Beint í efni

Mislæg gatnamót

Mislæg gatnamót
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Mislæg gatnamót er titillinn á nýjustu ljóðabók Þórdísar Gísladóttur og á fyrstu blaðsíðunni blasir við teikning af hjarta þar sem blóm virðast vaxa úr gáttum þess og æðum. Myndin minnir dálítið á tattú en í samhengi titilsins má velta fyrir sér hvort hjartað taki að sér hlutverk mislægra gatnamóta með því að vera miðstöð tilfinningalífs og ef til vill skapa tengingar á milli fólks, svona fólks eins og Þórdís yrkir um í ljóðum sínum. Að öðru leyti koma gatnamót ekki við sögu fyrir utan áhrifamikla mynd sem breiðir úr sér framan á bókarkápu og yfir á baksíðu, og í heimsósóma-loftslagsljóði undir lok bókarinnar þar sem mislægu gatnamótin „hlykkjast um dali og hraun“. Ljóðið ber þann afar lýsandi titil „Næstsíðasta ljóðið“ og bregður upp mynd af „framtíðinni / þegar við verðum ekki til lengur“. Hvernig við tökumst á við þá staðreynd af léttúð og frestunaráráttu, höldum áfram að skála og höldum áfram að ferðast. Ljóðið minnti mig reyndar á litháíska sýningarskálann sem hlaut gullljónið á Feneyjartvíæringnum í vor. Verkið sýndi óperusyngjandi fólk í sólbaði á sólarströnd sem naut góða veðursins, góða lífsins svona rétt áður en allt steypist í glötun, sjávarborð hækkar, allt drukknar eða þurrkast út. Og nú gefa flóðin í Feneyjum skálanum meira vægi.

 

Að öðru leyti sverja gatnamótin mislægu sig í ætt við fyrri ljóðabækur skáldsins sem eru fjórar talsins; Leyndarmál annarra frá 2010, Velúr frá 2014, Tilfinningarök frá 2015 og loks Óvissustig frá 2016. Hér er ort um hvunndaginn og það sem kalla mætti „venjulegt fólk“ en samkvæmt yfirlýsingum ljóðmælanda í ljóðinu „Árétting“ velur hann það jarðbundna fram yfir hið háleita, heitan líkama fram yfir spámenn andans og hvunndaginn fram yfir skáldlega rómantík. Og eins og áður birtist hversdagurinn í allri sinni dýrð; skammdegislægðir og dagar sem líða tilbreytingarlitlir, vöðvabólga og flaknað naglalakk, skjábirta og samfélagsmiðlar. Í ljóðinu „Allir þessir dagar“ er tekið fram að „lífið er ekki sjónvarpsþáttur“ þar sem alltaf eitthvað óvænt gerist. Nei, lífið er fyrirsjáanlegt samkvæmt ljóðmælanda og við erum öll föst í viðjum vanans. Og eins og áður er nútíminn, eða samtíminn, undir. Ljóðið „Andvökur“, sem vísar sterklega til fyrstu skáldsögu Þórdísar sem kom út í fyrra, Horfið ekki í ljósið, fjallar um hvernig við tökum á svefnleysi með símann við höndina og heyrnartól á eyrunum í stað þess að glápa útí tómið og telja kindur.

 

Aðdáendur skáldsins verða trúlega ekki fyrir vonbrigðum með háðskar og írónískar mannlífslýsingar en þessi lesandi fann fyrir dulítilli þreytu á stereótýpunotkuninni í ljóðum á borð við „Grannkonan“, um konuna í næsta húsi sem lítur barnafólk hornauga og reykir mjóar sígarettur, „Vinkona“ með fallega hárið sem „hefur frá barnæsku verið stigahæst í lífinu“, og í ljóðinu um hamingjusnauðu kjarnafjölskylduna sem nefnist „Botnlangar“. Í ljóðabókinni má finna ýmis gullkorn sem vekja vafalaust lukku, sum ljóðanna hafa nánast „punchline“ eins og til dæmis upptalningarljóðin „Ekki franskt“, „Ekki ítalskt“, „Forréttindavandamál“ og fleiri, sem ég ímynda mér að hitti betur í mark og verði eftirminnilegri þegar hlýtt er á skáldið lesa þau á sinn hátt.

 

Styrkur skáldsins í Mislægum gatnamótum liggur helst í ljóðunum sem minna á örsögur og virðist vera form sem leikur í höndum hennar. Við kynnumst til dæmis Lofti sem býr í húsi þar sem nágrannarnir deyja hver á eftir öðrum, Sunnu sem, eins og margir samferðamenn, veigrar sér við að tala í símann og vill heldur nota ópersónulegri aðferð eins og smáskilaboð eða tölvupóst, og um Agnesi Laufeyju sem óttast það að heimur hennar liðist í sundur ef hún taki niður bannsett jólaskrautið. Þetta eru heillandi karakterar í aðstæðum sem ýmist koma á óvart eða margir tengja við. Eins skín skáldasólin skært þegar ljóðin verða aðeins óræðari og margbrotnari. „Hálsaskógur“ er til dæmis afar fallegt og ljúfsárt ljóð um tré og árstíðaskipti, og „Kuldi“ bregður upp óræðri, kuldalegri en jafnframt heillandi mynd af tveimur verum á vetrarnótt. Inngangsljóðið „Kuml“ er af svipuðum toga og lýsir því hvernig ljóðmælandi er sannfærður um að eitthvað gruggugt búi í moldinni, eitthvað sem hvískrar í. Aðrir telja svo ekki vera og því gerir ljóðmælandi sig reiðubúinn til að grafa það upp og kynna okkur lesendum. En hvað er það nákvæmlega sem skáldið vill grafa upp og kynna lesendum sínum? 

 

Það er að mörgu leyti skemmtilegt að lesa Mislæg gatnamót. Þar er að finna mörg gullkorn sem koma á óvart og kæta, sem og ljóð sem fá lesendur til að staldra aðeins við og pota í moldina. En að sama skapi hefði verið sterkara að geta greint skýrari tengingu á milli ljóðanna og rakið betur þræðina sem búa að baki þeirri hugmynd að kalla ljóðabók þeim frábæra titli Mislæg gatnamót.  

 

Vera Knútsdóttir, nóvember 2019