Beint í efni

Korngult hár, grá augu

Korngult hár, grá augu
Höfundur
Sjón
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Undirheimar og fáfarnir menningarkimar hafa alltaf heillað bæði lesendur og rithöfunda. Hvað þá þegar undirheimarnir tengjast dramatískustu og afdrifaríkustu viðburðum. Enda er enginn hörgull á skáldsögum af öllu tagi með síðari heimsstyrjöldina og leyndan og ljósan enduróm nasismans í for- og bakgrunni. Söguefni Sjóns í Kornglulu hári, gráum augum er í nánum tengslum við heimildir og sögulegar staðreyndir. Aukapersónur eru margar undir eigin nöfnum, bæði vel þekktar á borð við George Lincoln Rockwell og Róbert Abraham Ottóson og minna kunnar eins og Savitri Devi og Ernst Jünger. Þá hefur ekki verið farið í launkofa með það að aðalpersóna verksins, nýnasistinn Gunnar Kampen, á sér sögulega fyrirmynd. Nákvæm samsvörun persónu og fyrirmyndar; lífshlaups, bakgrunns og skoðana, er síðan einkamál höfundar og verulegra áhugasamra grúskara.

Korngult hár, grá augu er því óumdeilanlega á því stóra rófi sem við köllum „sögulegar skáldsögur“. Og ef við viljum vera sniðug gætum við sagt að eitt af því sem bókin sýni er að það er ekki að ástæðulausu sem flestar bækur á því rófi eru um fjögur hundruð blaðsíður en ekki rúmar hundrað.

Bókin er mjög einarðlega saga Gunnars Pálssonar Kampen og engin önnur persóna tekur á sig viðlíka skýra mynd og hann. Engu að síður er sjónarhorn hennar vítt. Hér er til skoðunar, eins og hefð hinnar sögulegu skáldsögu krefst, samspil og gagnkvæm áhrif hins persónulega og þess pólitíska, bakgrunns og forgrunns. Við fylgjum Gunnari frá vöggu til grafar og fréttum af dramatískum örlögum frændfólks hans í Noregi, bæði af uppljóstrara Gestapo og dapurlegu hlutskipti frænkunnar sem fékk í stríðslok hefðbundna meðferð þeirra sem sem lögðu lag sitt við hernámsliðið. Við fáum fallega stílaða og skýra mynd af dálítið þrúgandi heimilislífi og kröppum kjörum á köflum. Og síðast en ekki síst nokkrar snöggar og vel valdar smámyndir af þeim íslenska jarðvegi sem gefur nasisma færi á að dafna. Sumar næsta sakleysislegar og jafnvel spaugilegar, líkt og þýska hjólreiðafélagið í hverfinu þar sem Gunnar slítur barnsskónum. Aðrar mynda nauðsynlega tengingu við Íslandssöguna eins og þátttaka Gunnars í atburðum á Austurvelli í aðdraganda NATO-samningsins, en sú eftirminnilegasta kannski þegar vinnuveitendum Gunnars í bankanum ofbýður opinber hylling hans á hakakrossinum við minningarathöfn um fallna þýska sjóliða:

Gunnari var litið út um glugga skrifstofunnar. Fræg ljósmynd af nasistaflokknum gamla var tekin frá þessu sjónarhorni, fyrsta maí nítjánhundruð þrjátíu og sex, þegar hundrað manns marseruðu í brúnum skyrtum gegnum miðbæinn. Og hann vissi að bankastjórinn sem leiddi hann að dyrunum núna hafði verið einn af fánaberunum þá. (98–99)

Flókið og mótsagnakennt samband nasisma, Sjálfstæðisflokksins og efstu laga þjóðfélagsins fær sitt pláss á þessum fáu síðum.

Þungamiðja bókarinnar er síðan miðhluti hennar, þar sem við fylgjumst með Gunnari þroska nasisma sinn, komast til metorða og taka forystu í hinu leynilega en að því er virðist nokkuð stóra samfélagi þjóðernisöfgafólks og gyðingahatara á Íslandi undir lok sjötta og upphafi sjöunda áratugarins. Sá hluti er að mestu stílaður í bréfaformi, þar sem Gunnar skrifast á við ættingja og skoðanasystkini sín víða um heim. Formið og knöpp efnistökin þýða að við fáum ekki sérlega glögga mynd af uppruna og ætterni hugmyndanna eða hvernig þær skutu rótum hjá Gunnari. Á hinn bóginn tekst Sjón hinsvegar frábærlega að sýna okkur þær sjálfar á yfirvegaðan, nánast hlutlausan, hátt. Hann leyfir sér að birta okkur skoðanir Gunnars sem hugsjónir. Það vekur sérstaka athygli hvernig hann tengir nasisma Gunnars við gildi sem auðvelt er að hafa skilning á eða jafnvel samsinna: menningarlega ræktarsemi, virðingu fyrir náttúrunni, vilja til að standa fyrir sínu í heiminum. Siðprýði. Það virðist ekki vanþörf á:

Varðstaðan um norrænan menningararf er engin. Norræna félagið í Reykjavík er geldfuglasker. Íslenskudeildinni í Háskólanum hefur verið stýrt af eiturlyfjasjúklingi. Yfir Þjóðminjasafnið hafa þeir sett klámljóðskáld. Síðasti útvarpsstjóri var andatrúarmaður. (70)

Það er mikilvægur liður í að skilja hugmyndir af þessu tagi að skoða hvað leynist í þeim af þáttum sem „venjulegt“ fólk getur tengt við. Þeim mun meira hrollvekjandi er þegar Gunnar fer án greinarskila yfir í glórulausar samsæriskenningar um leynilega valdaþræði gyðinga og yfirburði hins aríska kyns.

Það sem Korngult hár, grá augu skila lesandanum öðru fremur er tilfinning fyrir því hvernig er að vera þessi tiltekni nasisti, Gunnar Kampen. Hvernig er að tilheyra ósýnilegu samfélagi en vera úr lögum við það hversdagslega. Leið Gunnars úr því samfélagi yfir í hið alþjóðlega/vestræna bræðralag þjóðernisofstækisins fær á hinn bóginn verður nokkuð bláþráðótt í þessum knappa texta. Þessar eyður hafa stundum hrollvekjandi áhrif í sjálfu sér, eins og þegar Gunnar velur sér að ritningargrein við fermingu sína 26. vers fjórða kafla Lúkasarguðspjalls: „Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.“ Þruma úr heiðskíru lofti. Aðallega þykir manni samt ekki nóg sagt af vegferð Gunnars frá því furðukvendið Savitri Devi sýnir honum hvernig hvítt fólk hleypir inn í sig ljósi í samkvæmi hjá Róbert A. Ottósyni, þar til ljósið í gráum augum hans slokknar á leið til fundar við alþjóðasamtök hatursins.

Óneitanlega saknar saknaði sá lesandi sem hér skrifar fyllri myndar af samspili persónuleika, tíðaranda, uppruna og hugmyndafræði. Hefðbundnari sögulegrar skáldsögu. En sem dapurleg mynd af manni með fastmótaðar ranghugmyndir er Korngult hár, grá augu vel heppnuð, stíluð af fágun og listfengum léttleika sem er eitt aðalsmerki Sjóns.

 

Þorgeir Tryggvason, nóvember 2019