Beint í efni

Með lungunum öndum við

Með lungunum öndum við
Höfundur
Pedro Gunnlaugur Garcia
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Það hefur sennilega ekki farið framhjá neinum að Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta þetta árið kom í hlut höfundar sem er tiltölulega lítið þekktur í íslenskum bókmenntaheimi og ber ekki sérlega íslenskt nafn. Skáldsagan Lungu eftir Pedro Gunnlaug García þótti hlutskörpust þetta árið sem þótti nokkuð óvænt í ljósi þess að Pedro Gunnlaugur var tilnefndur til verðlaunanna ásamt höfundum sem tengja mætti við kanónu og hafa fengið verðlaunin einu sinni ef ekki oftar áður. Það er dálítið fyndið að fólk þurfi sérstaklega að tala um það að einhver sem ber ekki hefbundið íslenskt nafn hafi hlotið hin merku verðlaun, en það segir okkur líka að Ísland og þjóðin eins og hún leggur sig sé enn og aftur að taka eitt stórt sameiginlegt skref inní nútímann; átta sig á að íslenskt samfélag, eins og flest öll önnur samfélög í samtímanum, er fjölmenningarsamfélag sem einkennist af hreyfingu fólks; hingað kemur fólk og dvelur í stuttan tíma og vinnur eða stundar nám, hingað kemur líka fólk sem flytur frá heimalandi sínu vegna ýmissa ástæða og sest hér að, og hér fæðist fólk sem á foreldra sem eru íslenskir en fæddust kannski annarsstaðar og bera nöfn sem sprottin eru upp úr öðrum tungumálum en íslensku.

Hér gæti ég gleymt mér í romsu um þjóðmenningu og þjóðarhugtak frammi fyrir alþjóðlegum samtíma, en það ætla ég ekki að gera, heldur að reyna að fjalla um þá sögu sem birtist lesendum í Lungu. Gagnrýnendur hafa skilgreint nýjan tón í verkinu, skilgreint er ef til vill aðeins of djúpt í árina tekið, nefnt á kannski betur við, og höfundurinn sagði nýlega í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni að hann taldi það vera því hann bæri nafn sem væri ekki sérlega íslenskt, heldur erlent, en nafn hans er reyndar bæði íslenskt og portúgalskt, því hvað er íslenskara en að heita Gunnlaugur? Nú er mér sérstaklega hugsað til gamals íslenskukennara í MH sem bar einmitt það nafn.

En nýi tónninn sem gagnrýnendurnir hafa nefnt er vissulega til staðar í verki Pedro Gunnlaugs og hér ætla ég að gera tilraun til að skilgreina hann nánar. Tónninn tengist óneitanlega nafni höfundarins sem endurspeglar hvernig hann stendur á mörkum eða geymir í sér tvo menningarheima, er jafnvel tvítyngdur en hann á portúgalskan föður, bjó í Portúgal fyrstu árin en hefur svo alið manninn mestmegnis á Íslandi. Og þannig er sagan sjálf og persónurnar sem hún fjallar um. Við byrjum á Ítalíu, fyrir hundrað árum eða svo, fylgjum svo manni sem flyst búferlum vestur um haf. Fyrst um sinn er frásögnin tengd Bandaríkjunum en svo færist hún yfir til Kanada með viðkomu hjá aðfluttum Víetnömum sem tala frönsku því Víetnam var á sínum tíma frönsk nýlenda, en að lokum færist sögusviðið til Íslands. Og þessi hreyfing á sögusviðinu skapar mjög alþjóðlegar sögupersónur, sem eru á mörkum ólíkra menningarheima, tala nokkur ólík tungumál, upplifa það að vera á jaðrinum en hafa líka tengingu við innsta kjarnann eða hvað það er sem bindur fólk við eina þjóð, eitt landsvæði, eitt tungumál og svo framvegis.

