„Ekki herma eftir mér!“ (8) orgar hinn rúmenski Mihail á skólafélaga sína í fyrsta kafla skáldsögunnar Málleysingjarnir, fyrstu bók Pedros Gunnlaugs Garcia. Ákall Mihail setur tóninn fyrir bókina, sem eins og titillinn gefur til kynna skoðar þær takmarkanir sem samskipti manna (og dýra) lúta. Þótt persónurnar reyni að skilja hvor aðra enda þær oftar en ekki á að spegla sig í augum viðmælanda sinna frekar en að meðtaka þá sem lifandi verur. Ljóst er að meira þarf til en sameiginlegt tungumál til öðlast skilning og samkennd, og að þegar tungumáli er beitt á ójöfnum grundvelli getur það auðveldlega umbreyst í tæki valdníðslu og ofbeldis.
Undarlegra og undarlegra
Heimur Mihails litla, aðalsöguhetju fyrsta hluta bókarinnar, ætti að vera flestum lesendum þessarar íslensku skáldsögu algjörlega framandi: Rúmenska borgin Búkarest eftir fall Ceaușescu hjónanna, sem stýrðu landinu af mikilli harðneskju áratugum saman. Aftaka þeirra er sýnd í ríkissjónvarpinu og í blokkaríbúðinni þar sem Mihail býr ásamt móður sinni virðir hann fyrir sér blóðug lík forsetahjónanna með ókunnugan mann sér við hlið. Octav, faðir hans, er snúinn heim úr pólitískri fangelsisvist. Í eitt andartak mynda þau fjölskyldu, Simona, móðir drengsins, Mihail og Octav, en eftir áralanga vist í einangrunarklefa á Octav erfitt með að finna sig svo fyrirvaralaust í hlutverki fjölskylduföður. Hann flýr úr sögu Mihail og Simonu með því að hreinlega hverfa ofan í holu í jörðinni. Þar er líkt og hann stígi inn í annan heim, út úr þeim kalda og raunsæja frásagnarstíl sem bókin hefur beitt hingað til og inn í súrrealíska veröld sem er ekki ósvipuð þeirri sem bíður Lísu í Undralandi eftir að hún eltir hvíta kanínu með vasaúr ofan í aðra holu. Þó er það ekki kanína sem leiðir Octav inn í þessa nýju veröld heldur afskræmdur páfagaukur sem virðist fær um að tjá sig langt umfram aðrar hermikrákur. Fuglinn leiðir Octav á vit afmyndaða vísindamannsins Kropotkins, sem á sér þann æðsta draum að efla samkennd mannsins með því að gera fólki kleift að sjá beint inn í huga manna og dýra, og kærir sig lítt um þær fórnir sem þarf að færa til að gera þá sýn að veruleika. Á meðan leiðir röð hörmulega atburða til þess að Mihail hverfur sjálfur ofan í sína eigin holu í leit að betra lífi—eða að minnsta kosti í leit að nýrri frásögn.
Götur Búkarest
Tónninn í þessum hluta bókarinnar er varfærinn og raunsær til að byrja með og leggur þannig öruggan grunn sem vinnur sér traust lesandans, svo að hann leggur viljugur og grunlaus í þá furðuferð sem fyrir höndum er. Það hjálpar að höfundur hefur valið sér svo framandi sögusvið, og því er lesandinn tilneyddur til að treysta alfarið á leiðsögn höfundar um stræti Búkarest. Pedro Gunnlaugur heldur þétt á spilunum og styttir sér ekki leið með einföldum úrlausnum eða klisjum. Þetta sést m.a. á sterkri persónusköpun. Meira að segja þegar Mihail slæst í hóp málningarsniffandi götukrakka sem hafast við í holræsum borgarinnar er þess gætt að gæða þau hvert og eitt lífi og mannleika, og ekki er fallið í þá gryfju að beita steríótýpum eða nýta mannlega eymd þeirra sem leiksopp. Það styrkir heimsmynd sögunnar enn fremur að höfundur ofreynir sig ekki við að draga fram hvert einasta blæbrigði borgarmyndarinnar. Þrátt fyrir skarpar lýsingar á lífi og aðbúnaði í landinu heldur textinn sig við skýrar línur og takmörkuð sjónarhorn, svo að lesandi sér sjálfur um að fylla upp í myndina. Þessi aðferð virkar vel og ljáir borginni sterka tilvist á síðum bókarinnar. Þannig beitir höfundur stílhreinum efnistökum til að plata lesendur með sér í ferð sem hefst á taktaföstu en stígandi brokki en endar síðan í algjörri þeysireið.
