Beint í efni

Leiðsögumaðurinn

Leiðsögumaðurinn
Höfundur
Magnús Sigurðsson
Útgefandi
Dimma
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Þorgeir Tryggvason

Leiðsögumaðurinn

Magnús Sigurðsson hóf feril sinn sem þýðandi. Eða kannski öllu heldur leiðsögumaður, sá sem vísar lesendum sínum veginn um refilstigu ljóðlistarinnar þar sem þeir eru hvað villugjarnastir. Eitt leiðastefjanna í höfundarverkinu öllu er rannsókn á vegakerfi skáldskaparins, og stundum hreinlega tungumálsins. Hvert það leiðir okkur, bæði skáld og lesendur. Hvort og hvernig ferðalagið gerir okkur gott, bæði þeim sem skrifa og okkur sem lesum.

Eftir að hafa um hríð skipt verkum sínum nokkuð hefðbundið milli útlegginga á verkum erlendra góðskálda og eigin smíðum einkennast síðustu þrjár bækur Magnúsar af frjóu og frumlegu samspili þessara þátta. Tilvitnanir, snjallyrði, skrítlur og aðrir „fundnir textar“ eru settir í samhengi þess sem kemur „beint“ frá höfundinum sjálfum. Stundum sem túlkanir eða viðbrögð, en líka frumsköpun í ýmsu formi. Þessar síðustu bækur marka Magnúsi skýra sérstöðu í íslenskum bókmenntum og því er freistandi að horfa til baka eftir leiðinni sem hann hefur farið og finnast hann alltaf hafa stefnt þangað.

Árið eftir að þýðing Magnúsar á Söngvunum frá Písa eftir Ezra Pound kemur út birtist hans fyrsta ljóðabók með frumortu efni, í bland við þýðingar á klassískum kveðskap. Næsta bók er smásagnasafn með allnokkrum sannsögublæ, eftirtektarvert ritgerðasafn og tvær næsta hefðbundnar ljóðabækur. Með Krummafæti (2014) má segja að skýr og afdráttarlaus merki fari að sjást um þróun efnistaka hans í átt að formi nýjustu bókanna.

Meðfram eigin skáldskap hefur Magnús verið ötull ljóðaþýðandi og skrifað veglega formála að sumum bókanna sem geyma þýðingar hans. Í þeim og fyrrnefndu ritgerðasafni er að finna ýmsa vegvísa að sýn hans á hans eigin skáldskap og viðhorfs til fagurfræði nútímaritlistar.

I

List nákvæmninnar, en ekki nákvæm vísindi
            Þýðingarlistin

(Tregahandbókin, l.)

Ljóðaþýðingarstarf Magnúsar er umfangsmikið og metnaðarfullt. Þar í öndvegi hljóta að standa tvö stórvirki: þýðing hans á söngvum (Cantos) bandaríska skáldjöfursins Ezra Pound (2007), nánar tiltekið þeim hluta hins mikla söngvabálks sem kenndur er við Pisa, og ljóðaúrval annars bandarísks öndvegisskálds, Emily Dickinson, sem kom út árið 2020 undir nafninu Berhöfða líf. Auk þessara módernísku skáldjöfra hefur Magnús þýtt og komið í íslenska umferð ljóðum eftir skáld á borð við Tor Ulven, Adelaide Crapsey, Ewu Lipska, Naomi Shihab Nye, Lance Henson og Mary Oliver.

Margt af þessu er ekki auðflutt milli tungumála. Ástæður þess eru líka ólíkar, vísanaofgnótt Pounds og fínleg óræðni Dickinson krefjast ólíkra efnistaka sem Magnús virðist hafa vel á valdi sínu. Það er sannfærandi blær á öllum þýðingum sem voru skoðaðar við þessa yfirferð. Látum okkur nægja að skoða tvö sýnishorn.

Hér eru upphafslínur Pisasöngvanna, kviða LXXIV

Draumsins tröllaukna sorg í kotbóndans framsignu herðum
            Manes! Manes var sútaður og troðinn hálmi
            Eins Ben og la Clara a Milano
                                               á hælunum í Mílanó?

Að maðkar skuli eta hinn fallna tarf
DIOGONOS, ​​Διγoνης, en hinn tvíkrossfesti
                                               hvar er þess getið á spjöldum sögunnar?

Sem hljómar svona á frummálinu:

The enormous tragedy of the dream in the peasant's bent shoulders
            Manes! Manes was tanned and stuffed,
            Thus Ben and la Clara a Milano
                                    by the heels at Milano

That maggots shd/ eat dead bullock
DIGONOS, Διγονοσ, but the twice crucified
where in history will you find it?