Auðvitað fjalla fjölmargar íslenskar skáldsögur sem tilnefndar hafa verið til bókmenntaverðlaunanna um aðrar slóðir en Ísland. En sjónarhornið er yfirleitt íslenskt. Í verkum Auðar Övu fylgja lesendur íslenskum sögupersónum sem ferðast til Suður-Evrópu eða lengra suður eða austur, og í verkum Kristínar Eiríksdóttur fylgjum við íslenskum sögupersónum sem flytjast búferlum vestur um haf eða fara í langt frí til Tælands. Ég nefni þessa tvo höfunda því þær voru einmitt tilnefndar til verðlaunanna í ár ásamt Pedro Gunnlaugi. Í sögunni hans Pedro hafa sögupersónurnar marga heima inní sér og fyrir vikið verða þær eitthvað svo... djúsí.

Og þessa alþjóðlegu sögu með alþjóðlegu persónum spinnir höfundur af svo miklu áreynsluleysi að það er líkt og að sagan hafi flætt frá honum í einum stöðugum straumi. Og lesandinn lætur sig falla í strauminn og flýtur með, nýtur þess að kynnast sögupersónum á ólíkum æviskeiðum þeirra, kynnast fjölskylduflækjum þeirra, jafnt og hinum ýmsu kunnuglegu sálarflækjum sem skapa persónuleika hvers og eins. Frásagnargleði á vel við til að lýsa skrifum höfundar og birtist ekki síst í þeim furðufrásögnum sem allt í einu poppa upp í sögum af ósköp venjulegu fólki. Sjálfur segist hann hafa verið undir áhrifum af Isabel Allende og Milan Kundera, og tala mætti um töfraraunsæi, en mér finnst stíllinn, efnistökin, frásagnarmátinn miklu nútímalegri, meira current en svo.

Til að mynda beitir hann brögðum vísindaskáldskapar með lúmskum en eftirtektaverðum hætti. Sú persóna sem heldur utan um frásögnina, er staðsett í framtíðinni, og heitir Jóhanna og vinnur við að skapa sýndarveruleik. Hún opnar söguna, birtist inn á milli kafla, og lokar henni svo aftur. Þá hefur hún undir höndum ættarsögu sem faðir hennar, Stefán, hefur skrifað og gefið henni, en Jóhanna telur að með því athæfi sé hann að reyna að biðjast afsökunar á einhverskonar tengsla- og afskiptaleysi, sem er einmitt eitthvað svo current viðfangsefni. Þá birtist vísindaskáldskapurinn einnig í umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu og þá erfðatækni sem þar fer fram, en ein persóna sögunnar flytur sérstaklega til landsins til að vinna við fyrirtækið, og önnur persóna nýtir sér erfðatækni til að skapa barn sem ekki er haldið arfgengum genagalla.

Lungu eftir Pedro Gunnlaug García er hreint út sagt frábær bók, margslungin og heillandi, iðar af frásagnagleði og áhugaverðum pælingum um tengsl, uppeldi og erfðir, og hvernig allir og allt eru hluti af heild. Það á til dæmis við um litla Ísland sem er þátttakandi í alþjóðlegu samfélagi, en stundum er eins og þau tengsl gleymist, bæði í sögulegu samhengi jafnt og í samtímanum, sem er miður því þau eru til staðar og eru bæði djúpstæð og áhugaverð. Eitt af því sem Lungu minnir lesendur á er að fólksflutningar eru ekki nútímafyrirbæri heldur hefur fylgt mannkyninu frá upphafi vega. Sem dæmi má nefna Vesturfaranna en hópur Íslendinga flutti einnig til Brasilíu á árum áður og settist þar að. Þá var Ísland lengi vel undir norrænum yfirráðum, síðast dönskum, en í dag búa ellefu þúsund íslendingar í Danmörku. Hluti af heild, hluti af heild, ætti að vera mantra nútímamannsins sem er jú óhjákvæmilega alltaf hluti af fjölskyldu, (alþjóða)samfélagi, vistkerfi og náttúru.
 

Vera Knútsdóttir, febrúar 2023