Beint í efni

Nokkrar myndskreyttar barnabækur

Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundur
H.C. Andersen
Útgefandi
PP forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundur
H.C. Andersen
Útgefandi
PP forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundur
H.C. Andersen
Útgefandi
PP forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundur
H.C. Andersen
Útgefandi
PP forlag
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundur
Björk Bjarkadóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Julia Donaldson,
 Axel Scheffler
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar myndskreyttar barnabækur
Höfundar
Illugi Jökulsson,
 Sigurður Ingi Jensson
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? Þessar spurningar leita óneitanlega á mig þegar ég er að skoða hið margvíslega samspil orða og mynda, hvort sem er í listaverkabókum, myndasögum eða myndlýstum barnabókum. Hugsanlega mætti setja upp fortíðarhygginn svip og segja sem svo: einu sinni var orðið alltaf aðalmálið og þá var þetta ekkert mál, því þá skipti málið meira en myndin. En þetta væri þá ekkert endilega svo rétt, því það er ekkert svo langt síðan þetta einu sinni var, það er ekkert svo langt síðan myndefni var meginþorri lesefnis alls almennings, sem las sig til dæmis í gegnum hin ýmsustu trúartákn eins og ekkert væri – tákn sem flestir eru ólæsir á í dag. Og þá var myndin málið.

Skoðum nokkur dæmi. Árlega kemur út mikill fjöldi myndskreyttra barnabóka og er það öllum gleðiefni að sjá að metnaðurinn á þessu sviði er alltaf að aukast. Stærsti pakkinn er að þessu sinni splunkunýjar útgáfur af völdum ævintýrum H.C. Andersen (PP forlag, 2004), en þetta mun vera ein af (allavega) þremur útgáfum í tilefni aldarafmælisins. Böðvar Guðmundsson endursegir sögurnar og Þórarinn Leifsson myndskreytir. Þetta eru allt vel kunnar sögur, Eldfærin, Litla stúlkan með eldspýturnar, Ljóti andarunginn, Nýju fötin keisarans og Næturgalinn, en sú síðasta er kannski minnst þekkt. Og hefst nú lesturinn. Ég verð að játa að mér fannst textinn svolítið daufur hjá Böðvari, óþarflega einfaldur. Ég ráðfærði mig við Andersen-sérfræðing bókasafnsins, Jónínu Óskarsdóttur (sem nú vinnur að grein um íslenskar þýðingar á verkum Andersen) og hún staðfesti þessa tilfinningu og benti á nokkra staði því til staðfestingar. Núnú, hinsvegar er mjög auðvelt að tapa sér í þessum bókum því myndir Þórarins eru allólíkar öðrum myndskreytingum við ævintýrin og segja má að þar sé að finna allt það krydd sem vantar í textann. Þannig er sagan af Eldfærunum, sem er hressandi og svolítið villt saga, myndlýst í dálítið villtum stíl og hundarnir sérlega vel útfærðir. Á hinn bóginn ríkir kyrrðin í myndunum af Litlu stúlkunni með eldspýturnar og dáðist ég sérstaklega að því hvernig sýnirnar sem birtust og hurfu í skini eldspýtnanna voru útfærðar. Á sama hátt var yfirbragð hinna sagnanna við hæfi, Næturgalinn segir frá keisaranum í Kína og er dásamlega austurlensk á meðan grallaraskapurinn í Nýju fötum keisarans er sérlega vel útfærður. Ljóti andarunginn er bæði hrjáður og slæptur og Þórarni tekst frábærlega upp í svipbrigðum dýranna. Þannig skoðaði ég myndirnar aftur og aftur og gladdist yfir þeim og hlýt því að meta þetta svo að hér séu það myndirnar sem séu málið – í samspili við sögurnar sjálfar auðvitað, sem eru jafnfrábærar og áður. Þetta eru fallegar bækur sem er gaman að eiga uppí hillu hjá sér.