Eins og sjá má er Magnúsi ákaflega umhugað um hrynjandi, jafnvel umfram nákvæma merkingu. „Sorg“ er ekki jafngildi „Tragedy“, en óneitanlega er ljóðrænt flug í línunni á íslenskunni. Eins og síðar á eftir að koma í ljós er Magnús elskur að orðaleikjum, og erfitt að trúa öðru en að honum hafi þótt sniðugt að láta „Eins“ gegna hlutverki „Thus“ í þriðju línunni, sem það gerir með erfiðismunum, en fá í staðinn smá svipleiftur af Einari Benediktssyni í kvæðið, þó öllu skuggalegra athafnaskáld sé hér til umræðu, sjálfur Benito Mussolini.

Hér er dæmi úr Berhöfða lífi:

Ég dvel í Húsi Möguleikans –
fegurra en Prósans –
veglegra að Dyrum –
ríkara – að Ljórum –

Þess Salir – Sedrusskógar –
svo langt sem augun ná –
með Þaksperrurnar eilífu
Himnum uppi á –

Gestirnir – þeir fegurstu –
og Iðja mín vís –
að breiða út hendur smáar
svo fangi Paradis –

Svona hljómar „F466“ á frummálinu:

I dwell in Possibility –
A fairer House than Prose –
More numerous of Windows –
Superior – for Doors –

Of Chambers as the Cedars –
Impregnable of eye –
And for an everlasting Roof
The Gambrels of the Sky –

Of Visitors – the fairest –
For Occupation – This –
The spreading wide my narrow Hands
To gather Paradise –

Eins og sjá má af hér og í dæminu úr Pound-þýðingunni eru markmið Magnúsar oft önnur og víðtækari en tryggð við orð frumtextanna. Honum hefur til dæmis greinilega þótt fínlegt hálfrím Dickinson: Prose – Windows – Doors, komast betur til skila með að breyta orðaröðinni og hafa dyrnar á undan ljórunum.

Hann orðar áherslur sínar skýrt í formála Dickinson-safnsins:

Viðtekin er sú hugmynd að „trani“ þýðandi sér fram sé það óhjákvæmilega á kostnað frumhöfundarins sem fyrir vikið þokist í bakgrunninn. […] Með því að taka virkari þátt í merkingarsköpuninni getur þýðandi þvert á móti verið i betri aðstöðu en ella til að sýna höfundi sínum tryggð, enda kemur sköpun þýðanda ekki (endilega) niður á sköpun frumhöfundar. (59)

Inngangar Magnúsar að þýðingasöfnunum, og aðrir „hreinræktaðir“ fræðitextar, eins og þeir sem safnað er samann í Gleymskunnar bók (2009) sýna vel hve vel honum lætur að opna lesendum leið inn í jafnvel alræmdustu myrkviði bókmenntanna. Hann leggur áherslu á að rýna í smáatriði, útskýra virkni textans, frekar en að missa sig í hátimbruðum heildartúlkunum. Veit sem er að það er verkefni lesandans, það sem á endanum dregur fólk að textum á borð við Dickinson og Pound. Eða þá Finnegans Wake eftir James Joyce, sem líta má á sem það sem stundum er kallað „endakall“ í tölvuleikjaheimum, lokabardaginn við andstæðing sem í upphafi leiks hefði virst augljóslega ósigrandi. Í Gleymskunnar bók er mjög forvitnileg, en ekki síst skemmtileg grein um þá alræmdu skáldsögu, sem vekur forvitni í stað þess að virka sem einhverskonar staðgengill fyrir umfjöllunarefnið, ritgerð sem tíundar leyndardóma bókarinnar og lausn þeirra, svo lesandinn þurfi ekki að opna hana sjálfur.

Finnegans Wake er Magnúsi greinilega hugleikin, því auk ritgerðarinnar í Gleymskunnar bók geymir fyrsta ljóðabók hans lokaorð bókar Joyce, þar sem framlag skáldsins eru neðanmálsgreinar til skýringar á orðaþykkninu. Efnistök sem síðan eiga eftir að enduróma í síðustu bókum Magnúsar.

Ást á bókmenntum er leiðarstef þessara bókmenntafræðilegu skrifa Magnúsar. Þörf fyrir að opna, vekja og hvetja, frekar en að túlka, afgreiða eða dæma. Trúin á mátt orðsins er sterk, en hún er tjáð frekar en boðuð.