Íslensk vísitölufjölskylda
Í öðrum hluta fær lesandinn styrkari fótfestu í veruleika bókarinnar. Sögusviðið er íslenskur hversdagsleiki, rétt eftir síðustu aldamót. Þar hefst önnur fjölskyldusaga sem í fyrstu virðist hafa lítil tengsl við sögu feðganna Mihail og Octavs. Þó eru þar eftir sem áður samankomnar persónur sem eiga í miklum samskiptaörðugleikum. Unglingsstúlkan Bergþóra, sem mætti kalla aðalsöguhetju þessa hluta bókarinnar líkt og Mihail var í fyrsta hluta, er farin að finna fyrir því að hún er að fjarlægjast Finn, stóra bróður sinn. Þau hafa alltaf verið einstaklega samrýmd en eftir að unglingsárin ganga í garð falla öll samskipti þeirra niður og Bergþóra tekur að lokast af sökum félagsfælni sinnar. Á meðan er faðir þeirra systkina, strætóbílstjórinn Hannes, kvalinn og píndur af eigin líkama; með stanslausa verki og viðvarandi eyrnasuð sem lokar hann af frá öðrum fjölskyldumeðlimum. Börnin virðast eiga margt sameiginlegt með föður sínum, og því kannski ekki að undra að Salvör, móðir þeirra, sé farinn að svipast um eftir útgönguleiðum úr fjölskyldunni—þótt henni takist ekki að finna jafn gjöfula söguholu og Octav til að stinga sér ofan í.
Líkamlegt óþol gagnvart veröldinni
Þótt þau séu ólík að innra eðli er margt sameiginlegt með líkömum Hannesar, Bergþóru og Finns. Krakkarnir hafa báðir erft hæð Hannesar: „tveir langir og luralegir líkamar sem sveifluðust áfram í baráttu við þyngdaraflið og vaxtarkippi hormónaskeiðsins“ (188). Með þeirri gjöf fylgir sama líkamlega óþol fyrir umhverfinu og hrjáir Hannes, sem leiðir hann að lokum út í að lifa öllu sínu tilfinningalífi á kommentakerfum: „Hannes var nashyrningur, stór grá einþykk skepna og forneskjuleg, sem neri horni sínu biturlega utan í lyklaborð næturlangt og jós úr skálum reiði sinnar [...] Hannes var virkur í athugasemdum, virkur eins og eldfjall“ (264). Óþolið lýsir sér þó á annan máta hjá börnum hans. Bergþóra virðist komast nokkuð klakklaust frá því. Hún þróar reyndar með sér sjálfsofnæmi sem veldur algjöru hárlosi en eftir að hún tekur að bera óþol sitt utan á sér á svo sjónrænan máta virðist hún læknast af félagsfælninni. Óþol Finns fer hinsvegar eftir öðrum og faldari leiðum. Hann reynir að deyfa sig eftir megni og er á stanslausan flótta frá eigin líkama og tilfinningum. Fyrir framan tölvuna er hann líkt og „lagstur í dvala, lirfa sem myndaði klístraða púpu utan um sig“ (188), en í framhaldi af taumlausri klámfíkn hverfur hann smám saman inn í myrkustu og siðlausustu svarthol internetsins. Fiðrildið sem springur út þegar Finnur rífur sig loksins lausan úr þessari púpu er síðan allt annað en fallegt.
