Beint í efni

Náttúrugripasafnið

Náttúrugripasafnið
Höfundur
Sigrún Eldjárn
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Náttúrugripasafnið er nýjasta bók Sigrúnar Eldjárn og er sjálfstætt framhald af Forngripasafninu sem kom út í fyrra. Nokkrir söguþræðir fléttast saman en söguhetjan Rúnar er í upphafi bókar staddur í heimsókn hjá mömmu sinni í New York. Þar rambar hann inn í mjög skrítna verslun með náttúrugripi þar sem hann finnur hinar fullkomnu gjafir fyrir vini sína, Möggu og Lilla. Hjónin sem reka búðina afhenda honum afskaplega furðulegan pakka sem hann ákveður þrátt fyrir efasemdir að taka með sér til Íslands. Fljótlega tekur hann eftir skuggalegum manni með sólgleraugu sem virðist vera alls staðar þar sem Rúnar er.

Vinir Rúnars, þau Magga og Lilli, fá líka furðulegan pakka heima á Íslandi. Í honum leynast meðal annars nokkur óvenjuleg fræ en pakkinn reynist vera frá Indlandi þaðan sem systkinin eru ættleidd. Þau stinga fræjunum í pott og eftir því sem á líður söguna bætast alls konar hlutir í pottinn. Þá vakna fræin til lífsins og það hefur óvæntar afleiðingar í för með sér. Í pakkanum hans Rúnars reynist hins vegar vera lítill, krumpaður karl. Karlinn er fornmaður og pabbi Rúnars verður himinlifandi. Hann er nefnilega að fara að opna náttúrugripasafn og vantar rúsínuna í pylsuendan til að gera safnið sérstaklega spennandi og flott. Það eru hins vegar ekki allir á eitt sáttir um að fornmaðurinn eigi heima í safninu og Rúnar og Magga verða að takast á við bæði hversdagslega og ævintýralega atburði, skuggalega manninn með sólgleraugun og dvergahóp sem heldur því fram að karlinn sé langafi þeirra og vilja fá hann afhentan undireins.

Í Náttúrugripasafninu er ekki verið að lýsa neinum venjulegum, íslenskum hversdagsleika þótt allt sem gerist sé sett þannig fram að það sé í mesta lagi svolítið skrítið. Það er ekkert athugavert við það að Rúnar komist með illa þefjandi pakka á milli landa án athugasemda eða að börnin fái að gista eftirlitslaus heima hjá Rúnari þegar pabbi hans kemst ekki heim eitt kvöldið. Það er heldur ekkert sérstaklega furðulegt að dvergar eins og í ævintýrunum séu raunverulega til eða að heill frumskógur skuli spretta á einni nóttu úr nokkrum fræjum. Rúnari og vinum hans finnst þetta vissulega allt saman vera svolítið skrítið en samt eiginlega ekki. Svona er þetta bara.

Athygli lesandans er vakin strax á fyrstu síðum sögunnar með því að spennu, ævintýrum og húmor er blandað saman á skemmtilegan hátt. Söguhetjurnar lenda iðulega í meiri eða minni háska og sögunni er þannig fleytt áfram frá kafla til kafla. Stíllinn er einfaldur og auðlesinn og bókin er greinilega ætluð börnum sem eru sjálf farin að lesa þótt lesandanum sé einnig ögrað með skrítnum og óvenjulegum orðum. Bókin er frekar lítil, ríkulega myndskreytt og ekki mjög mikill texti á hverri síðu og það hentar eflaust lesendahópnum vel. Þá virðast síðurnar ekki eins rosalega langar og svo er auðvitað meira afrek að lesa bók sem telur fleiri blaðsíður.

Sögur Sigrúnar Eldjárn hafa fylgt íslenskum börnum í gegnum undanfarna áratugi og varla sú manneskja til sem þekkir ekki eitthvað af verkum hennar. Sigrún er þeim kostum gædd sem rithöfundur að geta haldið áfram ár eftir ár að skrifa bækur, sem verða þó aldrei endurtekningarsamar heldur eru alltaf jafn innblásnar og hugmyndaríkar. Frásagnargleði og virðing fyrir lesandanum ræður ríkjum og klikkar ekki nú frekar en fyrri daginn.

María Bjarkadóttir, desember 2011.