Ég hef það fyrir sið að lesa aldrei innganginn að skáldsögum. Ég kýs heldur að geyma hann þar til síðast, þegar ég er búinn að þræða mér leið í gegnum söguna og mynda mér skoðanir um verkið, þótt það komi auðvitað fyrir endrum og sinnum að ég gefist upp um miðbik bókar þegar á brattann sækir og fletti til baka í von um að finna í innganginum einhver haldreipi til að styðja mig við. Inngangar eiga það nefnilega til, að mínu mati, að skemma þá einstöku upplifun sem fylgir því að stíga inn í veröld nýrrar bókar og gera sitt besta til að finna fæturna frá fyrsta orði. Í hvert sinn sem ég opna skáldsögu sem ég veit ekkert um, kannski eitthvað forvitnilegt sem ég greip með mér úr gefins-hillunni í sundlauginni í hverfinu, líður mér eins og eðlisfræðiprófessornum Sam Beckett (sem er alls óskildur írska rithöfundinum, eftir því sem ég best veit) í þáttunum Ferðast um tímann (Quantum Leap), sem nutu mikilla vinsælda á Stöð tvö á fyrstu árum tíunda áratugsins. Í hverjum þætti vaknar hinn geðþekki Beckett, sem er leikinn af Scott Bakula, í líkama ókunnugrar manneskju einhvern tímann í mannskynssögunni og þarf að gera sitt besta til að leysa úr flækjunum sem á vegi hans verða áður en hann fær aftur tækifæri til að stökkva um tímalínuna. Þannig er til dæmis hætta á því að ef maður les innganginn að Umskiptunum eftir Kafka áður en maður byrjar á sögunni sjálfri muni maður sjá í hverju horni herbergisins hans Gregors Samsa táknmyndir um ofríki föður Franz sjálfs eða það þunglyndi og þrúgandi álag sem væntingar samfélags og fjölskyldu leggja á herðar nútímamannsins, frekar en frásögn af manni sem breytist í skordýr, fjölskyldu sinni til mikils ama. „Þú trúir því ekki hvað gerist næst“, eins og fyrirsögnin á DV.is myndi orða það.
Einföld saga – á yfirborðinu
Útgefandinn Angústúra, sem hefur getið sér gott orð fyrir fallegar og vandaðar þýðingar frá hinum ýmsu krókum og kimum heimsins, veit sem betur betur fer hvar inngangurinn á heima: í eftirmálanum, þegar maður hefur lokið lestrinum og er tilbúinn að gangast við sögunni í stærra samhengi. Þannig kom það mér á óvart þegar ég las eftirmála Maríönnu Clöru Lúthersdóttur við Söguna af svartri geit eftir tamílska höfundinn Perumal Murugan, listilega þýdd úr ensku og ítölsku af Elísu Björgu Þorsteinsdóttur, að uppgötva að bókin kom út árið 2016. Sagan sjálf ber nefnilega með sér þá tímalausu yfirborðseinfeldni sem við þekkjum úr ævintýrum og dæmisögum sem varðveist hafa í munnmælum áður en þær voru nokkurn tímann festar á blað. Gamall maður situr á hól og horfir á geitahópinn sinn bíta gras þegar guðleg vera, einskonar risavaxinn landvættur, birtist honum og afhendir honum agnarsmáa svarta geit. Gamli maðurinn fer með krílið heim í kofann til konu sinnar, sem tekur miklu ástfóstri við geitina og skýrir hana Púnatsjí. Púnatsjí litla vex og dafnar, kynnist hinum geitunum í hjörðinni, eignast kiðlinga, og deyr að lokum þegar hungursneið herjar á héraðið og ekkert er að bíta sökum þurrks. Þetta er saga svörtu geitarinnar Púnatsjí, í grófum dráttum, en eins og gengur og gerist með dæmisögur er hægt að skoða þessa einföldu sögu frá ýmsum hliðum og fá þannig ólíkar sýnir á bæði samfélagið sem hún sprettur upp úr og okkar eigið samfélag.
