Vinkona mín las Gyrði. ‚Hann fer alveg með mig‘, sagði hún, og horfði hvasst á mig eins og ég bæri einhverja ábyrgð á þessu, ‚grefur sig inn í hausinn á mér og svo bara dreymir mig eitthvað brjálæðislegt rugl‘. Hún var með bauga undir augunum, konur á okkar aldri þola illa truflaðar draumfarir.
Við fyrstu sýn virðast smásögurnar í Koparakri afskaplega langt því frá að valda miðaldra konum óðum órum. Sögurnar eru látlausar og hógværar, eins og verk Gyrðis eru iðulega, en, einmitt líka eins oft áður, eru þær hlaðnar undirtónum óróa og óreiðu. Þetta eru sögur sem lýsa kyrrð, einveru, einangrun og sjálfviljugri innilokun – sem er til staðar jafnt úti sem inni. Einhver nöturleiki er í farangrinum, þó dauðinn sé ekki endilega eins nærtækur og oft áður. Margar sagnanna fjalla um skrif, og þá iðulega tilgangslaus hverfandi skrif, ekki ólíkt og í Suðurglugganum (2012), aðrar lýsa ferðum, inni á milli eru minningarbrot úr bernsku. Þau síðastnefndu eru nokkuð ólík þeirri fortíðarþrá sem oft hefur verið tengd verkum Gyrðis, hér birtist bernskan meira sem framandi, þungbær.
Náttúran, gróður og lífríki skapa sögunum iðuleg svið, eins og kemur strax fram í fyrstu smásögunni, „Blómaskálinn“, en þar situr sögumaður inni í blómaskála sínum og skrifar, án árangurs. Kona hans hefur gefist upp á að fá hann til að fara út:
Gólfflísarnar voru kaldar og ég var berfættur, en þannig fannst mér ég best geta fetað mig eftir stígnum í sögunni. Hann var á löngum köflum sprottinn þéttu grasi. Og ég þurfti að nema staðar við hverja bugðu, af því ég var óviss um stefnuna. (9-10)
Einn daginn sér hann nýja plöntu í blómaskálanum, „þetta var einkennileg jurt, með rauðum blöðum, og það voru einhver hvít ber á henni líka“ (11). Þó hann hafi ekki áhuga á stofublómum vekur jurtin forvitni hans og þegar hann lítur niður að henni sér hann stærðarpöddu kúra sig við rætur plöntunnar:
Ég sá heljarstóra bitkrókana, og ósjálfrátt rétti ég fram fingurinn, líkt og til að heilsa honum, bjóða hann velkominn í þennan litla blómaskála, þar sem ég skrifaði sögu um fólk sem hafði aldrei verið til. (12)
Og þannig hefst ferðalagið um heima Gyrðis, hönd í hönd við bitkróka erlendrar pöddu sem skýtur kolli upp úr mold í appelsínugulum blómapotti. Það er óþarfi að taka fram að paddan hentar vel sem táknmynd fyrir það sem liggur grafið undir fínlegu yfirborði textanna.
Í það heila eru smásögurnar í Koparakri með raunsæisyfirbragði sem stundum reynist hverfult. Dæmi um þetta er önnur sagan, „Aftakan“, en þar fylgjast nokkrir strákar með því þegar búfé er leitt til slátrunar:
Þegar síðustu kindurnar voru að fara af pallinum, sáum við allt í einu álútan mann koma út úr skugga pallskyggnisins; hann var með hendurnar bundnar aftur fyrir bak og fór hægt á eftir kindunum. Með honum var kona í rifnum gallabuxum og svörtum mittisjakka. Hendur hennar voru líka bundnar. (16)
Konan hrasar á hælaháum skóm en strákunum er stuggað burt, þeir fara niður að sjó sem þeir eru sammála um að „væri svo blýgrár og einkennilega þykkur og það væri næstum hægt að koma með mót og gera úr honum tindáta“ (17). Þessi bernskuminning er gott dæmi um þá annarlegu stemningu sem fylgir bernskunni í mörgum sagnanna, hér er bernskan ekki öruggt skjól fortíðarhyggju, heldur þvert á móti: blýgrá og einkennilega þykk.
