Rithöfundurinn Ágúst Borgþór Sverrisson hefur sent frá sér nokkur smásagnasöfn en upp á síðkastið hefur hann fikrað sig yfir í skáldsagnagerð. Fyrstu tvær skáldsögurnar voru í styttri kantinum en Inn í myrkrið er í fullri lengd ef svo má segja, tæplega 300 blaðsíður.
Hér segir frá Óskari, sölumanni hjá öryggisþjónustu, sem lendir í talsverðum hremmingum sem hefjast með því að hann reynir að rétta hlut bróður síns sem situr í fangelsi, nánar tiltekið á Litla-Hrauni. Bragi bróðir er raunar vandræðagripur gefinn fyrir að koma sér í ýmiss konar klandur. Óskar þarf því fyrir hönd Braga að hafa samband við glæpamenn og sogast þannig inn í krimmaselskap þar sem fremstur fer Sigmar nokkur Jóelsson, eldri herramaður sem hefur hætt drykkjuskap. Að einhverju leyti fer Sigmar eftir tólfsporakerfi AA samtakanna en gerir á sporunum þeim ýmsar þær undantekningar sem honum þykja þægilegar og kemur þar helst til Hróa Hattar undanþágan, sú að sjálfsagt sé að stela frá hinum ríku og teljast Tryggingafélög til dæmis hiklaust til hinna ríku. Sigmar er lögfræðingur og kann að vera illa komið fyrir þeirri stétt þegar flestum finnist sjálfgefið að menn í því fagi stundi hin ýmsu myrkraverk en fyrir utan innbrot virðist Sigmar helst fást við mansal og vændi og gera út handrukkara.
Það skapast raunar nokkuð kostulegt samband milli Óskars og Sigmars, eins konar feðgasamband. Ofbeldisfullur dauðdagi föður Óskars hefur lengi þvælst fyrir honum sem skýrir kannski hversu auðveldlega Sigmari tekst að fá hann til fylgilags við sig. Hann er með munninn fyrir neðan nefið og og getur verið bæði blíður og föðurlegur þótt hann sé býsna útsmoginn um leið. Karakter glæpaforingjans á sér þannig margar hliðar. Það er einmitt dálítið óvenjulegt í spennusögu, oft eru illmennin í slíkum sögum harla einhliða. Ef til vill fær Óskar ekki örlögum sínum fullkomlega ráðið sjálfur og getur því ekki stöðvað þessa ferð inn í myrkrið, hann finnur líf sitt taka stakkaskiptum til hins verra en getur ekki spornað við því. Vill það kannski ekki innst inni. Þetta gæti orðið tími uppgjörs hjá honum og að snúa lífi sínu til betri vegar en svo fer ekki. Óskar velkist um í óheiðarleika, stundar mislukkað framhjáhald með Rósu samstarfskonu sinni og notar þekkingu sína á öryggismálum til hjálpar við innbrot í skartgripaverslun, tekur sem sé skrýtnar ákvarðanir. Atburðarásin tengist líka kunnuglegri miðaldrakrísu. Óskar er óánægður í hjónabandinu, finnst hann vera múlbundinn, hálfpartinn eins og geltur fress. Hann er dottinn úr tengslum við fjölskyldu sína og vinnufélagarnir eru leiðinlegir, nema kannski Rósa sem finnur sér nýjan starfsvettvang með hjálp Sigmars.
Það er ekkert gaman lengur. Hann drekkur til dæmis of mikið. Þetta er þó ekki endilega alkóhólísk drykkja, fremur ósjálfráð viðbrögð til að bregðast við kvíða og spennu, tímabundin ofneysla eins og getur hent besta fólk. En ekki í fyrsta sinn því að á yngri árum hafði Óskar drukkið mikið en þá kom Sigrún eiginkona hans til sögunnar og tókst að fá hann til að snúa af þeirri braut. Lýsingin á ferð hjónanna til Benidorm er bæði kátleg og grátleg, og lýsir vel sambandsleysinu þeirra í milli. Óskar hangir þar einn úti í sundlaugargarði á kvöldin með sinn bjór. Ef hann vonaðist til að þessi ferð yrði til góðs þá varð sú von til lítils. Eftir ferðina fer allt að snúast á verri veg.
Umhverfið er kunnuglegt, Reykjavík og Suðurnes. Ekki er nákvæmlega getið um götur og götunúmer en lesendur geta vel áttað sig á staðháttum. Aukapersónur ýmsar koma við sögu; meðvirk móðir sem trúir engu slæmu upp á Braga bróður, systirin Bára sem er í sjálfshjálparbransanum, sambýliskonur Braga, eiginkonan Sigrún og hjákonan og yfirmaður Óskars sem er á kafi í hópeflisrugli en virðist bera lítið skynbragð á starfsemi fyrirtækisins.
Söguþráður er raunsær og trúverðugur. Það er kannski spurning hvort menn trúa því að suður með sjó finnist vændishús, eitt eða fleiri. Samtöl eru eðlileg og frásögnin í jafnvægi. Þetta er læsilegur texti, greinilega vanur maður sem um vélar. Þrátt fyrir titilinn er sagan hvorki myrk né þunglyndisleg. Óskar er gallagripur og ekki beinlínis hrókur alls fagnaðar en það er ekki leiðinlegt að eiga með honum samleið um tíma. Hann er á vegferð sem getur leitt til tortímingar en maður vonar allt til loka að þetta reddist allt saman. Inn í myrkrið er aðeins öðrum þræði spennusaga, margt annað hangir á spýtunni, en þetta er spennandi lesning.
Ingvi Þór Kormáksson, nóvember 2015