Beint í efni

Marrið í stiganum

Marrið í stiganum
Höfundur
Eva Björg Ægisdóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Halldórsson

Íslensk bókmenntaverðlaun eru fá og það eru margir sem bítast um þau. Sérstaklega hefur vantað fleiri verðlaun til að styðja nýja höfunda og koma á framfæri þeirra fyrstu bókum. Það voru því mikil gleðitíðindi síðasta haust þegar höfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson tilkynntu að þau ætluðu að leggja til eigið fé til að koma á fót nýjum íslenskum bókmenntaverðlaunum sem nefnast Svartfuglinn og eru ætluð fyrir óútgefin glæpasöguhandrit. Með verðlaunum vonuðust þau til þess að hleypa nýju blóði í formið og hvetja aðra til að fylgja fordæmi þeirra og láta drauma sína um glæpasöguskrif rætast. Því var ekki laust við tilhlökkun þegar fyrsti vinningshafi Svartfuglsins var tilkynntur núna í vor. Reyndist það vera Eva Björg Ægisdóttir með glæpasöguna Marrið í stiganum sem er hennar fyrsta bók.

Aðalsöguhetja bókarinnar er Elma sem er nýflutt aftur til æskustöðvanna á Akranesi eftir að hafa sagt skilið við líf sitt í Reykjavík. Þar bjó hún með kærasta sínum til margra ára og vann hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík. Hún getur því nokkurn veginn gengið inn í starf á lögreglustöð Akraness—þar sem hún býst ekki við miklum hasar. Það hentar henni ágætlega þar sem hún er í hléi frá lífinu; er á flótta frá tilfinningalegu áfalli sem gerði út um sambúðina í Reykjavík og býr í tómlegri íbúð skammt frá foreldrum sínum. Fyrstu kaflarnir snúa mestmegnis að aðlögun Elmu að nýjum aðstæðum. Auk fjölskyldu hennar eru kynntar til leiks aðrar lykilpersónur bókarinnar; samstarfsfólk Elmu í lögreglunni, ýmsir fortíðardraugar og svo fyrirfólkið í plássinu. Höfundur eyðir full mörgum blaðsíðum í þessa forgrunnsvinnu en það fyrirgefst fljótt þegar sagan byrjar fyrir alvöru, eftir líkfund í fjörunni fyrir neðan Akranesvita.

Líkið er af ungri konu sem hét Elísabet og bjó á Akranesi sem barn. Á meðan Hörður, yfirmaður Elmu, sem helst af öllu vill að allt falli aftur í ljúfa löð í bænum, reynir hvað hann getur til að beina athygli hennar að utanaðkomandi aðilum fer Elmu að gruna að heimamaður hljóti að hafa verið að verki. Ekki síst er grunsamlegt að Elísabet skuli finnast látin í fjörunni fyrir neðan bæinn því samkvæmt aðstandendum hennar stóð henni stuggur af Akranesi og forðaðist að stíga fæti inn fyrir bæjarmörkin. Ráðgátan fer því æ meira að snúast um Elísabetu sjálfa og æsku hennar í bænum. Þegar Elma og Sævar, samstarfsmaður hennar, kafa dýpra ofan í fortíð Elísabetar kemur í ljós flókinn og dulur persónuleiki sem enginn virðist hafa þekkt til hlítar. Inn á milli kafla þar sem lesandinn fylgist með rannsókn Elmu og Sævars eru stutt innskot úr fortíðinni sem hafa að geyma frásögn ungrar stúlku sem býr á Akranesi ásamt móður sinni á tíunda áratugnum. Það líður ekki á löngu þar til lesandann tekur að gruna að hér sé á ferðinni Elísabet sjálf—þótt ekki sé það staðfest.

