Beint í efni

Ljóð af ættarmóti

Ljóð af ættarmóti
Höfundur
Anton Helgi Jónsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„Hver erum við? / Hvar erum við? / Erum við / við?” Svona hefst eitt ljóðanna í Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er afskaplega kunnugleg tilvistarleg spurning sem öðlast nýtt líf í þessu samhengi, því þótt ættarmótið sjálft komi aldrei til tals utan titlisins, þá er óhjákvæmilegt að lesa ljóðin í ljósi þess. Þannig verða spurningarnar áhugaverðar á nýjan hátt, því ættarmótið sem vísað er til má skoða í stærra samhengi - nei ekki mennskunnar allrar heldur örsamfélagsins Íslands: „Ég get ekkert sagt. / Ég er sonur mömmu. / Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.” Bókin endar svo á því að elsti Íslendingurinn deyr, aftur: „Elsti Íslendingurinn er látinn. Lifi elsti Íslendingurinn.”

Anton Helgi Jónsson kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1974 með ljóðabókinni Undir regnboga, þá aðeins nítján ára gamall. Síðan hefur hann sent frá sér tvær ljóðabækur og birt ljóð í tímaritum og safnritum, auk þess að gefa út skáldsöguna Vinir vors og blóma 1982. Nú síðast gaf hann út bókina Hálfgerðir englar og allur fjandinn (2006), en hún er í smáu broti og innheldur myndljóð af ýmsu tagi, sem höfundur kallar tilbrigði við limrur. Á heimasíðu hans, www.anton.is, má finna fleiri myndljóð sem hægt er að nota sem skjámyndir á tölvum. Þar er einnig hægt að heyra skáldið lesa upp. Þrátt fyrir ýmsa útgáfu hefur lengi vel ekki borið mikið á höfundi, en þessi nýja bók, Ljóð á ættarmóti, hefur þó vakið verðskuldaða athygli.

Annað einkenni bókarinnar sem ein tilvitnanana hér að ofan leiðir í ljós er kynjaflöktið, sem í þessu tilfelli kemur til af því að raddirnar eru margar og af öllum kynjum. Stundum er jafnvel skipt um kyn í miðju ljóði, eins og hér að ofan. Þannig skapast furðulega skemmtileg tilfinning fyrir margröddun (afsakið), einskonar mennsku fuglabjargi þar sem hver talar upp í annan, segir sögur af sér (eða ekki), sumar raddir láta mikið fyrir sér fara, aðrar - flestar - eru hljóðlátar og íhugular. Hver er ég í þessu samhengi á þessum stað?

Og það er svo sannarlega ýmislegt sem kemur upp. Fyrsta röddin svarar spurningunni um „hvað hafi orðið úr mér” og segist hafa „gert ágætis mistök”. Önnur man hvernig var þegar hún fæddist: „Svartþröstur hoppaði um garðinn. / Þrífættur köttur gægðist fyrir horn.” Tvö ljóð lýsa landinu og landsbyggðaflóttanum. Landið er svona: „Grjót. Mosi. Vatn.” í sex mismunandi útgáfum. Og þegar gamli bóndinn, sá sem hélt út hvað lengst á jörðinni dreymir að Lykla-Pétur leiði hann inn í himnaríki, sér hann engan sem hann þekkir: „Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur. / Þitt fólk er allt farið suður.”

Hér birtist húmorinn sem einkennir mörg ljóðanna, þó kannski sé ekki beint um hefðbundna íslenska fyndni að ræða. Ekki er þetta heldur beint írónía, heldur frekar einhverskonar íhugul kímni með grátbroslegum undirtónum eins og í ljóðinu um ellilífeyrisþegann sem er hættur störfum en þó ekki gagnslaus: „Ekki batnar mér samt af ellinni.”

Nokkuð er um innihaldslausar samræður, einn biður um saltið en enginn heyrir í honum og svo má ekki gleyma hinu klassíska: „Við verðum að fara að hittast.” Morðinginn er þarna líka, „Heldur hann að allt sé gleymt?”, „Hvað er maður lengi morðingi? / Hvað er maður lengi maður?” Enn halda tilvistarlegu spurningarnar áfram. Einum finnst leiðinlegt fólk skemmtilegast, því það tekur ekki athyglina af honum og svo er það sagan um aðalskutluna, sem eignaðist börn og gerir síðan ekkert annað en skutla þeim.

Það sem er kannski mest áberandi er þó einmanaleikinn, sem er vissulega annað kunnuglegt ljóðstef, en lifnar í þessu samhengi ættarmótsins. Ein vaknar alltaf ein, og önnur hefur ekki fengið boðskort. Í þá þriðju er aldrei hringt, hvorki sölumenn né skoðanakannanir ónáða hana yfir matnum. Einn hittir þarna fyrir kvíðann og er feginn að þekkja þó einhvern, en svo eru það líka ljóðin sem fjalla um þörfina fyrir að sleppa undan sjálfum sér, en hvorki barinn né það að flytjast til annarra landa dugir. Enn einn er fullur af óljósri löngun í eitthvað, en það er ekkert sem freistar í ísskápnum.

Kannski eru það einmitt örlög Íslendingsins, að vera alltaf einn og alltaf að bíða eftir einhverjum öðrum, eins og segir í einu ljóðinu:

Íslendingur er maður
sem leitar að öðrum.

Á krá erlendis
líta fæstir upp úr kollunni
þótt einhver síðbúinn komi inn.

Bara einn lítur til dyra.
Hann væntir þess alltaf að hitta annan.

Á þennan hátt byggist upp dálítið mögnuð tilfinning fyrir óþoli í ljóðunum, allir eru á einhvern hátt að leita að einhverju, óska eftir einhverju, sambandi, friði, tengslum, því að láta ljós sitt skína eða bara að segja sögu sína. Raddirnar tala hver upp í aðra og það er ljóst að þarna á sér ekki stað neitt samtal milli þeirra, heldur hljóma þær allar hver úr sínu horni. Þó er ljóst að margar þeirra eiga ýmislegt sameiginlegt, eins og til dæmis þessa leit, eða þörf fyrir leit.

Er þetta niðjatalið?

Já, þetta er niðjatalið.
Svona tala niðjarnir.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.