Beint í efni

Nokkur almenn orð um kulnun sólar og Milli trjánna

Nokkur almenn orð um kulnun sólar og Milli trjánna
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2009
Flokkur
Ljóð
Nokkur almenn orð um kulnun sólar og Milli trjánna
Höfundur
Gyrðir Elíasson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2009
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Listi yfir höfundarverk Gyrðis Elíassonar er vandlega prentaður á innábrot bókakápa nýjustu bóka hans, ljóðabókarinnar Nokkur almenn orð um kulnun sólar og smásagnasafnsins Milli trjánna. Samkvæmt því hefur hann að meðaltali sent frá sér eitt frumsamið verk á ári frá því fyrsta ljóðabók hans, Svarthvít axlabönd, kom út árið 1983, samtals 26 bækur. Með þýðingum og greinasafni næstum tvöfaldast afköst Gyrðis, heildartalan er 43 bækur. Þetta er ekki lítið ævistarf fyrir ekki eldri mann og verður enn eftirtektarverðara þegar gæðin eru skoðuð, en í verkum Gyrðis er sjaldan að finna feilnótur. Ef einhverjar sjást eru þær svo veiklulegar og máttlitlar að þær rétt ná að senda frá sér ofurlítinn rykugan hósta og skipta nákvæmlega engu máli þegar á heildina er litið. Á einhvern undarlegan hátt hefur Gyrðir þó aldrei hlotið þá almennu virðingu og athygli sem verk hans kalla á. Síðan hann hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2000 hafa bækur hans aldrei verið tilnefndar, en fram að því hafði hann hlotið fjórar tilnefningar. Það er næstum eins og íslenskir lesendur, gagnrýnendur og aðrir bókmenntavitar séu einfaldlega farnir að líta svo á að það eðalbragð sem einkennir skrif Gyrðis sé sjálfsagður hlutur sem ástæðulaust sé að hampa sérstaklega, en njóta bara í rólegheitum.

Nýjustu verkin tvö fylgja vandlega í fótspor fyrirrennara sinna hvað varðar gæði og gleði. Þó er ekki endilega ‘bjart yfir Betlehem’ í textunum, ljóð Gyrðis hafa sjaldan verið myrkari en þau sem finna má í fyrri helmingi Nokkurra almennra orða um kulnun sólar, enda segir titillinn sitt. Smásögurnar eru heldur ekki neitt áberandi hressilegar, en sem fyrr er það tóntegundin sem skiptir höfuðmáli, tilfinningin fyrir tungumálinu og sú óvænta sýn sem svo oft birtist bara í því hvernig orðin raðast saman. Það er alltaf eitthvað áreynslulaust og tilgerðarlaust við texta Gyrðis sem gerir þá svo einstaka og á stundum fullkomna í margbreytilegum einfaldleika sínum. Skoðum dæmi:

Í skóginum

Þarna er skilti;
RAUÐGRANI.
Ég rýni betur.
RAUÐGRENI
er þetta víst,
fræðsluskilti
frá skógrækt-
inni. Ég anda
léttar, að hann
skuli ekki búa 
hér, sá sem
litaði með 
svörtu yfir
bernskuna

Tveimur sviðum, gamals ævintýris og hversdagslegrar gönguferðar, lýstur hér saman í skilti sem finna má á milli trjánna og gefur í fyrstu rangar upplýsingar, kannski vegna þess að hugurinn sem les á það er dálítið svartur þá stundina. Reyndar er þunglyndi nokkuð til umræðu bæði í ljóðunum og sögunum og birtist í líki svarta hundsins, sem er klassískt myndmál sjúkdómsins. Hið myrka í mannsandanum kemur líka fram í þeirri tengingu við jörðina, sérstaklega í formi kirkjugarða, sem svo mjög einkennir ljóðin í Nokkrum almennum orðum. Í ljóðinu „Tilfærsla” hefur skilti sem á stendur ‘gæðamold’ verið fært yfir í kirkjugarð og í „Að moldu” er lýst draumi um löngu látinn mann að róta í kartöflugarði sem minnir á kirkjugarð: „líkt og hann ætlaði að / komast sem fyrst ofan í jörðina”.