II

Inngangsritið að verki Joyce, megnaði að veita mér stundarfrið á sínum tíma, sannfærði mig um það hjálpræði sem hafa má af bókum skáldskap (Hálmstráin, 103)

Árið 2008 sendi Magnús frá sér tvær bækur með frumsömdu efni. Hálmstráin og Fiðrildi, Mynta og spörfuglar Lesbíu. Báðar skrifaðar í Barcelona 2007–2008. Hálmstráin geymir lausamál, mest smásögur með sterkum endurminninga- og sannsögublæ, en líka hugleiðingar um bókmenntir og þá hjálp sem má sækja í þær á erfiðum tímum. Hér segir frá hversdagslegum atvikum, en líka öðrum sem eru til þess fallin að skapa fólki örlög.

Nokkrar greina frá atvikum í lífi sögumanns í katalónsku höfuðborginni. Tvær, „Andvaka“ og „Morgunstund“, lýsa kulnandi sambandi hans við innfædda unnustu, þau eru ekki lengur samstíga á kynlífssviðinu, sem skapar spennu og kveikir allskyns óra. Aðrar, „Sendibréf“ og „Barcelona“, eru á almennari nótum, lýsa lífi ungs aðkomumanns í hrörlegu háhýsi í miðborginni. Sú síðarnefnda viðameiri og hverfist um lykil að dyrum upp á þak byggingarinnar, sem gengur íbúa á milli í óþökk eigandans, enda andvarinn á þakinu helsta svölunin í svækjuhitanum. Í „Afskriftum“ er parið statt á Íslandi og sagan hverfist um Ljóðabréf Hannesar Péturssonar, sem sögumaðurinn kaupir á fornsölu, missir í baðvatnið, en tekst að bjarga.

Tvær sagnanna segja frá heimsókn sögumanns í Íslendingabyggðir í Vesturheimi, sem einnig kemur við sögu í Fiðrildum, Myntu og spörfuglum Lesbíu. Fyrri sagan geymir ýmis minningarbrot úr ferðinni, svipmyndir af allskyns fólki, en sú síðari segir eina samfellda sögu af heimsókn til útskurðarmeistarans Einars Vigfússonar. Þar er sögð saga af því þegar fimi hans með skurðhníf og brennslupenna blekkir dómnefnd í útskurðarkeppni svo hann verður af verðlaunum þegar dómnefndin heldur að hluti verksins sé ekki útskurður heldur raunverulegir steinar.

Annað sagnapar ber nafnið „Verkframkvæmdir“ en eru óskyldar að innihaldi – nafnið tengir þær saman og skapar þannig merkingarauka. Sú fyrri segir frá miðaldra smiði sem sinnir viðhaldi á bókasafni. Hann fær sér hænublund í bílnum sínum í hádegishléinu og dreymir óhugnanlegan draum um móður sem stendur yfir líki barnungrar stúlku, sem þó er með þrýstin brjóst sem sitja áfram í hug smiðsins þegar hann vaknar. Sú síðari er örsaga af stúlku sem bankar upp á hjá sögumanni og biður um að fá lánaðan rjómaþeytara.

Sterkari tengsl eru milli „Hvolpavits“ og „Hvolpavits II“, þar sem vaknandi kynhvöt er lýst á nokkuð kaldranalegan hátt. Í þeirri fyrri segir af stúlku af austurlenskum uppruna sem skarar framúr í hópi ungmenna sem æfir sund. Hún lætur áreitni sögumanns og hinna drengjanna yfir sig ganga, en hverfur frá æfingum eftir atvik sem þrátt fyrir hlutleysislegan frásagnarmáta verður varla skilið öðruvísi en sem nauðgun. Í seinni sögunni segir frá tveimur vinum og fyrstu reynslu þeirra af klámi og sjálfsfróun.

Síðasta tvennan ber nafnið „Vitnið“, og hverfist um föður sögumanns. Sú fyrri birtir hugleiðingar sem kvikna þegar faðir deyr og ganga þarf frá eigum hans. En hvað með minningarnar, og minningarnar um hann? Hver mun bera vitni um þann gengna, og hvernig? Sú seinni geymir nokkrar atvikssögur úr bernsku manns sem er fæddur á Ísafiði 1955, og tilfinningin er að þar fari faðir sögumanns úr fyrri vitnisburði, þó það komi ekki afdráttarlaust fram.

