Síðan íslenskar glæpasögur fóru að ryðja sér til rúms hér á landi á hafa reglulega komið upp raddir sem fordæma þessa tegund bókmennta og harma ágang hennar á góðan smekk og gengi fagurbókmennta. Í slíkri umræðu er sjaldnast gerður greinarmunur á glæpasögum, þeim er skipað saman í einn flokk, án nokkurrar meðvitundar um að reyfarar eru fjölskrúðug skepna sem gefur stundum vel af sér, stundum ekki.
Ég ætla ekki að fara frekar út í þessa þreyttu umræðu, því hún sýnir ekkert annað en vanþekkingu sem mér leiðist. Látum nægja að segja að íslenskir krimmahöfundar eru eins ólíkir og þeir eru margir, bæði þrífast hér orðið ólíkar tegundir glæpasagna og svo eru gæðin líka afar misjöfn, við eigum sérlega góða höfunda og við eigum líka síðri höfunda. Og nú höfum við eignast einn úr síðari flokknum.
Fyrrverandi fréttastjórinn Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur vakið heilmikla athygli, ekki síst erlendis, með nýjum reyfara sem nefnist Martröð millanna og fjallar um vafasöm viðskipti tveggja íslenskra milljarðamæringa. Annar þeirra er myrtur hroðalega og lesandi fræðist svo um aðdraganda málsins jafnhliða rannsókn þess. Auk millanna tveggja kemur nefstór fjármálagúru til sögunnar, litháískur glæpamaður, súlustaðareigandi og fjölmiðlafólk, og svo auðvitað löggur.
Í stuttu máli sagt er þetta alveg einstaklega vond bók. Hér eru allar mögulegar klisjur dregnar fram eins og þær væru spriklandi ferskar og höfundur virðist leggja sig í líma við að skapa persónur sem lesandi hefur einfaldlega engan áhuga á, og er alveg sama um hver örlög þeirra verða. Ég var eiginlega standandi hlessa á þessu verð ég að segja, og leitaði lengi að einhverju sem gæfi til kynna íróníu eða undirtóna, en fann hvorugt. Aðallöggan verður að fella niður frí vegna rannsóknarinnar, check. Litháíski glæpamaðurinn er allur tattúveraður eftir fangelsisvistir, check. Ritstjórinn á dagblaðinu er sveittur og fráskilinn og óþolandi frekur, check. Og svona mætti halda lengi áfram. Fréttateymið er notað til að koma upplýsingum á framfæri og þannig erum við svo heppin að geta lesið prófíla um helstu persónurnar, um leið og laganna verðir stúdera blöðin í upplýsingaskyni. En þegar fjölmiðlar eru ekki á staðnum vílar höfundur ekki fyrir sér að hella sér út í stutta fyrirlestra um aðskiljanleg málefni, til dæmis um demantaviðskipti og -slípun sem einnig kemur nokkuð við sögu. Stíllinn er síðan saga út af fyrir sig og minnir mest á lélega þýðingu úr amerískum þriller. Reyndar eru höfuðáhrifin amerísk, en ólíkt mörgum íslenskum glæpasögum sver þessi sig ekki í ætt við norræna eða breska krimma.
Kreppan kemur hinsvegar lítið sem ekkert við sögu. Hún er vissulega undirliggjandi en það er lítið farið í að ræða fyrirbærið kreppu og ekkert gert til að setja söguna í eitthvað samhengi við allan þann darraðadans sem einkennt hefur síðustu árin. Yfirhöfuð er lítið gert til að setja söguna í eitt eða neitt samhengi, Martröð millanna gerist í einkennilegu tómarúmi.
Það eina sem ég gat séð út úr allri þessari vitleysu var að pirraður almenningur gæti a) velt sér upp úr öllum lýsingunum á peningagræðginni og -sóuninni og b) fengið kikk út úr því að lesa um drápið á öðrum millanum.
Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.