Beint í efni

Ljósberi

Ljósberi
Höfundur
Ólafur Gunnar Guðlaugsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir

Ljósberi eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson hlaut íslensku barnabókaverðlaunin árið 2021 og er fyrsta bókin í Síðasti seiðskrattinn þríleiknum. Bókin er unglinga fantasía og fyrsta skáldsaga höfundar fyrir eldri lesendur, en hann hefur áður sent frá sér barnabækur og leikrit um Benedikt búálf. Það má með sanni segja að Ljósberi sé langt frá litríkum síðum barnabókanna en þessi saga fæddist að sögn höfundar út frá martröð sem hann dreymdi. Í upphafi sögunnar fær Bjarni, ein af aðalsöguhetjunum, sambærilega martröð. Höfundurinn nýtir einnig fleira úr eigin reynslu í efni sögunnar svo sem eigin upplifun af skyggnihæfileikum í fjölskyldu sinni sem hann segir frá í aðfararorðum bókarinnar. Þar gefur höfundur tóninn fyrir fantasíuna sem koma skal en í Ljósbera segir frá fjórum unglingum í vesturbænum sem öll eru skyggn.

Sagan hefst eins og áður sagði á martröð eins þeirra, Bjarna. Hann hefur ítrekað dreymt þessa sömu martröð og ekkert hefur virkað til þess að losna við hana. Bjarna er hætt að standa á sama og er farinn að trúa því að hann sé í raunverulegri hættu, þangað til að hann kynnist frænda sínum, Hannesi. Hannes þessi kennir honum varnarorð, nöfn þriggja engla, sem hann segir að eigi að hrekja hið illa á brott. Hannes er einnig fyrstur til að leggja trúnað á að það sé raunveruleg hætta sem steðjar að Bjarna í martröðinni en ekki bara ímyndun. Varnaðarorðin virka og Bjarni losnar við árann sem var að valda martröðunum. Í kjölfarið segir Hannes Bjarna að hann sé skyggn og að hann hafi sérstaka hæfileika sem hafi gert honum kleift að sjá þennan ára. Í kjölfarið fer svo Hannes að kynna Bjarna fyrir heiminum handan efnisheimsins.

Bjarni fær þó ekki langan tíma til þess að átta sig á þessum nýja veruleika sem hann allt í einu er orðinn hluti af því að stuttu seinna fellur Hannes frá með dularfullum hætti. Í jarðaför Hannesar sér Bjarni þrjá krakka sem hann kannast við úr skólanum, þau Hildi, Theodóru og Baldur, og fer að gruna að þau séu líka skyggn. Þegar skólinn byrjar á ný eftir sumarleyfið kemur í ljós að þau verða öll saman í tíunda bekk í Hagaskóla. Bjarni kemst að því að krakkarnir úr jarðaförinni eru svo sannarlega líka skyggn og voru öll í læri hjá Hannesi líkt og hann sjálfur. Öll búa þau yfir sérstökum hæfileikum og hvert og eitt þeirra á sér sína uppruna sögu um hvernig þau uppgötvuðu krafta sína og komust að því að skyggnigáfa þýðir meira en bara að sjá drauga. Eftir tvo fyrstu kaflana þar sem Bjarni er sögumaður fer sjónarhornið að flakka á milli þeirra fjögurra svo að lesandinn fær að kynnast þeim öllum betur.

Sagan hefst á frásögn Bjarna sem líkt og lesandinn er fyrst að kynnast hinu yfirnáttúrulega í heimi sögunnar. Næst fær Hildur orðið en eins og Bjarni hefur lýst henni hingað til er hún sæta, ríka stelpan. Það kemur hins vegar í ljós að undir lygnu yfirborðinu leynast erfiðleikar og magnaðir hæfileikar en Hildur býr yfir sterkum fjarhrifum (e. telekinesis) sem hún hefur ekki enn náð fullri stjórn á. Theodóra, eða Tóta eins og hún vill láta kalla sig, er næst á svið en hún er búin að vera í læri hjá Hannesi frá því að hún var barn. Hún er kjaftfor og kaldhæðin og kýs að klæðast svörtu. Öfugt við Baldur sem er hálfgerður uppeldisbróðir hennar í gegnum Hannes, en Baldur er albínói og klæðist oft hvítu. Þegar Hildur hittir þau tvö fyrst lýsir hún þeim sem svo:

