleiki snúa aftur sem fyrst, en þangað til er ekki úr vegi að ylja sér við sumarið í Mosó með Iðunni og afa pönk.
María Bjarkadóttir, október 2020