Sem fyrr mynda ljóðin litla hópa eða samfellur, en slíkar fínlegar tengingar einkenna einnig mörg smásagnasafna Gyrðis. Það er ekki nóg með að myndmálið flæði í gegnum ljóðið, heldur frjóvgar það næsta ljóð líka eins og í ljóðatvennunni um „Undur í Þistilfirði” og „Sýn að hausti”. Í fyrrnefnda ljóðinu ber svo til að leðurblaka flýgur inn um glugga á bæ, drekkur vatn úr skál og kemur sér svo fyrir „neðan í ljósakrónu”. Börnin herma eftir, fara „út að / snúrustaurunum, / klifruðu upp í þá / og létu sig hanga / á fótunum”. Enn á ný felst galdurinn í þessum óvænta fundi léttleika og myrkraverka, sem leðurblakan er einmitt góður fulltrúi fyrir. Sýnin að hausti spinnur svo myndina áfram, en þar gengur lítill drengur „meðfram / kirkjugarði”. Það „sést að hann er með / svarta vængi á bakinu, / þeir lafa undan gamalli / skólatösku”. Ef vængirnir væru hvítir væri þetta auðvitað lítill engill, þarna á vappi við kirkjugarðinn, en við sem höfum lesið fyrra ljóðið vitum að hérna er leðurblakan aftur mætt.

Haustið er annar taktmælir myrkurs í huganum og í ljóðunum ríkir mikið haust. Eitt ljóðið, sem heitir beinlínis „Að hausti” býr þó yfir dálítilli von, en þar sér ljóðmælandi „skuggamyndir trjánna sem ber við / dökknandi himinrönd” og honum verður „skyndilega / ljóst fyrir alvöru hvað / tré eru merkilegar lífverur // Þau halda uppi himninum”.

Það er þó ekki endilega mikið um tré í smásagnasafninu Milli trjánna og allsekki ljóst hvort þau halda himnunum uppi þar. Enda byrjum við í hinu neðra, í smásögunni „Inferno”, en þar fer óviljugur eiginmaður í Ikea með konu sinni að leita uppi hægindastól. Stóllinn finnst hvergi og búðin eykur lítið á gleði mannsins. Inni á kaffistofunni sér hann kunnuglegan mann, sjálfan Strindberg: „sem hafði óttast helvíti meira en nokkuð annað, og hafði skrifað um þann ótta sinn, en var nú lentur hér eftir dauðann, í Ikea á Íslandi.”

Sandárbókin þótti marka nokkur tímamót í ferli Gyrðis því þar er hann kominn meira inn í nútímann en í flestum fyrri verka og laumar að nokkuð sterkri gagnrýni á græðgisvæðinguna sem þá náði hámarki, árið 2007. Þó er ekki hægt að segja að Gyrðir hafi alltaf haldið sig í fortíðinni, Hótelsumar frá 2003 var sömuleiðis nokkuð nútímaleg og nútíminn hefur birst á ýmsan hátt í ljóðum og sögum höfundarins, oft þó í einskonar togstreitu eða samtali við fortíðartóna. Milli trjánna heldur að nokkru leyti áfram með þessi nútímalegu pólitísku stef en nokkrar sagnanna innihalda lúmska gagnrýni á samfélagsleg málefni. Þetta birtist reyndar líka í ljóðunum, eins og í „Stjörnufræði fyrir byrjendur”, en þar horfir ljóðmælandi á Venus og veltir fyrir sér hvort þar hafi verið „merkileg siðmenning” sem „leið / undir lok af sömu orsökum / og ógna okkur hér // Hvernig bíla skyldu þeir / hafa átt?” Þó væri ofsagt að halda því fram að ádeila sé höfuðeinkenni þessara tveggja verka Gyrðis, en vegna þess hversu nýstárleg þau eru í höfundarverkinu vekja þau óneitanlega dálitla athygli. Það er óhætt að segja að þetta fari höfundinum vel, bara Ikea sagan útaf fyrir sig er verðug allra þeirra bókmenntaverðlauna sem úthlutað er hér í landi bókmenntanna; í örfáum dráttum teiknar Gyrðir upp æðið sem verður til þess að þetta húsflykki er byggt á vinsælu og fallegu útivistarsvæði og svo hvernig þar er ekkert til sem við í raun viljum, hvernig hjónabandið er við það að leysast upp eftir merktum stígum búðarinnar og svo tilvísunin í sænska skáldið sem situr fast í sínu sænska helvíti, „dæmdur maður um alla eilífð.”