Ísland vorra tíma, allt á skjön
Í þriðja og síðasta hluta bókarinnar tvinnast sögur þessara tveggja fjölskyldna saman. Vettvangurinn er Ísland samtímans, en veruleikinn er allur á skjön, svo að upplifun lesandans er frekar að hér sé um hliðarveruleikasögu að ræða. Höfundur notar óspart húmor og háð til að undirstrika fáránleika þeirrar umræðu sem á sér stað í dimmustu afkimum þjóðarsálar okkar um þessar mundir en engu að síður er orðræðan sem þar sprettur fram oft og tíðum ísmeygilega kunnugleg. Rofið við íslenskan veruleika eins og við þekkjum hann felst öðru fremur í því að í bókinni hefur íslenska heilbrigðiskerfið verið sett í einkarekstur. Þessi þróun í heilbrigðisgeiranum hefur leitt af sér ýmis vafasöm tækifæri fyrir íslenska iðnjöfra og hrint af stað nýjum túristaiðnaði, þar sem fólk flykkist til Ísland til að fá útrás fyrir blætum sínum og órum. Þannig verður lesanda á þessum tímapunkti ljóst að höfundur hefur narrað hann svo djúpt inn í afskræmdan veruleika bókarinnar að ekki verður aftur snúið. Allt er gefið í botn og textinn leyfir sér ýmis sjálfumglöð stílbrigði og efnistök sem líklega hefðu snúið djarfminni lesendum frá ef bólað hefði á þeim fyrr í sögunni. Nú renna hinsvegar öll vötn til Dýrafjarðar og lesandinn á ekki um annað að velja en að gefa sig textanum á vald.
Samskiptatækni og önnur böl
Í Málleysingjunum er loforðið um sameiningarmátt tungumálsins brotið aftur og aftur. Stutt er á milli góðra fyrirætlana og hörmulegra afleiðinga. Í staðinn fyrir að upplifa samkennd með öðrum í gegnum tungumálið hverfa persónurnar sífellt lengra inn á við, þar til aðrar lífverur virðast vart búa yfir samskonar tilvist og tilfinningum og þau. Þrátt fyrir þá alúð sem höfundur sýnir persónum sínum er veröldin sem dregin er upp í bókinni því heldur kaldrifjaður staður, fullur af afvegaleiddu fólki sem veldur hvort öðru og sjálfum sér ómældum skaða. Tæknin gegnir veigamiklu hlutverki í þessu samhengi. Í bókinni hefur framþróun hennar leitt til þess að dýrum er veittur aðgangur að tungumáli manna, en fljótt kemur í ljós að mennirnir hafi lítinn áhuga á að heyra hvað þau hafa að segja. Sjónum er einnig beint að dæmum sem eru nærtækari okkar eigin veruleika; hvernig sameiningarmáttur internetsins er misnotaður af nettröllum sem rotta sig saman og beita þessu stærsta samskiptatæki sögunnar til að níðast á minnihlutahópum og skapa glundroða í heiminum utan tölvuskjásins—heimi sem er þeim vart raunveruleg lengur.
Í sinni fyrstu skáldsögu skapar Pedro Gunnlaugur Garcia sterkar persónur og skarpa heimsmynd til að draga lesandann inn í veröld sem er í fyrstu kunnugleg en reynist síðan afskræmd spegilmynd af okkar eigin heimi. Það er sérstakt að Málleysingjarnir, bók sem á yfirborðinu virðist sýna fram á ómöguleika þess að upplifa samkennd með náunganum, nýtist við jafn skýra og rausnarlega persónusköpun og fyrirfinnst í verkinu. Eins og áður var nefnt þá má segja að Bergþóra og Mihail séu aðalsöguhetjur bókarinnar—eða a.m.k. mismunandi hluta hennar. Litlu má þó muna þar sem höfundur beitir fyrir sig alsjáandi þriðju persónurödd sem gefur jafnt úr spilastokknum til nær allra persónanna. Með þessu móti gefst honum færi til að staldra við og leyfa lesendum að dveljast um stund á bak við vitund hvers og eins þeirra. Sama hve ógeðfelld eða torkennileg sú vitund er í sumum tilfellum þá getur lesandinn nefnilega ekki annað en gengist við því að hér sé eftir sem áður um manneskjur að ræða.
Björn Halldórsson, nóvember 2019