Það er endurminningarbragur yfir flestum sagnanna. Stundum felst hann ekki í öðru en að sögurnar eru lágstemmdar og tíðindalitlar, geyma efni sem erfitt er að ímynda sér að einhver hugsi upp frá grunni. Í „Rúntinum“ sest par upp í leigubíl eftir djammkvöld í bæ úti á landi. Þau eyða síðustu aurunum sínum í rúnt sem endar í útjaðri bæjarins þar sem parið hverfur inn í garð. „Greniveröld“ segir frá jólatréssölu föður sögumannsins, sem rammar inn atvik þar sem ógæfumaður reynir að lokka drenginn með sér í burtu, án þess við, eða hann á fullorðinsárum, viti hvort einhver hætta stafaði af honum.

„Latínukunnátta“ er einnig með upprifjunarbrag. Háskólakennari setur ofaní við nemanda sem gerist of ályktunardjarfur í ritgerð, en þó aðallega fyrir snaggaralega afgreiðslu hans á hugmyndum Barða Guðmundssonar um höfund Njálu, sem nemandinn sér í hillu kennarans. Sérviskulegt viðfangsefni sem kallast á við efnistök síðari bóka. Það sama gerir „Að daglestri loknum“, sem hefur sterkan sjálfsævisögulegan blæ í lýsingu sinni á á þunglyndi og frelsandi áhrifum bókmennta. Hér segir meðal annars frá fyrstu kynnum af Finnegans Wake, en umfjöllun um þá bók er að finna í verkum Magnúsar frá þessum árum, eins og fram hefur komið.

Endurminningasagan „Sveitin“ er sú sem hefur sterkustu einkenni hefðbundinnar smásögu. Þar segir af sögumanni og frænda hans sem dvelja sumarlangt hjá afa sínum í sveitinni. Hjálpa við að dytta að húsi og bera skít á tún.

III

Sama ár og prósaverkið kemur út sendir Magnús frá sér ljóðabókina Fiðrildi, mynta og spörfuglar Lesbíu (2008). Hún skiptist í þrjá hluta, þar sem miðhluti með frumsömdum ljóðum er rammaður inn af þýðingum á verkum tveggja öndvegisskálda fornaldarinnar: Gæjusar Valeríusar Katúllusar og Publíusar Vergilíusar Maró. Áður hefur verið minnst á óvænta innkomu Finnegans Wake og fagurfræðilega nýtingu neðanmálsgreina í þessu safni. Fornöldin og módernisminn deila leikvelli í bókmenntaheimi Magnúsar Sigurðssonar án nokkurrar áreynslu.

Frumsömdu ljóðin eru að mestu að formi og fagurfræði hefðbundin nútímaljóð. Óbundin, full af frásögnum úr hversdagsheiminum sem gefin er ljóðræn lyfting með óvæntu samhengi, með því að varpa ljósi á tvíræðni orða, jafnvel með því einu á festa þau á blað. Margt af efninu er erfitt að ímynda sér að sé ekki byggt á reynslu og minningum. Dvöl í suðrænum löndum („Frosthörkur“), heimsókn í Íslendingabyggðir Vesturheims („Gimli/Kanada“) eða ástarsamband sem kannski er runnið sitt skeið („Kvöldbæn II“).

Við svona heildaryfirferð á höfundarverki, að mestu frumlestur, staldrar hugurinn óneitanlega við það sem á sér enduróm annarsstaðar. Leitar tenginga, samhengis, samnefnara. Hér eru til dæmis tvö falleg dæmi um ást Magnúsar á orðaleikjum og þeim merkingarauka sem örlítill uppásnúningur býður upp á:

Ísak Harðarson

Ísak
Harðarson

Guð
býr

órans
akanlegur

í rit
vélinni

þinni

Kvöldbæn

Hún er veik
og sefur og ég
vaki yfir henni

Við lásum
            Línu
            Tuma
            Emmu

og háttuðum undir sæng
í hreinum náttfötum,
þvegin og strokin
undir bæn sængurversins:
sé til guðs engla
saman í hring“

Í næstu tveimur ljóðabókum, Blindum fiskum (2011) og Tíma kaldra mána (2013) ríkir svipuð fagurfræði og í Fiðrildum, myntu og spörfuglum Lesbíu. Líkt og í frumrauninni yrkir Magnús í Blindum fiskum til, eða í minningu nokkurra skálda, þar á meðal tveggja sem hann á eftir að þýða og kynna með viðamiklum söfnum og efnisríkum inngangstextum: Emily Dickinson og Tor Ulven.

