Beint í efni

Kafli úr fjölskyldusögu

Kafli úr fjölskyldusögu
Höfundur
Birna Stefánsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Örverpi er fyrsta ljóðabók Birnu Stefánsdóttur en fyrir hana hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2023. Örverpi er lýst sem kafla úr fjölskyldusögu og í bókinni segir ljóðmælandi frá glímu föður síns við veikindi sem minna á elliglöp eða Alzheimer-sjúkdóminn. Örverpi er látlaust og stutt verk, flest ljóðanna eru aðeins 1-2 setningar á lengd og segja eina samfellda sögu sem dreift er yfir margar blaðsíður. Lítið er um líkingamál í skáldskap Birnu og stíll hennar er bæði kjarnyrtur og blátt áfram.

Hann borðar fjögur epli í röð.
Í öll skiptin segir hann mér hvað þau séu góð á bragðið.

Framvindan hverfist um samskipti fjölskyldunnar og birtast þar ýmsar persónur eins og pabbi, mamma og systir ljóðmælanda. Eins og áður sagði eru veikindi föðurins í forgrunni og er þeim lýst á myndrænan máta án þess þó að farið sé út í sjúkdómsgreiningu eða nákvæmar lýsingar á veikindunum.

Hann samþykkir skannann.
Systir mín segir að þetta sé eins og ökklabrot.

Heilbrigði fjölskyldunnar

Í Örverpi birtist hversdagsleikinn og fjölskyldulífið í sinni tærustu mynd. Bókin lýsir því einstaklega vel hvernig erfiðleikar og veikindi hafa áhrif á fjölskyldumynstrið og hvernig aðstandendur reyna sitt besta til að styrkja tengslin sín á milli þegar á móti blæs, meðal annars með því að halda í hefðir og venjur daglegs lífs. Birnu tekst einkar vel að skapa ljóðrænu úr hversdagslegum aðstæðum og dregur upp sannfærandi mynd af fjölskyldulífi sem er auðvelt að samsama sig við, jafnvel þótt maður hafi ekki upplifað nákvæmlega þær aðstæður sem bókin lýsir.

Örverpi lýsir því mjög vel hvernig veikindi eins fjölskyldumeðlims hafa áhrif út fyrir sig þannig að jafnvel þeir fjölskyldumeðlimir sem eiga að teljast heilbrigðir geta lent í því að upplifa heilsubrest. Það er jú oft sagt að heildin sé aðeins jafn sterk og veikasti hlekkurinn og í Örverpi kemur skýrt fram hversu mikil áhrif veikindi eins fjölskyldumeðlims geta haft á heilbrigði allrar fjölskyldunnar.

Mamma er á spítalanum, segi ég.
Hann kreistir höndina á mér.

Hún man ekki hvernig hún datt.

Hún er viss um að það sé ekki álaginu að kenna.

Mildi og æðruleysi

Í textum Birnu skín einnig í gegn ákveðin mildi og æðruleysi sem aðeins þeir sem gengið hafa í gegnum erfiðleika geta tileinkað sér. Sáttin sem einungis fæst með því að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart aðstæðum sem maður fær ekki stjórnað. Þetta birtist víða í þeim textum þar sem ljóðmælandi lýsir samskiptum sínum við föður sinn sem kallar hana „örverpið sitt“. Orðið örverpi vísar til síðasta eggsins sem fugl verpir sem gjarnan er minna en hin eggin. Fuglar birtast á nokkrum stöðum í bókinni, bæði mávar sem faðir ljóðmælanda biður fjölskyldu sína um að skoða með sér og síðar fugl sem hann sker út í dagdvöl og fær að taka með sér heim.

Sjáðu hvað hann er montinn, segir hann.
Bendir mér á mávinn.

Þessir textar eru bæði fallegir og harmrænir í einfaldleika sínum og lesandi finnur sterklega fyrir þeim tilfinningum sem liggja undir látlausu yfirborðinu án þess þó að þær séu orðaðar beint.

Traust gagnvart lesandanum

Einn helsti styrkleiki bókarinnar er hversu mikið traust höfundur leggur á lesandann. Með því að forðast nákvæmar lýsingar á aðstæðum og innra lífi persóna verksins gefur höfundur lesendum sínum leyfi til þess að fylla upp í eyðurnar og láta framvindu verksins að miklu leyti gerast á milli línanna. Þrátt fyrir að frásögnin í Örverpi sé vel skilgreind þá er dramatísk framvinda þess ekki skýrt afmörkuð með upphafi, miðju og endi; því í raun byrjar verkið og endar á sama stað. Fyrsta línan hljóðar svo :

Kíktu á miðann, segi ég þegar hann hringir.

Og lokalínan er þessi :

Hann kíkir á miðann áður en hann fer út með hundinn.

Ljóðmælandi útskýrir ekki hvað stendur á hinum umrædda miða enda skiptir það ekki máli fyrir áhrif verksins. Með því að byrja og enda verkið á sama stað tekst höfundi að skapa eins konar hringlaga framvindu svo lesanda líður eins og hann hafi fengið að vera fluga á vegg í stutta stund í lífi fjölskyldunnar, Örverpi er þannig eins og lifandi mósaíkmynd sem á sér upphaf löngu áður en bókin hefst og heldur áfram löngu eftir að hún klárast. Eini galli bókarinnar er hversu stutt hún er en lesandi er skilinn eftir með þá tilfinningu að hann væri alveg til í að dvelja lengur í heimi verksins og kynnast betur fjölskyldunni sem um ræðir. Bókin er hins vegar það vel skrifuð að það er hæglega hægt að lesa hana aftur og aftur og finna nýja fleti á henni í hvert skipti. Með Örverpi stígur nýr höfundur fram á sjónarsviðið og spennandi verður að sjá hvað Birna Stefánsdóttir tekur sér fyrir hendur næst.
 

Þorvaldur S. Helgason, nóvember 2023