Geitur og menn
Það liggur kannski í augum uppi, en í grunninn fjallar bókin um dýr – geitur, nánar tiltekið. Fyrir utan púkann Bakusaran, sem færir gamla manninum Púnatsjí að gjöf, eru það einungis geiturnar sem hljóta nöfn í frásögninni. Þannig kynnumst við Kaduvajan, Kallí, Pittan og Porumí, hinum geitunum í hjörðinni, og þótt við kynnumst einnig gömlu hjúunum og nágrönnum þeirra þá eru það alltaf geiturnar sem eru í forgrunni og fá mesta vægið í persónusköpuninni. Ætla má að lesendur verði margs fróðari um atferli og tilhugalíf geita eftir lesturinn. Sagan er að mestu skrifuð út frá sjónarhorni Púnatsjí, og er oft átakanlegt að fylgjast með þeim þjáningum sem hún þarf að þola. Hún horfir á hinar geiturnar undirgangast geldingar og slátranir, afkvæmi hennar eru étin fyrir framan hana og hún þarf að þola sársukafulla sæðingu – eða nauðgun – þar sem hún er reifuð föst í bás og öldruðum og ókunnugum hafri er hleypt upp á hana. Inni á milli finnur hún þó nokkur augnablik af fegurð og kyrrð, líkt og þegar hún villist frá eigendum sínum og sér hjörð villisvína sem ráfa frjáls um skóglendið, eða þau örfáu augnablik sem henni hlotnast með ástinni sinni, hafrinum Púvan, áður en hann er hrifsaður brott frá henni og slátrað til að þóknast Mesasuran, verndarguði ættarinnar.
Stétt hinna stéttlausu
Þessi örfáu augnblik veita Púnatsjí innsýn inn í allt það sem stæði henni til boða ef ekki væri fyrir hlutskipti hennar í lífinu, sem hún fær engu um ráðið. Þannig eru stigveldi og stéttaskipting allt um kring í sögunni. Geiturnar eru undir manninn komnar, en eru samt skörinni ofar en kindurnar, sem bíta bara grasrótina og eru „svo lánsamar að lifa án þess að skilja að það að beygja sig táknar að vera þræll“ (70). Sem huðna er Púnatsjí enn fremur lægra settari og ekki jafn frjáls og hafrarnir í hjörðinni. Henni er ætlað að fjölga sér til að stækka hjörðina fyrir eigendur sína og hún þarf að þola ýmiskonar kynbundið ofbeldi og líkamlega áþján í því hlutverki. Að sama skapi eru gamli maðurinn og kona hans, sem drottna yfir örlögum Púnatsjí og kiðlinganna hennar, varnarlaus gagnvart bjúrókratískum duttlungum yfirvalda héraðsins, sem hafa örlög þeirra í hendi sér og krefjast þess að þau fylgi mótsagnakenndu regluverki og bugti sig í grasið fyrir embættismönnum héraðsstjórnarinnar af nægilega mikilli auðmýkt. Enginn er fær um að yfirstíga þá stöðu sem stétt og samfélag hefur úthlutað honum. Þótt Púnatsjí sé „engin venjuleg geit“ (16), líkt og Bakusaran útskýrir fyrir gamla manninum þegar hann færir honum hana að gjöf, sjöunda kiðið í einum burði sem sjálf fæðir sjö kiðlinga í hverjum burði, þá stoðar það lítið til að breyta stöðu hennar. Í góður árferði hljóta gömlu hjúin lof og aðdáun nágranna sinna og auðgast á því að eiga huðnu sem ber sjö kiðlinga. Fólk flykkist að um langan veg til að bera kraftaverkið augum, og gamli maðurinn er loks fær um að gefa konu sinni gulleyrnalokkana og hálsmenið sem hún hefur svo lengi óskað sér, á meðan Púnatsjí sjálf þjáist mjög í kiðburðinum og kiðlingarnir sjö sjúga úr henni nær allt líf svo að hún er vart meira en skinn og bein. En þegar sverfir að stoðar lítið að treysta á kraftaverk. Blessun Bakusaran breytist í bölvun á meðan jörðin skorpnar og fólkið bíður í örvæntingu eftir regninu. Púnatsjí sjálf er aftur kiðfull af sjö kiðlingum, en öll tún eru brunnin og það er ekkert að bíta.
