Beint í efni

Missir

Missir
Höfundur
Guðbergur Bergsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Setningin, „Vatnið suðar í katlinum” (9), segir ansi mikið um söguna Missi eftir Guðberg Bergsson. Setningin birtist á fyrstu síðu þessarar stuttu skáldsögu sem ber undirtitilinn „Stuttsaga” og fjallar um aldraðan mann sem hefur nýlega misst konu sína. Hann saknar hennar, og þó ekki, því hjónabandið hefur greinilega verið nokkuð stormasamt og veikindi konunnar erfið og langvarandi. Því er söknuður kannski ekki rétta orðið, missinum fylgir ekki endilega - eða einungis - söknuður heldur skilur hann eftir sig tómarúm, gat í lífið sem gamla manninum reynist erfitt að fylla upp í.

Sagan lýsir því hvernig hann dormar í rúminu, fer framúr og kveikir á katlinum til að sjóða sér vatn í te eða kaffi, en skríður upp í aftur og lætur ketilinn sjóða út, og þannig áfram. Á meðan „vatnið suðar í katlinum” rifjar kallinn upp ævi sína, hjónabandið og önnur sambönd og sambúðir. Stundum er dálítið óljóst hver er hver og hvernig þetta allt hangir saman, en það er allt í lagi, því við erum stödd einhversstaðar á milli draums og vöku, það er bara suðið í katlinum sem heldur okkur við efnið og það hækkar og lækkar eins og gengur.

Jafnframt því að fjalla um missi og söknuð, fjallar sagan um ást og erfið ástarsambönd, en það er viðfangsefni sem Guðbergur hefur áður fjallað um. Hér eru þessar „ástir samlyndra hjóna” þó settar í nýtt samhengi, því þær birtast í minningum gamla mannsins sem lítur yfir farinn veg og veit allavega að hann elskaði alltaf konuna, vonaðist til að geta elskað hana nóg fyrir þau bæði. En hann hatar hana líka, að sjálfsögðu, fyrir að gera líf hans svo erfitt.

Þriðja viðfangsefnið, og það sem er kannski hvað áhrifaríkast og athyglisverðast, er svo sjálf ellin. Hún birtist ekki aðeins í því hvernig gamli maðurinn kannar hvernig líkami hans hrörnar heldur líka í því hvernig umhverfið breytist með aldrinum. Hljóð, þögn, tilfinning fyrir tíma, leiði, vani, allt eru þetta hlutir sem breytast með aldrinum, hljóð ýmist magnast eða deyfast (suðið í katlinum rennur út í eitt), þögnin sömuleiðis. Tilfinningin fyrir tíma verður allt önnur (Terry Pratchett skrifaði einu sinni skáldsögu um hvernig tíminn líður á ólíkan hátt við ólíkar aðstæður, til dæmis safnast tími upp á elliheimilum), og svo eru það félagarnir tveir, leiði og vani, sem eru óhjákvæmilegir fylgifiskar ellinnar og magnast upp með aldrinum.

Fyrstu síðurnar teikna þetta sterkt upp, en bókin hefst á þessum orðum: „Ég sef aldrei. Ég vaki ekki heldur. Ég sé sjálfan mig liggja í rúminu milli svefns og vöku.” Svo vaknar kallinn og „starir út í loftið, næstum eins og dauður”, hann veit ekki hvort er dagur eða nótt, „Augun eru á flökti” (9). Hann er ekki einu sinni viss um hvar hann er staddur, en „Að átta sig skiptir raunar engu máli” og „Allt rennur saman í þrekleysi, syfju og þögn.” Samt langar hann ekki til að deyja, en það kemur til af „óljósri lífsþrá sem er fremur vani en löngun til að lifa” (10). Hér má segja að mörg þessara einkenna megi einnig tengja söknuði og sorg og einfaldlega þunglyndi. Allt eru þetta þó tilfinningar sem leggjast af auknum þunga á gamalt fólk, sem hefur í gegnum ævina fengið dágóðan skammt af missi og söknuði, auk þess að upplifa leiða og vana sem ekki sér fyrir endann á og því fylgir þunglyndið eðlilega í kjölfarið. Þó er þessi óljósa lífsþrá ótrúlega sterk: „Eftir því sem hann eldist rígheldur hann sér í lífið en hann gerir ekkert til þess að lengja það” (11).

Guðbergur fangar þessar tilfinningar allar á einstakan hátt í stuttsögu sinni, hann er hér á frekar ljóðrænum slóðum, ef svo má segja, en á einkennilegan hátt fellur þokukennt ástand kallsins fimlega saman við ljóðrænan og tilfinninganæman texta, þó vissulega bregði fyrir skemmtilegum gróteskum töktum, allt frá vangaveltum um hrörnun líkamans og hugmyndarinnar um að innbyrða ösku eiginkonunnar, til dauða hundsins sem sá gamli finnur í ruslafötunni snemma í sögunni. Sagan um þennan hund er gott dæmi um frásagnarlist höfundar sem skyndilega brestur í sögu um konu sem hatar hundinn sinn; sögu sem á einhvern hátt nær að fanga þær fjölmörgu mótsagnakenndu tilfinningar sem stuttsagan sjálf geymir, enda höfum við rétt áður hitt kallinn þar sem hann geltir að sjálfum sér, í þeim tilgangi að lífga við röddina og athuga heyrnina, eða bara til að athuga hvort hann sé enn á lífi.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.