Það tók dálítið á að lesa Kollhnís, söguna um hann Álf sem er fimleikastrákur í Kópavogi. Að minnsta kosti fyrir undirritaða, mömmu sem á lítil systkini og er almennt dálítið viðkvæm gagnvart veruleik lítilla barna. Líf Álfs virðist ósköp venjulegt en hann á mömmu og pabba og lítinn bróður sem honum þykir afar vænt um og sinnir vel. Tilvera fjölskyldunnar umturnast hinsvegar þegar foreldrarnir komast hægt og rólega að því að litli bróðir, Eiki litli, eins og Álfur kallar hann, er einhverfur.
Greiningin er þeim áfall og lífið fer aðeins úr skorðum á meðan þau eru að jafna sig og skilja hvernig það er að eiga lítið barn sem er einhverft. Álfur verður foreldrum sínum agalega reiður til að byrja með því fyrir honum amar alls ekkert að Eika; hann er bara krúttlegur og dásamlegur litli bróðir sem gengur dálítið hægt að læra að tala. En eins og mamma og pabbi, uppgötvar Álfur hægt og rólega að kannski er Eiki ekki alveg nákvæmlega eins og hin börnin í leikskólanum og kannski þurfi þau fjölskyldan að átta sig á því og um leið breyta viðhorfi sínu til Eika og einhverfunnar. Einhverfa er ekki vandamál sem þarf að laga heldur þarf fjölskyldan að líta sér nær og aðlaga sig að þörfum Eika litla og læra að sjá heiminn frá hans sjónarhorni. Eiki litli verður til þess að sögupersónurnar þurfa að endurskoða grunngildin í lífinu og spyrja sig hvað það er að vera hamingjusamur? Er það að ná langt í lífinu og vera framúrskarandi eða að vera sáttur í sínu? Þessum spurningum er öllum hollt að velta fyrir sér, ungum lesendum en ekki síður þeim stóru sem lesa fyrir þau litlu.
Þess utan fylgjumst við með Álfi á fimleikaæfingum og með vináttusambandi hans við Ragnar sem vill verða Youtubestjarna. Álfur aðstoðar vinn sinn ótrauður en hann er greinilega vinur vina sinna og haukur í horni fyrir sína nánustu. Þá tekur hann upp á því að eignast leynivin í frænku sinni Hörpu sem er útskúfuð úr fjölskyldunni fyrir ýmsar sakir.
Arndís Þórarinsdóttir er höfundur sögunnar um Álf og fjölskyldu hans. Í yfirlitsgrein um höfundinn hér á Bókmenntavefnum skrifar María Bjarkardóttir að verk Arndísar takist oft á við breyttan veruleika sögupersóna, þar sem þægindaramminn er settur á haus og persónur þurfa að fara yfir ákveðin mörk eins og til dæmis að byrja í skóla. Það á vel við um Kollhnís þar sem sögupersónur þurfa að takast á við breyttar aðstæður heimafyrir. Og þegar ræða þarf slík mál við börn er einmitt mjög gott að leita í barnabókmenntir sem ná svo vel utan um flóknar hugmyndir og aðstæður á aðgengilegan og fiman hátt. Það er mikil list að ná því jafnvægi sem feta þarf í skrifum fyrir börn en Arndís hefur góð tök á því og ferst það hér afar vel úr hendi.
Sagan er lipurlega skrifuð, kaflarnir eru stuttir og tilvaldir fyrir kvöldsögulestur eða fyrir börn sem eru búin að læra að lesa og eru að æfa sig að lesa lengri texta. Það er aðdáunarvert að sjá hversu góð tök höfundur hefur á söguefninu og nær að flétta því vel inní áhugaverða og skemmtilega sögu af fjölskyldu sem er svo trúverðug að lesendum finnst þeir þekkja hana. Þá á sagan mikið og gott erindi við unga lesendur því einhverfa er allt í kringum okkur og mikilvægt að skapa meðvitund hjá sem flestum um hvað það þýðir að vera einhverfur og hvernig eigi að koma fram við einhverfa – af þolinmæði og kærleik rétt eins og við ættum að sýna öllum.
Arndís Þórarinsdóttir hefur skrifað sögur fyrir börn og ungmenni um langt skeið en hún hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Kollhnís að þessu sinni. Hún er vel að verðlaununum komin því sagan er vönduð, feykilega vel skrifuð og hefur almennt yfir sér mikið gæðabragð. Þá er dálítið magnað að sjá hvað kápumynd Lóu Hjálmtýsdóttur nær vel að fanga viðfangsefni sögunnar. Arndís hefur áður fengið verðlaunin ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur fyrir bókina Blokkin á heimsenda. Fyrsta skáldsaga hennar Játningar mjólkurfernuskálds (2012) vakti verðskuldaða athygli og er skrifuð fyrir eldri börn/unglinga en Nærbuxnaserían (2018-2020) eru þrjár bækur sem ætlaðar eru yngri börnum og fjalla um Gutta og Ólínu og nærbuxnaverksmiðju sem þeim tengist. Arndís hefur einnig skrifað sögulegar skáldsögur fyrir börn en Bál tímans kom út árið 2021 og fjallar um Möðruvallarbók. Þá hefur hún einnig skrifað ljóð fyrir fullorðna lesendur og árið 2020 kom út ljóðabókin Innræti þar sem skáldið tekst á við reynsluheim konunnar og þær samfélagslegu kröfur sem lagðar eru á hana.
Ég játa það hér og nú að Kollhnís er fyrsta bókin sem ég les eftir höfund en hún er sannarlega ekki sú síðasta. Nú þræðum við okkur í gegnum höfundarverkið, 7 ára dóttir mín og ég, og njótum þess þegar virkilega er vel vandað til verka í barnabókmenntum.
Vera Knútsdóttir, febrúar 2023