Þessir erfiðleikar voru víðsfjarri í bókum Bjarkar og Juliu Donaldson um ofurömmuna og Greppibarnið (Mál og menning, 2004). Þar fara myndir og texti fullkomlega saman, skemmtilegar sögur, skemmtilegar myndir og ég las þetta aftur og aftur (enda gengin í barndóm eins og fram hefur komið). Amma og þjófurinn í safninu (Mál og menning, 2004) segir frá Óla og ömmu hans en hún er ofurhetja. Eina nóttina þegar Óli gistir hjá ömmu sinni er hún kölluð út til að vakta listasafn. Og viti menn, það er brotist inn... Sagan er stutt og alveg óþarfi að segja meira, enda deyr þetta allt í endursögn en lifir á síðunum, texti og myndir eru á ferð og flugi alveg eins og fljúgandi amman, fjarvídd er víðsfjarri (en gölluð fjarvídd heillar mig alltaf óskaplega) og listasafnið er vettvangur fjörugra atburða og fjörugra lista.

Sagan er öll í djúpum dökkum litum, fjólubláum, rauðbrúnum og bláum, enda gerist þetta um nótt, eins og sagan af Greppibarninu, en hún gerist líka um vetur. Greppiklóin, sem í síðustu sögu tapaði fyrir músinni úrræðagóðu er hér búin að eignast lítinn unga sem hún varar ákaft við óvininum með loðnu eyrun. Og svo leggst hún í hýði. En Greppibarnið vakir og því leiðist og það er svangt. Svo það leggur af stað í leit að snarli en passar sig samt að varast músina ógurlegu og hefst nú, líkt og í fyrri bókinni, ganga um skóginn þarsem hvert dýr er ávarpað á sama hátt. Þegar hér var komið óttaðist ég dálítið um örlög músarinnar, því það má segja að hér sé boðið uppá að fyrri sögunni sé snúið við – og Greppibarnið borði músina í löns. En ég gef ekkert upp. Sem fyrr eru myndir og texti í flottu samræmi, þýðing Þórarins Eldjárns fyndin og alveg í anda dálítið grófra og klaufalegra mynda Axel Schefflers. Aftur er skapað magískt andrúmsloft einhvers undarlega dásamlegs heims dýranna og óvættanna.

Að lokum gat ég ekki á mér setið að glugga í Litla bangsa (JPV forlag, 2004) Illuga Jökulssonar með myndum Inga Jenssonar, bangsinn á forsíðunni brosti svo ómótstæðilega. Og hann gerir það alla bókina, og er án efa það sem ''gerir'' hana, því þó saga Illuga sé vissulega góðra gjalda verð, hin klassíska dæmisaga af þeim sem vill geðjast öllum í stað þess að vera hann sjálfur, þá er frásögnin með sínum klassísku endurtekningum helst til daufleg og óspennandi. Hinsvegar var kryddið allt í myndunum, glaðar og líflegar teikningar Inga koma sögunni á hreyfingu, dýrin eru fimlega útfærð og á hverri síðu eru ýmis skemmtileg smáatriði sem gaman var að skoða, rotturnar sem fylgjast með hrakförum Litla bangsa eru dásamlegar og ekki glöddu allir litríku og forvitnu snákarnir mig síður.

Þetta hljómar náttúrulega asnalega pedagógískt frá kennslukonunni en ég verð að fá að enda þetta á því að taka það fram hvað myndlæsi er börnum – og fullorðnum – mikilvægt. Allar þessar bækur bjóða uppá skemmtilega spegúleringar um myndir og mál og myndir sem mál; því hér eru myndirnar líka málið. Myndirnar styðja textann, þær eru jafnvel í mótsögn við hann og bæta við hann eða breyta honum á einhvern hátt og það er þetta samspil sem skiptir sköpum fyrir vel heppnaða myndskreytta bók.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004