Heildarsvipur bókarinnar er þungur og á köflum örvæntingarfullur, þó oftast með örlítilli vonarglætu:

loftfarið

þegar hugurinn
varpar
akkeri,
að hamingju þinni
forspurðri,
þar sem þú vilt
ekki vera
en færð ekki
slitið þig
lausan

            veistu
og hughreystist
við, að ást þín
er loftfar
sem svífur

og þú mjakast

með akkerið
djöful þinn
í dragi,
því að ást
þín er stórkostlegt
loftfar

og þú mjakast

Skáldskapurinn, sköpunin, er hér erfiði, en jafnframt nauðsyn, og trúin óbiluð á að hún sé eina bjargræðið.

dagbók

og ég kreisti þau
út, eitt

af öðru
eins og gröft úr sýktu

holdi

Tími kaldra mána er af svipuðum toga spunnin. Meiri að vöxtum, 79 síður en hin fyrri 48. Bókin skiptist í þrjá kafla: Ljóðgræna, Apríkósugarðurinn og Um myrkurskóginn.

Það er ennþá fremur dimmt yfir í huga skáldsins, en það er þó farið að horfa meira út fyrir sig. Velta fyrir sér náttúrunni og spegla sitt eigið hugarástand meðvitað í því sem fyrir augu ber. Náttúrusýnin er fjölbreytt, stundum næsta hefðbundin uppspretta líkingamáls, en þó með áberandi, eilítið kaldhæðinni meðvitund um hversu viðtekin slík nálgun er í ljóðheimum:

Hugarlandið

Nú eru laufin
visnuð

eins og plómur.
Og himininn

gómfyllubleikur.

Ytri veröld,
ég drekk þig.

Ég veiti þér
eins og fljóti,

Yfir skrælþurra akra
hugarlandsins.

Áhugaverður þráður sem hér er tekinn upp og spunninn áfram í næstu verkum eru ljóð sem fjalla beinlínis um náttúruvísindi og pínu hlægilegar takmarkanir þeirra í samanburði við undur heimsins. Þetta snjalla ljóð er gott dæmi:

Framþróun (1)

Flug dvergvespunnar,

eins millimetra
vænghaf
sem hún blakar
350 sinnum
á sekúndu,

hefur loksins náðst
á mynd.

Eftir milljón
árþúsund stöðugrar
framþróunar

á tæknisviðinu.

 

IV

Ég er bókstafstrúar.

Í bókstaflegri merkingu
þess orðs.

Þannig hljóðar ljóðið „Trúarjátning“ í fjórðu ljóðabók Magnúsar, Krummafæti, sem kom út 2014. Undirtitill hennar er Ljóð og skissur, og óhætt að segja að hún greini sig nokkuð skarpt frá Tíma kaldra mána. Ekki aðeins með því að innihalda texta í fjölbreyttara formi, heldur ekki síður með leikgleðinni sem hér fær að valsa næsta óhindruð í samspili, að ekki sé sögð þráskák, skálds og máls.

Sú kátína tekur á sig ýmsar myndir. Þarna eru nokkur konkretljóð, stafavíxl og aðrar stafsetningartilraunir sjást hér og hvar, til dæmis í kaflaheitunum Tþjáningarfrelsið og Tunglmálið. Og í ljóðinu „Orðið er laust“, sem er tileinkað minningu franska skáldsins Paul Celan:

Æ
Sea
Ice
C’est la
Celan
Land
And
Enn
Die

Möguleikar ljóðlistarinnar og skapandi umgengni við tungumáli er enn sem fyrr leiðarstef, og verður enn plássfrekara hér en áður. Sést í verki í flestum textanna, en margir þeirra fjalla líka um þetta efni, oft á snjallan og tilþrifamikinn hátt:

Litla ljóðið sem gat

Ég er pínu
pínulítið ljóð,
og ég get allt.

Sjáðu bara!

Mér tókst
að troða fílnum
í gegnum

skráargatið.

Og áfram heldur þráðurinn úr Tíma kaldra mána, með ljóðum um undur náttúrunnar, og hve undarleg sú hugmynd er að náttúrúran sé undur. Þetta sést t.d. í ljóðinu „Fiskikóngulóin“, og í staðhæfingu sem Magnús hefur eftir ameríska ljóðskáldinu Mary Oliver í ljóðinu „Kenning“:

Það sem virðist
vera til skrauts
í náttúrunni
er alltaf til gagns.