Þrátt fyrir einangrunina sem er ríkjandi stemning í sögunum eiga persónur þeirra sér heilmikið samfélag í skáldverkum af ýmsu tagi, bókmenntum sem kvikmyndum. Charles Dickens kemur við sögu, sömuleiðis þeir Sherlock Holmes og Watson og í „Feneyjum“ er vísað til frægrar kvikmyndar Nicolas Roeg, Don‘t Look Now (1973), en rauða regnkápan í þeirri mynd hefur gengið ljósum logum um kvikmyndir og skáldskap, að ekki sé talað um kvikmyndasöguna, alla tíð síðan hún var gerð.
Og sumar sagna Koparakurs eiga svo samtal við smáprósana í Lungnafiskunum og ber þar hæst fiskana sjálfa. Í Koparakri lýkur smásögunni „Hitabeltisfiskurinn“ á því að múrena, sem sögumaður hafði tekið að sér sem gæludýr, brýst út úr búri sínu og andast á stofugólfinu. Í „Lungnafiskum“ er aftur sögð saga af fiskum sem sundra glerveggjum, nú vegna óhóflegrar stækkunar. Sögumaður lætur þá liggja um stund á teppinu en þegar hann kemur að þeim aftur eru þeir „farnir að anda gegnum munninn. Þeir voru ekkert blávatn, þessir fiskar“ (29).
Í það heila er tóntegundin ærslafyllri í Lungnafiskunum en Koparakri, smáprósarnir eru léttúðugri og kómískari, þar er hefur hið raunsæislega yfirbragð að mestu vikið fyrir ævintýralegum smámyndum af ýmsu tagi. Þetta gerir það að verkum að bækurnar henta ákaflega vel sem par, Koparakurinn með sínum niðurgröfnu órum og Lungnafiskarnir fullir af lofti.
Orðsending
Það var eins og hann lifði í handlituðu póstkorti; hann kannaðist ekki við þorpið, en það var snoturt að sjá, með glampandi rauðum þökum og blá fjöllin á bak við. Hann hafði óljósan grun um að einhver ætlaði að fara að senda kortið, en vissi ekki hvert. Einn morguninn þegar hann vaknaði heyrði hann lokið skrúfað af stórum penna fyrir utan gluggann. Þegar hann leit út sá hann skriftina á himninum. Blekið var rautt, en orðin voru á tungumáli sem hann skildi ekki. (14)
Hér er vissulega þessi stemning undirliggjandi dulúðar og þunga sem einkennir smásögurnar, en samt er á einhvern hátt léttara yfir og órarnir leika lausum hala. Sviðið er sömuleiðis breiðara, við hittum fyrir skrifstofumann sem býr til pappírsflaugar og sendir út um gluggann, feðga sem ráða ekki við uppkast þegar móðirin leggst á spítala, afgreiðslumann í vínilplötubúð sem verður fyrir áhrifum af fastagesti, konu sem ræktar afburðagáfað grænmeti og elur það á umræðum um stjórnmál og ástir („maður sá fölgræn blöðin bifast af áhuga þegar sólin barst inn um þakgluggana tvo“).
Í Basel gistir sögumaður á hóteli sem áður hafði verið fangelsi, hurðinni er læst með stórum lykli og á veggnum hangir Eyja hinna dauðu eftir Böcklin (sem einmitt var frá Basel). Og að sjálfsögðu týnist lykillinn. Álíka ferð milli sviða er í „Íslenskum athafnamönnum“, en þar segir frá þýðanda úr pólsku sem er svo afkastamikill að hann þýðir verk sem enn eru óskrifuð. Þýðingum hans er svo aftur snarað á pólsku og fá góðar viðtökur.
Eitt einkenni beggja bóka er áhugi á tækjum, eða nánar tiltekið heitum tækja, en sögupersónur Gyrðis eru mjög uppteknar af þessu og lesa iðulega aukamerkingu inn í þessi nöfn. Þannig verða tækin á einhvern hátt persónulegri, virkir þátttakendur í söguheimum þar sem allt getur gerst, jafnvel einskonar íbúar póstkorta sem til stendur að senda af stað, innbundin í tveimur fallegum bókum.
úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2014