Beint í efni

Ljónið

Ljónið
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Skáldsagan Ljónið er nýjasta bók Hildar Knútsdóttur og sú fyrsta í nýjum þríleik höfundar. Sagan gerist í Reykjavik og fjallar um líf og tilveru ungs fólks í borginni. Á yfirborðinu eru hversdagslegir atburðir í fyrirrúmi en undir niðri krauma leyndarmál sem hafa fengið að liggja óhreyfð um árabil og leita nú upp á yfirborðið.

Aðalpersónan Kría er nýflutt ásamt foreldrum sínum frá Akureyri í miðbæ Reykjavíkur. Hún skilur eftir sig slæmar minningar fyrir norðan, af útskúfun og einmanaleika og hrikalegu leyndarmáli sem hún vill ekki að neinn komist að. Það er hins vegar hægara sagt en gert að halda hlutum leyndum á tímum frétta- og samfélagsmiðla og Kría er því hikandi þegar hún mætir í skólann fyrir sunnan í upphafi sögunnar. Hún er að hefja nám í Menntaskólanum í Reykjavík og þekkir engan, en eftir fyrsta skóladaginn sér hún að krakkarnir í Reykjavík eru öðruvísi en þeir sem hún þekkti á Akureyri. Hún er fljót að eignast nýjar vinkonur og fellur strax inn í hópinn, félagslífið hjá henni tekur kipp og hún kynnist meira að segja sætum strák sem vekur áhuga hennar. En þrátt fyrir að allt virðist vera á uppleið og ganga betur en hún þorði að vona grípur hana af og til óljós ónotatilfinning. Hún er sífellt á varðbergi og er hrædd um að upp komist um leyndarmálið, en það er líka annað sem veldur henni heilabrotum. Hún heyrir dynki í mannlausum herbergjum, sér hreyfingu þar sem ekkert er og hlutir taka upp á því að birtast á óvæntum stöðum. Amma hennar virðist líka af einhverri ástæðu leggja fæð á Eísabetu, nýju vinkonu Kríu úr MR, en neitar að ræða það frekar. Svo birtist líka Davíð, strákur sem er ólíkur öðrum sem Kría hefur áður kynnst og sem enginn virðist vita nein deili á. Málin taka svo óvænta stefnu þegar Kría og Elísabet ramba á upplýsingar um löngu grafið leyndarmál og fara að rannsaka skuggalega atburði í fortíðinni.

Ljónið fjallar á afar raunsæislegan og heiðarlegan hátt um ýmis málefni sem eru ungu fólki hugleikin; um vináttu og ástarsambönd, traust og svik, einelti, drusluskömmun, félagslífið í menntaskóla, námsálagið, foreldra og flókin fjölskyldubönd, svo fátt eitt sé nefnt. Söguna mætti flokka undir Young Adult (YA) fiction, eða ungmennabækur á íslensku, sem er hugtak sem nær utan um bókmenntir sem eru sérstaklega ætlaðar eldri unglingum og ungum fullorðnum. Oft á tíðum höfða barna- og unglingabækur frekar til lesenda sem eru yngri en persónurnar sem fjallað er um en það er ekki tilfellið í ungmennabókum. Þar er markhópurinn á aldri við eða jafnvel aðeins eldri en aðalpersónurnar. Í Ljóninu eru helstu persónur sögunnar nánast allar á menntaskólaaldri og bæði tónn og efnistök gefa til kynna innbyggðan lesanda sem er jafnaldri þeirra eða þar um bil.

Persónusköpun í sögunni er almennt mjög góð. Hik Kríu í samskiptum við nýju bekkjarfélagana og vinkonurnar, ásamt kvíðanum yfir að verða svikin er sannfærandi og einlægt, að sama skapi upplifun hennar af ástarmálum og tilraunir til að skilja fólkið í kringum sig. Hún glímir við afleiðingar af því sem gerðist fyrir norðan og skólagöngu sem hefur fram að þessu ekki verið sérlega skemmtileg. Lesandinn fær takmarkaðar upplýsingar um hvert leyndarmál hennar er, því hún neitar alfarið að hugsa um það eða ræða við nokkurn mann. Þetta vekur bæði forvitni og áhuga fyrir sögunni en reglulega eru gefnar misáberandi vísbendingar til að viðhalda spennunni, sem tekst mjög vel.

Aðrir þræðir sögunnar virka á sama hátt, meðal annars þegar vinkonurnar fara að grennslast fyrir um leyndarmálið sem þær rekast á. Lesandinn fær aðeins litlar upplýsingar í einu og veit ekki hvað hann á að halda, frekar en Kría og Elísabet sjálfar.

Aðrar persónur fá eðlilega minna rými, en Elísabet er kannski sú sem lesandinn kynnist best fyrir utan Kríu. Þær vinkonurnar eru andstæður á flestum sviðum og Kría speglar sig í Elísabetu, sem virðist veraldarvanari og öruggari með sig. Hennar sýn á lífið vekur Kríu reglulega til umhugsunar og gefur henni annað sjónarhorn á ýmsa hluti. Persónur sögunnar eru annars nokkrar, vinkonur úr skólanum og fjölskylda Kríu eru meðal þeirra en eina persónan sem er svolítið einhliða og nær ekki alveg sömu dýpt og aðrar er amma Kríu, sem gegnir stóru hlutverki í sögunni og í lífi fjölskyldunnar eftir flutninginn suður.

Eins og kom glögglega í ljós í bókunum Vetrarfrí og Vetrarhörkur, hefur Hildur einstakt lag á að skapa skuggalegt og jafnvel óþægilegt andrúmsloft í hversdagslegum aðstæðum þar sem staðir og aðstæður sem lesandinn þekkir eða kannast við eru settir fram í annarlegu ljósi. Þetta er einnig tilfellið með Ljónið þótt hér sé ógnin öllu óljósari. Lesandann grunar að eitthvað sé ekki eins og það á að vera en erfitt er að átta sig fyllilega á því hvað það er, ítrekaðar en margræðar vísbendingar í gegnum söguna halda honum í óvissu. Sviðsmynd sögunnar sem er borgin og borgarumhverfið er notað bæði til að skapa þetta andrúmsloft og inn á milli líka til að létta stemminguna, með sýn aðkomustelpunnar Kríu á höfuðborgarsvæðið. Hún þekkir ekkert til og tekst ágætlega að fanga smáatriði og ýmsa þætti lífsins í borginni sem íbúar hennar eru sennilega hættir að taka eftir, en sem vekja athygli og furðu Kríu.

Eftir fyrri bækur Hildar eru væntingarnar miklar þegar ný bók eftir hana kemur út. Ljónið stendur fyllilega undir þeim væntingum og er ákaflega vel skrifuð og útpæld. Söguþráðurinn er áhugaverður og spennan sem stigmagnast eftir því sem sögunni vindur fram gerir lesandanum erfitt fyrir að leggja bókina frá sér. Á síðustu blaðsíðunum dregur reyndar aðeins niður í sögunni, ætla má að það sé lognið á undan storminum í næstu bók en það er ekki alveg ljóst hvert framhaldið stefnir. Það er engu að síður tilhlökkunarefni að framundan séu tvær bækur í viðbót og verður spennandi að sjá hvað gerist næst. 

 

María Bjarkadóttir, 2018