Það hefur löngum verið til siðs að nefna þýðandann og hvernig til hafi tekist með þýðinguna í nokkrum línum undir lok ritdóma, hér verður þessu til tilbreytingar snúið við. Árni Óskarsson þýðir bókina, reyndar ekki úr frummálinu heldur úr enskri þýðingu Erdags M. Göknar sem unnin er í nánu samstarfi við höfundinn. Samanburður við ensku gerðina sýnir að sú íslenska gefur henni ekkert eftir. Textinn er ákaflega blæbrigðaríkur og nær sérlega vel að fanga forna tíma og framandi heima í orðanotkun og málbeitingu, án nokkurs stirðleika eða þannig að af því megi finna nokkuð „þýðingabragð“.
Ohran Pamuk er tyrkneskur höfundur sem fékk nóbelinn 2006 og hefur skrifað sérlega áhrifamiklar skáldsögur, þar sem sjónum er oft beint að listinni í samfélaginu, átökum listar og trúar og veraldlegra og trúarlegra gilda og árekstrum og samskiptum vestrænna og austrænna menningarheima. Þetta er fyrsta verk hans sem er þýtt á íslensku og fengur að því – svo maður sæki nú aðeins í klisjubankann. En það er ekkert klisjukennt við verk Pamuks, þótt ofangreind þemu bjóði vissulega upp á slíkt, til þess er afstaðan til þeirra alltof margbrotin og núanseruð.
Nafn mitt er Rauður gerist í samfélagi handritalýsara í Istanbúl undir lok 16. aldar. Soldáninn hefur fyrirskipað að gerð verði bók um líf hans og veldi, en það dregur dilk á eftir sér og veldur miklum usla í samfélaginu. Lesendur fá hér ýmislegt fyrir sinn snúð; morðgátu, ástarsögu, sögulega skáldsögu og margháttaðar pælingar um austur og vestur. Fjölmargir sögumenn skiptast á um að segja söguna og kaflaheitin gefa til kynna hver segir frá í hvert skipti ‘Ég er Esther’, ‘Ég er nefndur Svartur’, o.s.frv. En tilraunamennskan með sjónarhornið gengur lengra en hefðbundið margfalt sjónarhorn því sögumennirnir eru af fjölbreyttara taginu; látnir menn, hestur, hundur, tré, dauðinn og jafnvel liturinn rauður svo fáin dæmi séu nefnd. Sögumennirnir trúa lesendanum fyrir sinni sýn á atburðina og ávarpa hann jafnvel. Í öllu þessu er það þó listin og ólík viðhorf til hennar sem er alltumlykjandi. Austræn og vestræn gildi í listunum takast á, á listin að endurspegla veruleikann? Á að mála andlitsmyndir af fólki og líkja þannig eftir fyrirbrigðunum eins og þeir vestrænu eru farnir að gera? Eða á listin að vera fyrst og fremst táknræn, emblematísk, ekki realísk, eins og hefðbundinn austrænn skilningur vill hafa þetta? Það á ekki að mála eitt ákveðið tré, heldur merkingu Trésins.
Pamuk skrifar um samfélag á tímamótum, veldi ottómananna hnignar og hugmyndir soldánsins um bókina miklu eru litaðar af nýmóðins vestrænum hugmyndum sem hefðarsinnar mótmæla. Þegar samfélag er algjörlega undirlagt af stórviðburðum – stríðum, náttúruhamförum, manngerðum kreppum – eins og okkar nú, þá er ekki laust við að tilhneigingin sé sú að túlka allt í ljósi þessara atburða. Að því leyti fer manni smám saman að svipa til hins geðsjúka sem les heiminn eins og eina samfellda umfjöllun um sig. En hér er hliðstæðan ómótstæðileg, því í ríkinu geysar óðaverðbólga; peningar eru orðnir verðlausir: „Hefði móðir mín lifað þann dag þegar hún þyrfti að borga þrjá silfurpeninga fyrir tólf egg, hefði hún sagt: „Við skulum forða okkur áður en hænsnin verða svo dekruð að þau skíta á okkur í staðinn fyrir jörðina.“ En ég vissi að þetta vandamál gengisfelldra peninga var alls staðar hið sama“ (bls. 16). Því er þetta verk einhvern veginn bæði kunnuglegt og framandi í senn og það er viðeigandi að í skáldsögu sem er uppfull af pælingum um samhengi veruleika og listar, myndar og veruleika og þar sem ímynd og raun renna stöðugt saman og í sundur – skuli lesandinn þeytast milli Istanbúl á 16. öld og Reykjavíkur nútímans án nokkurra vandkvæða.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2008