Beint í efni

Kamp Knox

Kamp Knox
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Einu sinni var hér bandarískur her. Hann markaði þáttaskil fyrir íslenskt samfélag, skipti sköpum í íslenskri menningarsögu. Samband Íslendinga við herinn og söguna um hersetuna og herstöðina hefur alltaf verið flókið eins og best kom líklegast fram við brotthvarf hans. Og í ljósi ítrekaðra mótmæla á Austurvelli í kjölfar efnahagshrunsins, sem stjórnmálamenn áttu þátt í að skapa, er ekki úr vegi að rifja upp að fram að því tengdust kröftugustu mótmæli Íslandssögunnar einmitt herstöðinni.

Hvað sem segja má um hersetuna og seinna herstöðina þá er ljóst að hvorttveggja hefur nýst rithöfundum ákaflega vel sem efniviður í skáldskap og má meðal annars nefna tvær áhrifaríkar sögur, Gangvirki Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og 79 af stöðinni eftir Indriða G. Þorsteinsson, en báðar komu út árið 1955, áratug eftir að síðari heimsstyrjöld lauk. Bæði verkin bera með sér að hersetan skildi eftir sig djúp spor í þjóðarsálinni; í grein sinni um þríleik Ólafs Jóhanns talar Daisy Neijmann um ‚rof‘ og ‚tráma‘ í tengslum við Gangvirkið og vísar þar sérstaklega til síðustu orða sögunnar: „Eftir var tóm eitt og þögn“ (Daisy Neijmann, „Hringsól um dulinn kjarna“, Ritið 1:2012, bls. 117-119). En sagan endar einmitt á því að breskur her sest að á Íslandi.

Stríðar tilfinningar af þessu tagi eru ekki til staðar í skáldsögu Arnaldar Indriðasonar, Kamp Knox. Þar er vissulega fjallað um nærveru bandaríska hersins en fjarlægðin er orðin nokkur og sambúðin skoðuð af meiri yfirvegun. Þó hefur ekki fennt yfir sporin, enda ekki hægt í ljósi þess að vera hersins hér olli í raun þjóðfélagslegum straumhvörfum.

Erlendur Sveinsson, þekktasti rannsóknarlögreglumaður íslenskra glæpasagna, er hér nýliði í rannsóknarlögreglunni, undir handleiðslu Marion Briem. Marion hefur álit á Erlendi og hefur jafnframt áhuga á þessum dula manni, sem á gott með að tengjast utangarðsfólki og setur sig jafnvel óþægilega mikið í spor syrgjenda, en á að öðru leyti ekki auðvelt með að umgangast fólk. Erlendur fær því frjálsar hendur við það áhugamál sitt að gramsa í gömlum skýrslum sem tengjast mannshvörfum. Hann er í miðju kafi að kynna sér eitt slíkt þegar lík finnst í kísilvatni hitaveitunnar á Reykjanesi. Fljótlega kemur í ljós að ekki getur verið um slys að ræða og allir þræðir liggja til herstöðvarinnar á Miðnesheiði.

Hinn látni er íslenskur starfsmaður herstöðvarinnar og Marion og Erlendur fá liðsinni frá herlögreglukonunni Caroline, sem reynist þeim ómetanleg, enda bæði fylgin sér og fær í sínu starfi. Að sjálfsögðu kemur ýmislegt vafasamt í ljós, enda leynimakk hverskyns órjúfanlegur hluti af hervafstri. Málið hverfur þó að nokkru leyti í skuggann af mannshvarfinu sem heltekur Erlend, en árið 1953 hvarf ung stúlka, Dagbjört, sporlaust einn morgun á leið sinni frá Vesturbænum í Kvennaskólann. Leið hennar lá framhjá einu braggahverfinu, Kamp Knox, sem stóð þar sem Sundlaug Vesturbæjar er nú. Erlendur rekst á minningargrein um föður stúlkunnar og heimsækir systur hans í von um vísbendingar um ástæður hvarfsins. Meira en aldarfjórðungur er liðinn – Kamp Knox gerist árið 1979 – og því virðist verkið vonlaust, en þeir sem þekkja Erlend orðið jafnvel og sína bestu vini vita að hann gefst ekki auðveldlega upp. Enda fer það svo að hitt og annað kemur í ljós, meðal annars tengsl við herstöðina.

Braggahverfin eru leifar af hersetunni og í Kamp Knox er herinn yfir og allt um kring. Skáldsagan er í raun að hluta til um herinn og veru hans hér, komið er inn á samskipti hermanna og heimamanna, smygl, dægurtónlist og svo auðvitað braggahverfið sjálft, en eins og fram kemur í einkunnarorðum verksins er menningarmunurinn mikill. Reykvíkingar líta niður á braggabúa og Erlendur veltir fyrir sér hvort afstaða Bandaríkjanna til Íslands sé ekki svipuð: „Erum við ekki bara eitt stórt braggahverfi í þeirra augum? Eitt stórt ... Kamp Knox.“

