Bergrún Íris Sævarsdóttir er barnabókaunnendum að góðu kunn en hún hefur á síðustu árum myndskreytt og skrifað fjöldan allan af barnabókum, allt frá bókum fyrir yngstu lesendurnar og upp í bækur fyrir unglinga. Fyrsta bók hennar, Vinur minn, vindurinn sem kom út árið 2014 var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna sem og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðustu bækur hennar hafa verið fyrir aðeins eldri krakka og ber þar helst að nefna hinar geysivinsælu bækur (Lang) elstur í bekknum og (Lang) elstur í leynifélaginu. Nú í vor varð Bergrún svo fyrsti handhafi barnabókaverðlaunanna sem kennd eru við Guðrúnu Helgadóttur fyrir óbirt handrit sitt að bókinni Kennarinn sem hvarf. Bókin hefur verið þaulsetin á metsölulistum bókabúðanna síðan þá.
Eins og bækur Bergrúnar um þann elsta í bekknum og leynifélaginu er Kennarinn sem hvarf tilvalin lesning fyrir lesendur sem þurfa að æfa sig í lestri en hafa þó náð nokkurri færni. Letrið er stórt, kaflarnir stuttir og skemmtilegar myndir krydda frásögnina og bæta við hana enda Bergrún mjög fær myndskreytir. Síðast en ekki síst er bókin bæði skemmtileg og hörkuspennandi og þegar allt kemur til alls eru það auðvitað mikilvægustu atriðin þegar kemur að því að halda lesandanum við efnið. Tungutakið er skýrt og einfalt og rennur vel en þó nær Bergrún að krydda textann með flóknari orðum og hugtökum t.d. með því að láta einn drenginn, sem elst upp hjá ömmu sinni og afa, hafa örlítið stærri og meiri orðaforða en bekkjarfélagana.
Í Kennaranum sem hvarf kynnumst við Heklu Þöll, ellefu ára, bráðgreindri stelpu sem hefur verið færð upp um bekk í eigin óþökk. Hún saknar félaganna úr gamla bekknum og er alein og vinalaus í þeim nýja, 6. BÖ. Það er raunar yfirleitt ekki mjög góð stemning í bekknum þótt Bára kennarinn þeirra virðist afskaplega almennileg og er raunar sú eina sem Heklu finnst hún geta talað við í skólanum, jafnvel í heiminum. En einn morguninn mætir Bára ekki til kennslu. Nokkrir krakkanna eru í skýjunum með að fá að hanga eftirlitslaus í stofunni og vera í símanum svo hugmyndir sumra um að láta vita eða fara leita að henni eru strax kveðnar niður. En þegar enginn mætir heldur næsta morgun fara tvær grímur að renna á krakkana og þegar þau fá öll sms skilaboð frá einhverjum sem kallar sig Gátumeistarann og segist hafa kennarann þeirra í haldi fyllast þau fyrst skelfingu og svo reiði. Gátumeistarinn krefst þess að börnin vinni saman að því að leysa þær gátur sem hann leggur fyrir þau og hótar því að Bára muni hafa verra af ef krakkarnir tali við lögreglu eða einhvern fullorðinn. Þau verði bara að treysta á hvert annað – og það reynist hægara sagt en gert.
Börnin eru skemmtilegur hópur, við fyrstu sýn eru þarna kunnuglegar týpur; vinsæla stelpan, hrekkjusvínin, gáfnaljósið og svo framvegis en þegar betur er að gáð sannast hið forkveðna að ekki skuli dæma bókina af kápunni. Eftir því sem Hekla kynnist skólafélögum sínum og aðstæðum þeirra betur öðlast hún um leið skilning á þeim sjálfum. Börnin koma úr ólíkum áttum og frá ólíkum heimilisaðstæðum; foreldrar Heklu sjálfrar eru fráskilin og það sama á við hjá Stefaníu Huld, bekkjarsystur hennar, sem á líka mörg yngri systkini sem hún þarf að passa og það sem verra er, skapbráðan stjúpföður . Axel á svo tvær mömmur og Fannar býr hjá ömmu sinni og afa – fjölskyldur eru auðvitað alls konar.
Bergrún tæpir á ýmsum málefnum svo sem einelti, heimilisofbeldi og einmanaleika og þótt hún fari kannski ekki djúpt í hvert málefni nær hún að vekja lesandann til umhugsunar um hversu mismunandi aðstæður börn búa við og að ekki sitja allir við saman borð. Sem betur fer þýðir það ekki að börnin geti ekki orðið vinir því þegar búið er að brjóta ísinn eru börn fordómalausari og umburðalyndari en flest fullorðið fólk. Auðvitað skiptir öllu máli að börnin leysi gátuna og frelsi kennarann sinn en ekki síður felst lausnin í því að þau uppgötvi þá félaga sem þau eiga hvert í öðru.
Sögulokin koma á óvart, vægast sagt, og ástæður glæpamannsins fyrir mannráninu dálítið sérkennilegar. Ekki eru allir lausir endar bundnir á síðustu blaðsíðunum svo jafnvel má eiga von á annarri bók um Heklu og félaga hennar í 6. BÖ. Það myndi líka koma sér vel því sá sjö og hálfs árs lesandi sem ég las bókina með rak upp harmakvein þegar hún kláraðist og sagði „Neeeei! Ég trúi ekki að hún sé búin! Segðu að það sé til bók númer tvö!! Gerðu það!!!“ Ég held það séu ekki til betri meðmæli með barnabók og kem hér með áfram frómri ósk lesanda um fleiri bækur.
Marianna Clara Lúthersdóttir, ágúst 2019