Sagan leiðir okkur líka inní tvö önnur þemu bókanna tveggja, en þau eru átökin við konuna og gotneskan. Kona sögumanns í „Inferno” er afar pirruð á því áhugaleysi sem hann sýnir stólnum, en þó er greinilegt að hann er ekki svo utan við sig að hann geti ekki borið kennsl á sænska skáldið. Áhugasviðið liggur bara annarsstaðar en í innréttingum, hann tekur meira eftir blæbrigðum náttúrunnar, eins og ljóðmælendur Nokkurra almennra orða. Aðrir sögumenn sýna þó húsgögnum meiri áhuga, en fyrir utan þessi tvö aðalstef sagnanna er nokkuð um trésmíðar og bókahillur - hvorttveggja kunnugleg temu hjá höfundi. Togstreitan milli hjónanna í „Inferno” endurspeglar stef aðskilnaðar við konur sem sjá má í mörgum ljóðanna og birtist einnig í mörgum sagnanna og einkennist af því samskipta- eða tengslaleysi sem fram kemur í sögunni. Þannig má segja að þrátt fyrir að konur séu ekki mjög áberandi í þessum verkum Gyrðis frekar en fyrri verkum hans, þá sé konan afar nálæg, einmitt í fjarveru sinni. Sagan „Horft af brúnni” teiknar á andstyggilega áhrifamikinn hátt þau flóknu viðhorf til kvenna sem fram koma í textunum, en þar stendur sögumaður á göngubrú þegar til hans kemur óvenju brjóstastór kona. Hann getur ekki staðist að horfa á brjóstin á henni og það er greinilegt að konan kemur róti á huga hans. Þegar hann snýr aftur heim að húsinu sínu er nágranninn þar að klippa hekk með rafmagnsklippum og sögumaður gengur til hans og stingur höndunum „eldsnöggt inn í rymjandi kjaftinn á rafmagnsklippunum.” Hér birtist á næstum paródískan hátt bæði sektarkennd og ótti við konur, eða kannski aðallega kvíði og uppgjöf gagnvart skorti á samskiptum við þær og yfirvofandi aðskilnað.

