Beint í efni

Mannhafið innra með okkur

Mannhafið innra með okkur
Höfundur
Aðalheiður Halldórsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Þorvaldur S. Helgason

Taugatrjágróður er fyrsta bók dansarans Aðalheiðar Halldórsdóttur sem hefur undanfarna áratugi aðallega fengist við sviðslistir. Taugatrjágróður er ein samfelld frásögn, eins konar ljóðsaga ónefndrar konu sem situr á bekk við fjölfarna götu og fylgist með lífinu fara hjá, bæði hinu ytra lífi náttúrunnar og mannlífsins, sem og hinu innra lífi; hennar eigin tilfinningum og minningum sem streyma upp úr djúpi vitundarinnar.

og stundum þegar hún situr á bekk
eða á steyptum vegg við fjölfarna götu
og fylgist með fólkinu
finnst henni betra
að slökkva á einu skynfæranna

Ýmsar aðrar persónur birtast í bókinni en þær eru einnig ónefndar líkt og sögukonan. Fyrstur er það maður sem fær sér sæti við hlið konunnar, sá er aðeins nefndur „hann“ og myndar þannig mótvægi við sögukonuna sem er aðeins nefnd „hún“. Maðurinn og konan ræða saman um heima og geima og ljóst er að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þau hittast. Frásagnarstíll Taugatrjágróðurs minnir þannig stundum á leikrit þar sem tvær raddir eiga í samtali. Bókin minnir þó einnig á annað sviðslistaform sem sennilega stendur höfundi nær, dansinn, en margt í uppbyggingu frásagnarinnar svipar til kóreógrafíu dansverks, frásögnin er mjög abstrakt og sömu spor birtast aftur og aftur, auk þess sem nokkrum sinnum er minnst á dans í textanum.

hún: ég held ég vilji dansa
hann: dansa?
hún: dansa frá
hann: það má


Ólínuleg og óhlutbundin frásögn

Þótt Taugatrjágróður segi eina samfellda frásögn er ekki þar með sagt að hún sé línuleg. Ljóðsagan er ívið óhlutbundin (abstrakt) og mætti einna helst líkja henni við vitundarstreymi (e. stream of consciousness) framúrstefnubókmennta. Textum bókarinnar er ekki skipt niður í stök ljóð og engin kaflaskipti er að finna á 77 síðum bókarinnar. Ef til vill gæti einhverjum lesendum þótt ritunarstíll höfundar krefjandi eða óaðgengilegur en hér skiptir þó mestu máli að nálgast verkið eins og maður myndi nálgast samtímadansverk eða óhlutbundið málverk, með innsæinu fremur en rökhugsuninni.

Skynjun er lykilhugtak er viðkemur Taugatrjágróðri en sem lesandi fær maður sterka tilfinningu fyrir tengslum hinnar ónefndu sögukonu við umhverfi sitt; verund hennar í heiminum ef fá má að láni hugtak úr heimspekinni. Konan er mjög leitandi, hún leitar að Guði, að tengingu og að sjálfri sér. Maðurinn segir henni sögu af konu sem ilmaði svo vel að hún gerði menn ringlaða og líkir henni við fljótandi handápu „sem streðar í sífellu / við að halda formi sínu“. Sápukonan þráir ekkert heitar „en afmörkuð skil / á milli sín og heimsins“ en þessi lýsing gæti allt eins átt við um sögukonuna því raunar virðist sem helsta vandamál konunnar sé of mikil tenging á milli hennar og umhverfisins. Hún ber taugakerfið utan á sér og skilin á milli hennar hennar og heimsins í kringum hana eru óskýr, eitt blæðir inn í annað. Þetta ofurnæmi gæti verið vísun í ýmislegt ástand á borð við kulnun eða athyglisbrest en ekki verður tekin afstaða til þess hér.

Dauðinn er sterk þema í Taugatrjágróðri og í einu samtali sögukonunnar og mannsins kemur fram að hann er að bíða eftir ísbílnum, sem verður að skemmtilegri og óvæntri táknmynd fyrir dauðann. Þannig verður bjölluhljómurinn sem tilkynnir komu ísbílsins að eins konar hliðstæðu við bjölluhljóminn í jarðarförum sem tilkynnir útskrift fólks úr lífinu.