Krummafótur er sérlega fjölbreytt og kröftug ljóðabók með leikgleði sem sitt augljósasta einkenni. En þrátt fyrir tilraunagleði sína verður Magnús aldrei torræður eða myrkur. Allt efnið talar skýrt við lesandann og opnar leiðir inn í hugmyndirnar og tilfinningarnar sem að baki búa, sem oftar en ekki eru sárar og erfiðar.

Það er meiri agi, skýrari heildarsvipur yfir næstu bók, Veröld ný og góð (2016). „Ljóð og pósar“ er undirtitill hennar, og óbundið málið er hér fyrirferðarmeira og agaðra en í Krummafæti.

Nokkrir prósarnir eru eiginlega stuttar heimspekilegar smásögur. „Legó“ segir frá sögumanni sem fær ósamsett ljóð eftir danska ljóðskáldið Inger Christiansen sent, og ræðst í samsetningu þess, dyggilega studdur af leiðbeiningum á kínversku. Útkoman reynist vera ljóðafley og sögumaður verður þar galeiðuþræll, dæmdur til að hugleiða það undur að latneska sögnin „lego“ geti verið upprunnin úr dönskum orðaleik, „leg godt“.

Í „Heilnæmi“ er á hinn bóginn sagt frá draumi sögumanns, sem taldi sig þurfa betri heila og fer því í verslunarferð til að festa kaup á einum slíkum. Ekki gengur það sérlega vel, en allskyns orðaleikir út frá orðinu „heili“ einkenna textann. Slíkir leikir eru áberandi í bókinni, annar stuttur prósi segir til dæmis frá óánægðum sirkusfíl, að því er virðist aðallega til að koma að byrjuninni á uppsagnarbréfi hans, „upp á síðkastið hef ég fílað mig …“ (20)

Sprell með stafsetningu er ekki eins áberandi hér, þótt þvi sé ekki úthýst. Bundna málið er heldur ekki eins markað tilraunagleði og í Krummafæti. Því fer samt fjarri að hið vakandi auga fyrir óvæntum tengingum – og fundnum skáldskap –  hafi misst skerpu sína:

Drög að samfélagssáttmála

            1. gr

Á heimleiðinni,
út um svifryks-
gráan gluggann
í tvistinum

stenslað
með hvítu
á svartan
endurvinnslugám

fyrir framan
niðurníddar skrifstofur
African Development Center
of Minnesota

les hann skrifað

Þessa einföldu kröfu
þessa einföldu ósk
þetta einfalda ljóð:

DO
IT
JUST

Undir frosthvítri
Minnesota-sól.

V

Ætti ég að lesa Pensées Pascals?
            Munu þær bjarga mér?

 spyr hann sig

(Tregahandbókin)

Þrjár nýjustu bækur Magnúsar, Tregahandbókin (2018), Íslensk lestrarbók (2019) og Húslestur (2022) eiga ýmislegt sammerkt. Þær geyma allar einhver textabrot eftir aðra höfunda, brot sem Magnús hefur tínt upp af vegi sínum og tekið til handargagns, sett í samhengi við eigin hugleiðingar, eða hreinlega bara talið ómaksins vert að koma á framfæri við lesendur sem ekki eru alveg jafn víðförulir og hann. Megnið af efninu er þó ávallt „frumsamið“, flest í formi óbundins máls, stuttra prósa eða jafnvel ör-ritgerða. En það er óneitanlega notkun „fundins máls“ sem vekur sérstaka athygli og kallar hæst á umfjöllun.

Þó bækurnar þrjár séu hér spyrtar saman fer því fjarri að þær séu einsleitar, eða að Magnús hafi með þeim fundið „formúlu“ sem hann fyllir upp í með ólíkum stærðum í hverri bók. Hver þeirra hefur sín sérkenni, og svo hefur hvað eftir annað komið fram í þessu yfirliti að skáldið hefur frá fyrstu tíð sótt bæði innblástur og brot í textasafn heimsins.

Undirtitlar bókanna þriggja gefa einhverjar vísbendingar. Tregahandbókin er „ferðalag“, Íslensk lestrarbók geymir „texta“ og í Húslestri eru „ritgerðir“. Segja má að undirtitll fyrrstu bókarinnar – og auðvitað titillinn sjálfur líka – greini hana afgerandi frá hinum, með því að vísa í umfjöllunarefni og framvindu frekar en formið eitt.