Dauðinn er auðvitað hinn eilífi fulltrúi aðskilnaðar og sem fyrr í verkum Gyrðis er dauðinn ávallt innan seilingar, albúinn að feta sig nær. Ýmist er hann undir og allt um kring eins og í kirkjugarðatemanu eða einfaldlega yfirvofandi, eins og þegar bókaskáp er breytt í líkkistu í sögunni „Bókaskápurinn”. Eitt ljóðið í Nokkrum almennum orðum ber titilinn „Gotneskt ljóð” og segir einmitt frá líkkistusmið. Það er freistandi að stela titlinum og heimfæra uppá þann hluta höfundarverks Gyrðis sem tengist þjóðsögum, en þjóðsagnastef hafa frá upphafi einkennt bæði ljóð og sögur höfundarins. Þau birtast helst í draumum og draugum, en þetta tvennt fer oft saman. Gyrðir er einn af fáum íslenskum höfundum sem hafa þáttað þjóðsagnaþemu markvisst inn í texta sína, í meira eða minna mæli og hér sýnist mér hið yfirnáttúrulega óvenju nærtækt, sérstaklega í sögunum. Það er við hæfi að tala um gotnesku, því þrátt fyrir að gotneska skáldsagan sé fyrirrennari nútímahrollvekjunnar er hún ekki endilega bundin hryllingi; gotnesku má líka sjá í aðdáun á villtri náttúru og möguleikanum á yfirnáttúru. Gotneskan gefur sér að það sé aðeins þunn himna milli þessa heims og annarra en smit þarna á milli er einmitt eitt einkenni verka Gyrðis, eins og birtist í mörgum sagnanna í Milli trjánna. Stundum getur snertingin verið fagnaðarefni eins og í sögunni um „Tónlistarbúðina”, en þar rambar dreymandi inní tónlistarbúð sem geymir fágætar gersemar tónlistarsögunnar - gersemar sem aldrei hafa verið til. Búðina finnur sögumaður reyndar aldrei aftur og vonar að hún fari ekki á hausinn. Í sögunum „Tímalykkja”, „Gjörningaþoka” og „Farþegar” birtast hefðbundin þjóðsagnaminni, ung stúlka leiðir sögumann inní horfið berklahæli, maður sem ekur í gegnum þoku kemur heim og hittir sjálfan sig þar fyrir og það er reimt í skipskáetu. Allt eru þetta kunnugleg temu draugasagna sem höfundur fellir fimlega inní sagnaheim sinn.

Þó virðist mér sem ágangur ýmissa óvætta sé öllu óhugnanlegri en oft áður í verkum Gyrðis, en hér sækja ekki aðeins draugar heldur einnig skrýmsl á sögumenn hans og persónur. Lítil stúlka heyrir klórað í gluggarúðu og hjúfrar sig upp að yngri systkinum sínum, tveir bræður eru fengnir til að grafa upp torkennilega skepnu sem lögreglumaður hafði huslað - skepnan opnar svo augu, „rauð og mörkuð dauða og langstaðinni illsku” og í hrörnandi gróðurhúsi býr vængjuð og rauðeygð vera, sem sögumaður hittir þegar hann fer í kvöldgöngu að flýja niðurdrepandi fréttir og hugsar til hryllingsmynda.

Það væri þó of mikil einföldun að sjá óvættirnar sem fulltrúa kreppunnar, þær hafa fleiri andlit en svo. Eitt einkenna gotneskunnar er afmarkað rými sem skapar tilfinningu fyrir einangrun, söguhetjur gotneskra sagna eru oftar en ekki lokaðar af á einhvern hátt, hvort sem er í draugahúsi eða eigin sálarlífi. Sögumaðurinn í „Tindinum mikla” er upptekinn af fjallinu K2 og þráir að klífa það. En hann nær ekki einu sinni að láta tattúvera heiti fjallsins á sig áður en hann hörfar heim, „þar sem ég var alltaf einsamall og enginn til að tala við”. Þegar hann kveikir á rafmagnsofninum heyrast þaðan raddir, þær eru glaðar og veita sögumanni örlítinn félagsskap áður en þær hverfa. Að einhverju leyti má því líka ætla að óvættirnar, draugarnir og draumarnir standi fyrir einsemd og löngun í félagsskap - hvort sem það er sá sem sér drauginn eða draugurinn sjálfur sem sækir í samskiptin. Og svo má líka sjá þetta allt í ljósi þeirrar næmni fyrir umhverfi (þó ekki Ikea-stólum) sem einkennir öll verkin, sú mikla eftirtekt sem ber kennsl á sænska skáldið, nýtur tónlistar sem aldrei var til, sér svarta vængina undan skólatöskunni og hvernig trén halda uppi himninum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009