Hann: ætli ég doki ekki eftir honum?
Hún: ísbílnum þá?
Hann: já það hefur ekkert upp á sig að bíða eftir dauðanum


Fjölmennt persónugallerí

Um miðbik bókar stígur önnur persóna fram og á í samtali við sögukonuna, í þetta sinn harmfögur kona sem virðist vera tré. Konurnar ræða saman um lífið og tilveruna og eins og í tilviki mannsins er samtalið táknrænt og snertir á þemum á borð við ástina, einveruna og sorgina. Samtöl Aðalheiðar eru óvænt og skemmtileg og eflaust væri hægt að gera áhugaverðan leiklestur upp úr Taugatrjágróðri. Hins vegar líður þetta mikla persónugallerí fyrir það að enginn þessara karaktera hefur nafn og þeir eru aðeins nefndir með persónufornöfnum eða nafnorðum á borð við „hann“, „hún, „maðurinn“ og „konan“. Eftir að sögukonan kveður konuna sem er tré birtist til dæmis strax önnur kona, í þetta sinn „iðandi eldri kona / í flæðandi kápu“ og því hætt við að lesendur verði svolítið ringlaðir á öllum þessum konum sem eru aðeins aðgreindar frá hvor annarri með stuttum persónulýsingum. Þar að auki byrja allar persónurnar samtölin á því að segja sögukonunni frá öðrum aðilum sem þær þekkja svo erfitt er að henda reiður á öllum þessum karakterum sem fá hvorki nafn né viðurnefni.

Sögurnar eru þó sannarlega áhugaverðar og í samtölum sögukonunnar við persónurnar sem hún rekst á má víða finna sterkar ljóðmyndir og áhrifaríkar sögur á borð við þá sem iðandi konan segir henni af kunningjakonu sinni sem reyndi að hemja taugakerfi sitt með því að festa þvingur við ýmsa líkamsparta.

greip þvingur
og þröngvaði tveimur
um brjóstholið
hægra og vinstra megin
þeirri þriðju við bringspalir
og fjórðu um barkann
til að hemja röddina

Undir lok bókar verður þó ljóst að þessi fjölradda kór ýmissa persóna hefur einnig yfirþyrmandi áhrif á sögukonuna sem „svolgrar í sig“ sögur þeirra og á erfitt með að setja mörk á milli sín og annarra. Hugsanlega er það því með vilja gert að hafa persónugallerí bókarinnar svo víðtækt, til að endurspegla innra líf sögukonunnar.

svo örlög þeirra
verða hennar
vandræðagangur þeirra
ýkir hennar
þanið egó þeirra
kæfir hennar


Margar spurningar en fá svör

Það mætti segja að Taugatrjágróður sýni fram á hættur þess að vera ofurnæmur á annað fólk og hleypa of mörgum inn í taugakerfi sitt. Enginn er eyland og manneskjan lifir lífi sínu alltaf í samspili við annað fólk en ef við erum of áhrifagjörn og látum stjórnast af lífi og tilfinningum annarra er hætta á því að við glötum sjálfum okkur í leiðinni. Undir lok bókarinnar streyma minningarnar fram í vitund sögukonunnar og hún minnist allra þeirra fjölmörgu persóna sem hún hefur rekist á og hafa haft áhrif á hana „brosandi / yfir fjölskrúðugu mannhafinu / innra með henni“. Konan geymir allt þetta ólgandi mannhaf inni í sér, konan er hún sjálf en hún er einnig allir aðrir. Í blálok bókar snýr „hann“ svo aftur, sest hjá sögukonunni og furðar sig á því að hún sé þarna enn. Konan spyr manninn hvort hann sé einn „eða eru fleiri í þér? / er guð í þér?“ sem hann neitar.

Margar spurningar leita á lesanda þarna undir lok bókarinnar. Hver er þessi maður og hver eru tengsl hans við konuna? Er hann Guð? Er konan að deyja og þess vegna að rifja upp líf sitt? Er konan persónugerving höfundarins eða eintómur skáldskapur? Taugatrjágróður er ekki bók sem býður upp á skýr svör en hún er bók sem spyr margra spurninga. Gaman er að týna sér um stundarsakir í textanum og njóta fegurðarinnar í ómstríðunni sem minnir á lífið sjálf. Bók Aðalheiðar Halldórsdóttur er bæði óvenjuleg og óvænt og vonandi fáum við að sjá meira frá henni á ritvellinum síðar meir.


Þorvaldur S. Helgason, desember 2023