Beint í efni

Myrká

Myrká
Höfundur
Arnaldur Indriðason
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er eitthvað svolítið viðkvæmnislegur blær yfir sögu Arnaldar Indriðasonar að þessu sinni. Ekki þó á þann hátt að sagan sé ljúf eða blíð; Myrká er, eins og nafnið gefur til kynna drungaleg og grimm glæpasaga. Það er frekar nálgun höfundar og byggingin öll sem virkar viðkvæm, næstum á mörkum þess að sundrast - en gerir það þó einmitt ekki. Þetta kemur meðal annars fram í því að hér tekur Arnaldur smá hliðarspor, Myrká er enn eitt dæmið um hvernig þessi vinsæli höfundur er óhræddur við að feta nýjar slóðir og hætta sér jafnvel út á ystu nöf í tilraunum með form og viðfangsefni. Tilbrigðið hér felst í því að nú er Erlendur fjarri. Hann er rétt nefndur á nafn nokkrum sinnum með tilvísunum til atburða úr Harðskafa, bókarinnar á undan Myrká, og Elínborg er í aðalhlutverki, rannsókn glæpsins er í hennar höndum. Sigurður Óli kemur aðeins fyrir, en er sömuleiðis á hliðarlínunni. Elínborg er hér í sömu stöðu og Erlendur í fyrri bókum, við kynnumst heimilisaðstæðum hennar, vangaveltum um starfið og svo auðvitað vinnulagi og aðferðum, sem eru allólíkar tækni þeirra Erlendar og Sigurðar Óla. Allt þetta er ákaflega áhugavert og vel gert en kannski dálítið of táknrænt þegar til þess er tekið að glæpurinn fjallar að þessu sinni um nauðgun. Arnaldur hefur áður komið inná nauðganir í bókum sínum og sýnt framá nærgætni gagnvart slíkum glæpum og fórnarlömbum þeirra (ein heimskulegasta breytingin í kvikmyndaaðlöguninni á Mýrinni var að taka út nauðgunina þar sem var lykilatriði fyrir rannsókn málsins), en hér er umfjöllunin mun ágengari.

Ungur maður finnst myrtur í íbúð sinni, skorinn á háls. Ummerki á vettvangi sýna að þar hefur verið ung kona og hinn myrti ber þess merki að hafa haft kynmök, en þegar svefnlyfið rohypnol finnst í eigu hins látna koma fram grunsemdir um vafasamt háttalag hans. Elínborg ræðir við fórnarlömb slíkra nauðgana og upplifir sterkt hversu skelfilegur glæpurinn er og samhliða þessu er deilt hart á þær vægu refsingar sem kynferðisglæpamenn fá. Hún kynnir sér fortíð hins myrta og kemst að því að hann er ættaður utan að landi úr smáþorpi, sem hún heimsækir. Lýsingarnar á því eru ákaflega myrkar, fyrir utan illviðri og myrkur þá virðist þorpið þrungið leyndardómum. Hér sýnir Arnaldur að hann getur vel skapað ókennilegt og dulúðugt andrúmsloft ef honum svo líkar, en jafnframt stingur lýsingin óneitanlega dálítið í stúf við annars háraunsæislegt yfirbragð sögunnar.

Hér verður ekki farið nánar út í söguþráðinn enda ekki til neitt verra en að skemma góða glæpasögu fyrir lesendum. Sem fyrr koma fram ýmsar vísbendingar sem Elínborg lætur í fyrstu framhjá sér fara en vanur lesandi áttar sig á að eru þýðingarmiklar og sem fyrr þáttar Arnaldur fimlega saman ýmsa þræði sem að lokum falla í einn ákaflega þéttan vef. Því þrátt fyrir þær efasemdir sem ég hafði um það að láta konu leika aðalhlutverkið í bók sem fjallar um þann skelfilega glæp sem nauðgun er og hið forneskjulega andrúmsloft í þorpinu, þá er niðurstaðan sú að allt er eins og á að vera: höfundur hefur alla þræði í hendi sér, vefur þá fullkomlega saman og spilar í leiðinni á nýja strengi (án þess þó að ofhlaða myndmál sitt eins og í setningunni hér á undan).

Það kemur til af því að þessi ‘viðkvæmni’, sem ég kalla svo, er hreinlega byggð inn í söguna sem fjallar, eins og önnur verk Arnaldar og allar góðar glæpasögur, ekki bara um þetta tiltekna morð, heldur um stærri spurningar og samfélagsleg átakamál. „Hver er svo sekur?” segir í dægurlagatexta og „Hvenær drepur maður mann?” spurði Jón Hreggviðsson. Myrká tekst á við grundvallarspurningar tengdar glæpum, spurningar um réttlæti og refsingar: spurningar sem leita á lesenda löngu eftir að lestri er lokið.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2008