Loftslagshamfarir, draumaraunsæi og dæmisögur
Á meðan gömlu hjónin bölva henni og kvíða því að þurfa að taka að sér sjö kiðlinga sem þau geta hvorki selt né alið í þurrkatíðinni þjáist Púnatsjí og veslast upp. Þjáning hennar stendur fyrir þjáningar verðandi mæðra í hungursneiðum, ófær um að næra afkvæmin sem hún ber í maga sér, vitandi að ef hún lifir það að fæða þau bíður þeirra ekkert nema dauðinn. Gamla konan, sem þykir eftir allt vænt um Púnatsjí og kallar hana jafnvel dóttur sína, reynir hvað hún getur að halda í henni lífinu, þótt hún og eiginmaður hennar svelti sjálf sáran, en allt kemur fyrir ekki. Einn morguninn vaknar gamla konan og finnur Púnatsjí liggjandi hreyfingarlausa á gólfinu við rúmið sitt, en þegar hún fer til hennar sér hún að Púnatsjí hefur breyst í steinlíkneski. Þannig hefst sagan og endar á slóðum furðusögunnar, þótt þráðurinn þar á milli einkennist af raunsæislegum lýsingum af veruleika og þjáningum manna og dýra.
Snertiflötur pólitíkur og skáldskapar
Það er hægt að lesa þessa einföldu sögu á svo ótal vegu: sem gamaldags ævintýri eða dæmisögu um samskipti guða og manna, sem ádeilu í ætt við Dýrabæ Orwells um stéttaskiptingu og harðstjórn, sem gagnrýni á ómannúðlega meðferð á dýrum eða heróp gegn kynbundnu ofbeldi, eða sem vitnisburð um kvenlægan sársauka og þau ofsafengnu og hræðilegu áhrif sem loftslagshamfarir hafa á líf og líkama fátæks fólks. Í eftirorðum sínum gefur Perumal Murugan okkur þó eilitla innsýn í hans eigin hvata við skrif sögunnar og segir: „Það skelfir mig að skrifa um mannfólkið og enn hræddari er ég við að skrifa um guðina. [...] Gott og vel, leyfið mér sem sé að skrifa um dýr.“ Við lestur áðurnefnds eftirmála Maríönnu Clöru Lúthersdóttur fræðumst við enn fremur um það að eftir útgáfu síðustu skáldsögu sinnar á undan sögunni um geitina Púnatsjí, Madhorubagan, gefin út í Bretlandi með titilinn One Part Woman, þar sem menn og guðir voru einmitt í aðalhlutverki, hafi Murugan orðið fyrir ofsóknum og ofbeldi af hálfu öfgasinnaðra trúarhópa og verið neyddur af stjórnvöldum í heimahéraði sínu í Indlandi til að undirrita afsökunarbeiðni og innkalla öll eintök af bókinni. Eftir þessar hremmingar lýsti hann því yfir árið 2015 að „Rithöfundurinn Perumal Murugan er dáinn. Þar sem hann er ekki guð mun hann ekki rísa upp frá dauðanum. Hann trúir ekki á endurfæðingu“ (188). Þannig fáum við að heyra hvernig geitin Púnatsjí birtist höfundi sem bjargvættur; leið til að endurheimta rödd sína og mögulega finna öruggan vettvang til að skrifa um upplifanir sínar af valdleysi og óöryggi undanfarinna ára. Sem lesendur á örtungumáli nyrst í Atlantshafi, í órafjarlægð frá sögusviði bókarinnar, er það þó okkar að ákveða hvaða boðskapur það er sem við viljum lesa úr sögunni af svörtu geitinni Púnatsjí.
Björn Halldórsson, mars 2025