Mér fannst þessi orð úr fyrsta ljóði bókarinnar Inn og út um gluggann eins og töluð til mín, því þó ég sé hrifin af skáldsögum og smásögum og örsögum Kristínar Ómarsdóttur, þá er ég hrifnust af ljóðunum hennar, og finnst alltaf eins og hún sé komin heim þegar hún skrifar ljóð. Inn og út um gluggann er fimmta ljóðabók Kristínar og önnur bókin sem hún gerir í samstarfi við myndlistakonur, en þessi bók er samvinnuverkefni Önnu Hallin, Kristínar og Óskar Vilhjálmsdóttur, líkt og Sérstakur dagur var samvinnuverkefni Kristínar og ljósmyndarans Nönnu Bisp Büchert. Þannig er þessi bók, þó hún sé ekki mikil um sig (hvorki ljóð né myndir birtast í miklu magni) full af gleði og undrum sem felast annarsvegar í samslætti mynda og orða og svo náttúrulega líka bara í myndunum og ljóðunum sjálfum. Stemningin minnti mig svolítið á 27 herbergi Rögnu Sigurðardóttur, enda skrifar hún formála að bókinni. Myndirnar snúast allar um leik með rými, og tengjast sýningu listakvennanna í Ásmundarsal. Gert hefur verið líkan af sýningarsal Ásmundarsafns, þess fallega húss, og svo er leikið með það líkan, það sett í ólíkustu aðstæður, inn í svínastíu, út á tún eða því er ekið inn á bráðamóttökuna. Og allt er þetta ljósmyndað. Sömuleiðis er leikið með blekkingarmátt ljósmyndarinnar á þann hátt að setja hluti inn í líkanið og láta líta út fyrir að risavaxnar mýs, egg og brúður séu inni á safninu. Allt mjög skemmtilegt og mikill gleðigjafi.
Ekki síðri gleðigjafi eru ljóð Kristínar sem að vanda eru skrýtin og jafnvel dálítið skrumskæld í anda líkansins. Sömu stefin eru endurtekin, við erum stöðugt stödd inni á vaxmyndasafni, hittum hafmeyjar og göngum yfir glerbrot. Hafmeyjartemað tengdi ég alltaf við Sundhöllina, en á sumum myndum minnti líkanið mig á þá fríðu laug. Erótíkin er aldrei fjarri frekar en fyrri daginn í verkum Kristínar og er að vanda ákaflega fjölbreytt – hinsegin, en kannski fyrst og fremst kynstruð, sker sig þvert á allar markalínur kynja og kyngerfa. Eitt ljóðið reyndar dregur upp hefðbundna kynjamynd, móðirin sem heldur á barninu af því hún er kona og faðirinn sem heldur utanum hana af því hann er karl og svo er smellt af "*kligg", og myndin er tekin: "við tökum bara þessa einu mynd/aldrei fleiri".
Að vanda var ég ekkert endilega fullsátt við öll ljóð Kristínar, mér finnst hún á stundum skjóta yfir markið, ýmist verða ljóðin of 'ýkt' eða of einföld. En það kemur ekki að sök því nóg er af afbragðsgóðum ljóðum, og sumum sem eru enn betri en það. Einna skemmtilegust fannst mér ljóðin sem leika sér að rýminu á sama hátt og myndirnar. Í fyrstu tveimur ljóðum bókarinnar kemur þetta sérlega vel fram en þau hefjast bæði á því að ljóðmælandi klifrar upp á pínulítinn hól og horfir yfir landið. Strax í þessari línu koma fram skemmtilegar mótsagnir smæðar og stórfengleika. Í fyrra ljóðinu eru hermenn með byssur sem ætla að skjóta ljóðmælanda en hún sleppur, því út úr rassinum hennar "vex himinlangt skott sem teygir sig til tunglsins" og festir hana þar. Svo klifrar hún niður af hólnum og oní holu: "Hæ, litla skrímsli, ég er komin aftur heim". Í seinna ljóðinu horfir ljóðmælandi á agnarsmáa krakka rúlla sér í grasinu og leika sér að örsmáum boltum. Skyndilega birtast "Grænar eðlur með rauða spúandi munna. Kellingar með lesgleraugu og sokkalausir karlar". Þarna er ljóðmælandi örugg, það er ekki hægt að drepa hana því sverðin eru títuprjónar og byssukúlurnar eins og brot úr hagléli. En samt deyr hún, fellur "fyrir aumri byssukúlu á stærð við pínulitla nögl". Þessi ljóð, á sinn fullkomlega absúrd hátt, eru einkennilega sterk og áhrifamikil, sviptingarnar milli stærða, sviða og leiks og alvöru eru ótrúlega magnaðar og lesandi áttar sig varla á því að hermennirnir hafa sigrað, fyrr en ljóðið er lesið aftur, svo óvænt er fall ljóðmælanda. Undir lok bókarinnar virðist hjarta hennar komið á vaxmyndasafn, og sefur þar og á bágt, en það virðist allt standa til bóta því á morgun fær það títuprjónasúpu, kannski.
Úlfhildur Dagsdóttir, október 2003