Þessi frásagnartækni hefur verið algeng í íslenskum morðgátum undanfarin ár: Stuttir, skáletraðir textar sem birtast í formála og/eða á milli kafla og eru frá sjónarhorni þess myrta eða (í einstaka tilvikum) þess seka. Bæði Ragnar og Yrsa hafa sjálf beitt þessum frásagnarstíl til að skapa spennuþrungið andrúmsloft og til að byggja smátt og smátt upp baksögu glæpsins. Slík innskot þjóna einnig þeim tilgangi að kynna fórnarlambið—sem skiljanlega tekur yfirleitt ekki þátt í að rannsaka eigið morð—fyrir lesandanum og þannig byggja upp samkennd sem gefur leitinni að morðingjanum aukið vægi. Þannig virkar Marrið í stiganum til að byrja með eins og týpískur en vel stílfærður krimmi. Þegar líður á bókina kemur hinsvegar í ljós öflug flétta sem leikur á væntingar lesandans. Er það gert með því að setja fram persónur og aðstæður sem í fyrstu virka kunnuglegar fyrir lesendur glæpasagna en snúa þeim síðan á haus eða kafa dýpra þar til nýir vinklar koma í ljós.

Þótt Marrið í stiganum sé frækileg frumraun er hún ekki alveg gallalaus. Fyrir utan að vera eilítið hæg í gang þá er sjónarhorn bókarinnar helst til víðsýnt. Þótt lesandinn eyði megninu af lestrinum í fótsporum lögreglukonunnar Elmu eru ýmsir útúrdúrar þar sem atburðir eru séðir frá sjónarhorni annarra íbúa þorpsins. Sumir þessir bæjarbúar gegna lykilhlutverki í fléttunni en aðrir eru hlutlausir, og hægir sjónarhorn þeirra á framvindu bókarinnar. Verra er að með þessari dreifðu frásagnartækni—sem virðist ekki fylgja neinum sérstökum reglum—lætur höfundur sér renna úr greipum nokkur gullin tækifæri. Sem dæmi má nefna að lesandinn kynnist Eiríki, eiginmanni Elísabetar, í gegnum hans eigið sjónarhorn áður en Elma og Sævar færa honum fréttirnar um að Elísabet sé látin. Eftir fundinn velta þau á milli sín mögulegri sekt hans og leggjast í einhverja rannsóknarvinnu í því samhengi, en slíkt þvælist bara fyrir þar sem lesandinn getur sjálfur staðfest fjarvistarsönnun Eiríks. (Svo lengi sem höfundur er ekki að fara í skollaleiki á borð við „tvöfaldan persónuleika“ eða að apa eftir alræmda svikamillu Agötu Christy í The Murder of Roger Ackroyd.) Þessir stuttu innskotskaflar draga athyglina frá megin söguþræði bókarinnar. Með því að halda fastar um sjónarhornið og einskorða það við lögreglurannsóknina sjálfa hefði verið hægt að auka spennuna til muna og koma fyrir ýmiskonar grunsemdum um helstu leikendur.

Persónusköpunin er einn helsti styrkur höfundar, en persónurnar sýna flestar á sér mismunandi hliðar og öðlast meiri dýpt eftir því sem líður á bókina. Að sama skapi fer lesandinn að treysta höfundi meira til sinna verka þegar komið er yfir miðbik bókarinnar og þannig vinnur Eva smám saman bug á þeim efasemdum sem spruttu út frá hægu upphafi verksins. Það er því eilítill byrjendabragur á stíl Evu Bjargar sem er skiljanlegt þar sem hér er á ferðinni fyrsta bók höfundar. Engu að síður er nýjabrumið á Marrinu í stiganum ein ástæða ánægjunnar sem hafa má af verkinu, og ætti að gera iðna glæpasagnalesendur vongóða um framhaldið. Hér gefst þeim tækifæri til að kynnast nýjum höfundi sem er vel að sér í hefðum og reglum glæpasagnaformsins en kann líka þá list að að snúa upp á formið og koma þannig jafnvel þaulreyndustu lesendum á óvart.

 

Björn Halldórsson, 2018