Tregahandbókin stendur líka ágætlega undir þessu loforði. Hún er nokkurskonar bókmenntaleg sjálfshjálparbók fyrir dapra og þunglynda, kannski einhverskonar framhald hugleiðinganna í „Að dagslestri loknum“ í smásagnasafninu Hálmstráunum, þar sem höfundur veltir því upp hvort þráhyggjukenndur bóklestur hans byggi á von um að geta „endurforritað“ (103) sig.

Líkt og tölvukóði er gjarnan þá eru textaklausur Tregahandbókarinnar númeraðar. 250 textar, margir sóttir í bókmenntasjóði aldarinnar. Frá tilvitnun í Lé konung Shakespeares, „Ekkert hefst af engu“ (i) til annarrar sem sótt er til Jónasar Hallgrímssonar (örlítið uppásnúinn) og Gyrðis Elíassonar:

Með fjaðrabliki
háa tregaleysu

í Sumardalinn

„Á svörtum vængjum
inn í ljósið“

Eins og sjá má í þessu síðasta dæmi hefur Magnús ekki glatað trúnni á orðaleiki og uppásnúning sem hjálpartæki fyrir bókmenntir og sálarheill. Síður en svo, þeir eru hér á hverju strái. Í broti lx tengir hann saman nýyði Joyce, „funferal“ úr Finnegans Wake við misheyrn lítillar frænku sinnar: „útfjör“. Eða í "xxiii", sem er í formi ‚hefðbundins‘ nútímaljóðs:

Exist.
Exit

Það munar engu.
            Sjálfu enginu.

En þó því.

Einn veigamesti texti Tregahandbókarinnar er, að því ég kemst næst, fyrsta atlaga Magnúsar að þeirri tegund tilraunamennsku sem kölluð er oulipískar bókmenntir. Þar er unnið með ýmisskonar kerfisbundnar takmarkanir eða umritunarreglur til að draga fram ferska merkingu eða aðra möguleika en annars kæmu fram við ritstörfin. "Xxvii" er heildstæðasta smásagan í bókinni og minnir um margt á hugartilraunir argentínska höfundarins Jorge Luis Borges. Þar er sagt frá hagræðingartilraunum ráðamanna sem fækka smám saman stöfum stafrófsins. Eftir því sem þeirri raunasögu vindur fram verður textinn, sem skrifaður er samkvæmt fyrirmælunum, sífellt erfiðari aflestrar, en þó lengi vel ágætlega læsilegur. Hér er síðasta setningin:

Leteventel lentsens vele estenektel, et ekke se nennst e blentelestettene ek blevelkelesentel. Enegtestel ellle vele te letenenn lekesens, sen sbelete net stettenken tessen velkel vel.

Treginn og tungan eru meginviðfangsefni Tregahandbókarinnar. Íslensk lestrarbók er hvorki jafn helguð ákveðnu viðfangsefni, né heldur formbundin til jafns við þá fyrri. Hún skiptist í nokkra kafla sem hver hefur sín sérkenni. Sá fyrsti, Letidrengurinn : veðurdagbók, er nokkuð samfelldur texti sem hægt er að líta á sem nokkurskonar inngang. Hér segir af manni sem glímir við leiða og iðjuleysi, og er „farinn að sanka að sér fánýtum fróðleik  og skrá hjá sér, á blöð og pappíra sem liggja hér og þar í íbúðinni. Þetta eru molar sem hann tínir á göngu sinni um bókaskóginn“ (11–12)

Næsti hluti, Réttindi lesandans, samanstendur af smáprósum, sumum fundnum, öðrum frumsköpuðum. Samnefnarinn er gleðin yfir að sjá nýjan flöt á orðum og merkingu, eins og sést til dæmis í sögunni sem kaflinn hefst á og segir frá manni sem grennslast fyrir um hvað til sé í bókabúð af verkum Halldórs Laxness. Afgreiðslustúlkan spyr þá samstarfsmann sinn um hvort þau eigi bókina „How to kill an Actress“ (45).

Allskyns listar setja líka svip á kaflann: lífsreglur Johnny Cash, listi yfir samsett orð þar sem dýraheiti er annar liðurinn og síðast en ekki síst réttindaskrá lesandans, sem hefst svona:

Hver lesandi skal njóta óskoraðra réttinda til að

i)          lesa ekki
ii)         hlaupa yfir
iii)        skauta yfir
iv)        fletta yfir
v)         klára ekki
vi)        flýja veruleikann

Guðinn í hlutunum heitir þriðji hluti bókarinnar og inniheldur brot úr dagbókum kanadískrar myndlistarkonu, Emily Carr (1871–1945). Texti sem kallast skýrt á við sjálfsævisöguleg skrif Magnúsar sjálfs, í Tregahandbókinni og fyrsta hluta Íslenskrar lestrarbókar.