Arnaldur sýnir vel færni sína í þessari sögu, auk þess sem helstu höfundareinkenni hans koma fram. Glæpamálið er ekki endilega í lykilhlutverki, áherslan er á að fjalla um samfélagið og rýna í ýmsar hliðar þess. Erlendur og Caroline kýta um herstöðina, andúð hans stafar þó ekki endilega af stjórnmálaskoðunum heldur óttast hann frekar um íslenskt samfélag og gildi þess. Hersetunni fylgir ýmis farangur og flæðið / átökin á milli valda árekstrum og uppákomum sem skapa ný vandamál. Nærvera Caroline er þó ótvírætt merki um að ekki er allt slæmt sem að hernum snýr, en hún er að mínu mati ein hressilegasta persóna bóka Arnaldar, bæði klár og útsjónasöm og lætur ekki vaða yfir sig. Sem fyrr er atburðarásin frekar hæglætisleg en byggir þó á þungri undiröldu, sérstaklega hvað varðar mál Dagbjartar.

Annað einkenni sem nýtur sín sérlega vel hér er hinn meitlaði stíll höfundar, en þegar Marion Briem er til staðar í skáldsögunum er eins og stíllinn verði enn snarpari. Kemur það til af hinni frægu óvissu um kyn Marion, sem valdið hefur lesendum og þýðendum ómældum höfuðverkjum. Arnaldur er að verða ansi flinkur í því að smíða setningar sem halda kyni Marion hlutlausu, en það er enginn hægðarleikur eins og undirrituð finnur í þessum skrifum um bókina og persónuna. Snerpan í stílnum kemur strax fram í fyrsta kaflanum sem lýsir Miðnesheiðinni og láti hins myrta:

Hvass vindur blés yfir Miðnesheiðina. Hann kom norðan af hálendinu og yfir úfið hafið á Faxaflóanum og klifraði upp á heiðina, napur og kaldur. (7)

Svo hljóða upphafsorð bókarinnar og er óhætt að segja að ekki sé hlýlegt um að litast, og væri þá ekki í fyrsta sinn sem Ísland stendur undir nafni í texta Arnaldar:

Gróðurinn lá varnarlaus fyrir opnu úthafinu og norðanáttinn og mátti heyja harða lífsbaráttu því að á heiðinni þrifust aðeins harðgerðustu plöntur. Það ískraði í girðingunni sem stóð upp úr auðninni og afmarkaði svæðið fyrir herstöðina þegar vindurinn smaug í gegnum hana og lamdi utan mikla veggi flugskýlisins efst á heiðinni. Hann espaðist allur upp við skýlið eins og honum væri ekkert um þessa stóru hindrun gefið og hélt svo áfram leiðar sinnar í myrkrinu. (7)

Meira að segja náttúruöflin eru skeptísk á herstöðina og upp í huga undirritaðrar komu ljóðlínur um staðarval Vesturveldanna: „Á ljótasta stað, sem á landinu hægt er að finna / þau leigðu sér skika, og þar var svo byrjað að vinna“ (Dagur Þorleifsson, ca. 1958).

Síðasta efnisgreinin lýsir svo dauða mannsins:

Allt var hljótt ef frá var talið eymdarlegt vindgnauðið þegar skyndilega heyrðist daufur þytur frá vinnupallinum. Rörbútur lenti á gólfinu og þeyttist eftir því með glamri og hávaða. Fljótlega heyrðist aftur hvinur, þyngri, og maður skall í gólfið. Því fylgdi undarlega dempað hljóð eins og þungur poki hefði dottið ofan úr loftinu. Svo varð allt hljótt að nýju og ekkert heyrðist nema ýlfrið í vindinum. (8)

Vindurinn er í aðalhlutverki og virðist lifandi eins og algengt er í náttúruljóðum. Í lýsingunum skiptast á kyrrstaða og hreyfing, þungur hvinur og hvell hljóð. Mitt í þessu er svo framið morð.

Að lokum er ekki úr vegi að nefna að í skáldsögunni má finna dæmi um hinn sérstaka húmor sem einkenna sérstaklega sögurnar um Erlend. Á glæpasagnahátíðinni Iceland Noir á síðasta ári lýsti Arnaldur því yfir að ef það væri einhver húmor í sögum hans þá væri hann með öllu ómeðvitaður. Það er erfitt að taka slíka yfirlýsingu alvarlega (kolsvört kaldhæðnin í Röddinni (2002) er skýrasta dæmið um ógleymanlegan húmor), í þessari sögu má nefna skötuát Erlendar sem er Marion lítt að skapi, enda fylgir óþefurinn þeim í viðtal við systur hins myrta.

Það er þekkt að höfundar þreytast á aðalsöguhetjum sínum, sem lesendur á hinn bóginn elska. Á sínum tíma reyndi Arthur Conan Doyle að drepa af sér Sherlock Holmes, og Hergé fékk martaðir um Tinna. Það er því snjallræði hjá Arnaldi að kynna Erlend upp á nýtt fyrir lesendum, sem ungan mann í upphafi ferils síns – ungan en þó strax í raun gamlan, og gefa þeim jafnframt tækifæri til að fylgjast með því hvernig hann verður að þeim manni sem síðar markar sín eigin spor í bókmenntasögu þjóðarinnar.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014