Leitin að Blóðey eftir Guðna Líndal Benediktsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2014. Guðni hefur áður skrifað þætti fyrir sjónvarp og unnið við kvikmyndir en hann er menntaður handritshöfundur og leikstjóri.
Í sögunni er Kristján, sjö ára, sendur í rúmið á undan öllum öðrum og finnst það frekar ömurlegt. Hann er mjög upptekinn ungur maður og þarf að gera margt annað en að liggja í rúminu. Kristján fer í fýlu og þegar afi hans kemur og býðst til að segja honum sögu er hann næstum búinn að afþakka, en sér að sér á síðustu stundu. Í sögunni, sem afi vill meina að sé dagsönn og hafi raunverulega gerst fyrir margt löngu, er amma Kristjáns numin á brott af illum seiðskratta sem læsir hana inni í kastala á galdraeyjunni Blóðey. Afi verður að gjöra svo vel að bjarga ömmu og hefst strax handa við að reyna að finna út úr því hvernig hann geti komist til Blóðeyjar.
Leitin að Blóðey er sannarlega snúin þar sem eyjan er ekki föst á einum stað heldur er hún á stöðugri hreyfingu og nánast ómögulegt að komast þangað. Afi kemst að því að til þess að finna hana þurfi hann fyrst að hafa uppi á Blóðsteininum sem býr yfir töframætti og getur vísað veginn. Hann þarf að fara um víðan völl til að leita að steininum og glíma við tröll, ninjur og grátandi sagnfræðinga en afi er ekki sá eini sem telur sig þurfa á steininum að halda. Steinninn dugar þó ekki einn og sér til að finna Blóðey og afi þarf að leysa þrautir og finna fleiri muni áður en hann er tilbúinn. Hann fer að Heklu, á Hornafjörð, ofan í Vatnajökul og á Reykjavíkurflugvöll til að safna saman því sem hann þarf en á meðan hann er að öllu þessu stússi situr amma læst inni í klefa í kastalanum. Amma er þó engin hefðbundin prinsessa sem situr og bíður eftir að vera bjargað heldur gerir hún djarfa flóttatilraun en kemst þá að því að klefinn hennar er sennilega langöruggasti staðurinn á eyjunni. Þó að afa takist að finna Blóðey er sigurinn ekki í höfn því hann þarf bæði að finna ömmu og berjast við seiðskrattann og drekann hans áður en þau geta haldið heim á leið.
Sagan er að vissu leyti byggð upp eins og hefðbundið ævintýri þar sem aðalhetjan heldur af stað í ferðalag til að frelsa prinsessu úr ánauð. Hetjan þarf svo ýmsa töfragripi og fær aðstoð frá galdraverum og vitringum til að leysa verkefnið sem honum hefur verið falið. Þrautirnar sem fyrir hann eru lagðar reyna á kænsku hans og hugvit, en að lokum hlýtur hann prinsessuna í turninum að launum. Í sögunni má einnig greina ákveðin áhrif frá hetjusögum þar sem afi setur sig fram sem mikinn kappa: sterkan, úrræðagóðan og einstaklega fjölhæfan. Hann hræðist ekkert og bregður sér í ýmis hlutverk auk þess sem hann ferðast um víðan völl og sigrast á alls konar óvættum.
Ævintýrin sem afi Kristjáns lendir í eru bæði þjóðsagnakennd og nútímaleg í senn þar sem hann þarf að takast á við tröll og drauga en einnig við ninjur auk þess sem hann bjargar galdrakarli úr álögum með aðstoð marbendils og ryksugu. Frásögn afa er bæði full af ýkjum og ótrúlegum atburðum en framsetningin er full af húmor og glettni. Afi er flinkur sögumaður sem kann að halda athygli hlustandans/lesandans og vekja áhuga á sögunni. Sagan virðist innblásin af leikföngum sem Afi finnur í herbergi Kristjáns en hann heldur því samt statt og stöðugt fram að sagan sé dagsönn. Kristján er samt ekki til í að trúa hverju sem er og heimtar reglulega skýringar ef eitthvað er órökrétt og gengur ekki upp. Þetta samspil Kristjáns og afa hans er vel heppnað og minnir lesandann á að gleypa ekki við öllu sem honum er sagt, þó að afi sé reyndar lunkinn við að skýra hlutina út þegar hann lendir í mótsögn við sjálfan sig eða þegar Kristjáni finnst eitthvað einum of ótrúlegt. Verkefni afa kunna að virðast flókin en þau eru sett upp á skýran og rökréttan hátt og sagan verður hröð og skemmtileg. Hvert verkefni leysir annað af hólmi og lesandanum er stöðugt komið á óvart við lesturinn.
Afar og ömmur koma sterk inn í barnabókmenntum þetta árið og má velta fyrir sér hverju sætir. Ef til vill er hér á ferðinni ábending til foreldra um að taka lífinu með meiri ró, rækta betur ímyndunaraflið og leyfa því jafnvel stundum að ráða för í staðinn fyrir að vera alltaf að flýta sér og reka fólk bara í rúmið án tillits til eins eða neins. Eða kannski áminning um að rækta sambandið við ömmur sína og afa sem hafa frá mörgu áhugaverðu að segja, til dæmis illum seiðskröttum sem ræna saklausum ömmum.
María Bjarkadóttir, nóvember 2014