Í fjórða hlutanum, Liprum töktum, hefur Magnús skrifað niður lýsingu Harðar Magnússonar á úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla 2015, þar sem FC Barcelona sigraði „gömlu frúna frá Tórínó“, eins og Juventus-liðið er gjarnan kallað, og ekki sjaldan í ótrúlegum orðavaðli lýsandans. Það sem fangar athygli lesandans hér er hvaða þýðingu umbreyting hins staðlaða orðfæris knattspyrnulýsisins úr töluðu máli, mæltu af munni fram í hita leiksins í niðurskrifaðan texta í bókmenntalegu samhengi, hefur á viðtökur hans.

Lokahlutinn ber nafnið Þessi heimur, eins og hver annar – 1961, og segir brotakennda, en þó samfellda sögu tveggja kvenna; „hennar niðri“ og „hennar uppi“. Sú fyrrnefnda líklega bara barn, en hin síðarnefnda ekki rólfær og upp á aðstoð hinnar komin. Í ljóðræni og fallegri lýsingu Magnúsar á naumhyggjulegu lífi og lífsbaráttu þessara tveggja kvenna er sterkur endurómur af einum af bókmenntalegum hetjum hans, sem oft er vitnað til í fyrri bókum: Samuel Beckett.

Hún uppi. Karlæg, í rúminu bláa. Í húsinu með bárujárnsþakinu rauða. Tvílyft, í jaðri þorpsins. Fjarri hinum. Við hafið. Seltan í vindinum, á rúðum hússins. Brothljóð öldunnar. Gnauðið dag og nótt, á gluggum hússins.

Þannig. Þannig tvær.

(209)

Í Húslestri heldur Magnús áfram að þróa efnistök sín, án þess að stíga róttæk skref frá nálgun sinni í Tregahandbókinni og íslenskri lestrarbók. Formbinding fyrri bókanna er horfin, hverju efnisatriði gert að standa fyrir sínu.

Undirtitill bókarinnar er, eins og komið hefur fram, „ritgerðir“, og segja má að hún standi ágætlega undir honum. Hluti textanna eru hugleiðingar um misfleyg og fræg ummæli eða bókmenntaleg snjallyrði, sem mögulega hefðu fengið að standa óskýrð og -túlkuð í fyrri bókum. Þá eru hér sögur bókmenntalegum stórmennum á borð við Schopenhauer og Rimbaud, og bókmenntalegum stórslysum eins og túlkun Finns Jónssonar á sænskum jökulristum, sem hann taldi vera rúnaletur og hlaut mikla skömm fyrir.

Magnús heldur hér áfram að gera skemmtilega lista. Hér er til að mynda að finna skrá yfir íslenska málshætti sem boða bjartsýni. Lista yfir nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, og nokkur dæmi um hvað fólk hefur lagt til að stafirnir í heiti dönsku reiðhjólaverksmiðjunnar DBS standi fyrir. Þá eru hér listar yfir alþýðleg skammaryrði um þunnt kaffi og fræg dæmi um föll:

Eva í freistni
Lúsífer af himnum
Loftsteinninn sem bar lífið til jarðar
Íkarus af oflæti
Jónatan og Snúður út um eldhúsgluggann

Við öll, í ónáð
Við öll, í martröðum okkar
Við öll –

Ólíkt Mary Poppins, sem sveif til jarðar

Hér eru ekki margir textar sem fortakslaust mætti kalla ljóð. Þó til dæmis þetta, sem kallast á við fyrri ljóð Magnúsar sem innblásin eru af náttúru og náttúruvísindum:

HAGFRÆÐIKENNING AFSÖNNUÐ

Úr engu.

Alheimurinn, samkvæmt eðlisfræðinni.

Og veröldin því – einsog hún leggur sig – hádegisverður sem
ekkert kostar.

Og þessi einfalda og hugvíkkandi hugmynd, sem varla nokkrum dytti í hug öðrum en Magnúsi Sigurðssyni, og verðskuldar að loka þessari umfjöllun um snjallan og einstakan höfund og boðbera ferskrar hugsunar og opineygrar leitar að verðmætum í textasafni heimsins:

A Á B D E Ð F L M N R S X É G H I Í J K O Ó P Z C T U Y Ý Ú V Þ Æ Ö

Stafrófið.

Í stafrófsröð

 

Þorgeir Tryggvason, mars 2023