Þau voru svo furðuleg! Baldur með sitt síða, mjallahvíta hár, næpuhvítu húð og helrauð augun … en það var samt ákveðin fágun í hvernig hann bar sig … eins og prins, kurteis, alvörugefinn en um leið umhyggjusamur.
   Theódóra var fullkomin andstæða … ekki fáguð. Kolbikasvart hár með rauðri slikju upp eftir miðju, stífmáluð með svartan augnskugga og svartar varir, svartur leðurjakki, rifnar gallabuxur og þykk hermannastígvél. Enginn og ekkert skipti hana máli … hún lýsti af hroka og dónaskap eins og grænt neonskilti. (64)

Frá Tótu færist sjónarhornið til Baldurs en Hannes fann Baldur þegar hann var barn og kom honum í fóstur. Baldur hefur því þekkt Hannes alla sína ævi og hann og Tóta eru bæði orðin nokkuð fær í að beita skyggnihæfileikum sínum þegar sagan hefst. Þrátt fyrir að vera ekki viss um hvert annað ákveða krakkarnir fjórir að þau þurfi að taka höndum saman til að rannsaka dauða Hannesar. Þau komast þó brátt að því að við þeim blasir mun stærri ráðgáta og ævintýrið er rétt að byrja.

Skemmtilegasti parturinn við lestur á fantasíum er oftar en ekki sá að kynnast nýjum heimi sem skapaður er utan um söguna, komast að því hvaða lögmálum hann lítur, hvaða furðuverur búa í honum og hvernig galdrarnir þar virka. Í Ljósbera er af nógu að taka í þeim efnum. Vesturbærinn eins og hann birtist í bókinni er margslunginn fantasíuheimur þar sem öllu ægir saman og yfirnáttúruleg fyrirbæri úr öllum áttum koma fyrir: Englar og djöflar úr kristinni goðafræði, guðir fortíðarinnar sem eru kallaðir ofurvættir og svipar til óvætta úr hryllingssögum H.P. Lovecraft, draugar og mörur sem eru kunnugleg þjóðsagnakvikindi og persónur eins og Jón lærði Guðmundsson úr Íslandssögunni birtast þar líka. Í heiminum eru álagablettir, jarðorkulínur og þunnir staðir þar sem verur úr öðrum víddum komast milli heima. Hæfileikum krakkanna er svo gjarnan lýst með orðaforða dulspeki, þau eru skyggn, geta opnað þriðja augað og farið á sálnaflakk.

Það eru einnig margskonar galdraiðkendur í heiminum eins og kemur fram í frásögn Hannesar af blóðugri fortíð KR vallarins: „Hér voru tuttugu og þrír seiðskrattar, fimm rúnameistarar og sex seiðkerlingar tekin af lífi á hræðilegan hátt. Hin neikvæða orka sem losnaði úr læðingi á þeim degi gerði þennan stað að sérstaklega slæmum álagabletti, einum af mörgum á landinu“ (26). Ekki er útskýrt nánar hvernig galdrahæfileikum þetta fólk bjó yfir, hvort þeir voru af sama meiði og galdrahæfileikar söguhetjanna fjögurra. Þegar krakkarnir galdra nota þau hvorki rúnir né seið heldur eru það ást og kærleikur sem virðast knýja skyggnihæfileika þeirra. Á öðrum stað í bókinni vitnar svo Hannes í Arthur C. Clarke þegar hann segir frá göldrum: „Og verið ekki hrædd við hugtakið galdra. Galdrar eru bara óútskýrð raunvísindi“ (184).

Kjarni sögunnar í Ljósbera, þroskasaga skyggnu krakkanna í vesturbænum, er vel útfærð og sannfærandi og í þeim hlutum bókarinnar er innra samræmi í fantasíuheiminum. Hins vegar er tæpt á of mörgum hugmyndum sem eiga að auðga sögusviðið en hafa ekki nægileg áhrif á meginsöguna til þess að allt smelli saman í heilsteypta mynd. Það kann þó að skýrast af því að bókin er ekki mjög löng og því ekki mikið pláss til að vinna úr öllum þessum hugmyndum. Í eftirmála Ljósbera er sögusviðið víkkað út og opnar þannig á að ólíkir þræðir úr fyrstu bókinni verði fléttaðir betur saman í þeim sem á eftir koma. Sögusvið fantasíuheimsins gæti því átt eftir að mótast betur eftir því sem á líður þríleikinn og það verður spennandi að sjá hvernig fer fyrir hinum fjóru fræknu í næstu bók sem fengið hefur nafnið Ofurvættir.
 

Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, desember 2021