Beint í efni

Nornin

Nornin
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
Elín Björk Jóhannsdóttir

Verkefni Hildar Knútsdóttur þessi misserin er afar umfangsmikið. Nornin (2019), önnur bókin í seríu hennar er komin út og þar með spannar sagan 5 kynslóðir kvenna, frá samtíð til fortíðar í Ljóninu (2018), sem gerist 2017-2018 en teygir anga sína aftur um 79 ár, og svo inn í framtíðina í Norninni, sem gerist árið 2096. Nornin er glæsilegt framhald Ljónsins, óvænt og lógískt í senn, því Hildur er búin að byggja sterkar stoðir í fyrri bókinni fyrir þá framtíðarsýn sem birtist í þeirri seinni.

Í Norninni erum við stödd í Reykjavík framtíðarinnar og sögusviðið er því töluvert breytt frá Ljóninu. Aðalpersóna bókarinnar, Alma Khan, er nítján ára, vinnur fyrir sér í gróðurhúsi á Hellisheiðinni og býr ein í íbúð í Breiðholtinu sem er eitt af hverfum borgarinnar sem ekki er sokkið í sæ. Í upphafi bókar fær Alma óvænta stöðuhækkun og líf hennar breytist skyndilega. Í stað þess að sinna ræktun kjúklingabauna í risavöxnu iðnaðargróðurhúsi er henni hleypt í einkagróðurhús „hinnar heimsfrægu Olgu Ducaróvu“ einsog það er orðað í kynningartexta á bakhlið bókarinnar. Í gróðurhúsi Olgu opnast nýjar víddir fyrir Ölmu, þar vaxa framandi og sjaldgæfar plöntur í gróðurmold sem er verðmætari en gull í þeirri framtíð sem bókin lýsir. Það er mikill styrkleiki Nornarinnar hvað Hildi tekst að skapa raunsætt framtíðar-Ísland í þessari dystópísku vísindaskáldsögu úr Reykjavík. Sögusvið Nornarinnar er útpælt, allt frá mannmergðinni og þeim fjölda tungumála sem íbúar Íslands tala í bókinni til áhrifanna sem hækkun sjávarborðs hefur haft á borgarlandslagið. Persónur nota lítið þýðingartæki, svokallaðan kuðung, til að þurfa ekki að pæla í mismunandi tungumálum í daglegum samskiptum, ferðast um borgina og landið í lestum og borða ýmiskonar mat sem er ansi langt frá því að vera klassískur íslenskur matur. Áherslan á náttúru, ræktun og matvælaframleiðslu er mjög vel útfærð og sérstaklega viðeigandi í ljósi áhrifa þeirra loftslagshamfara sem einkenna sögusvið bókarinnar.

Nornin er þó einnig þroskasaga sem hverfist að verulegu leyti um ástarsamband Ölmu við hina heillandi Indru. Indra kemur frá meginlandinu þar sem ástandi er verra en á Íslandi, einsog hún lýsir þegar Alma óskar þess að íslenska sumarið sé aðeins heitara: „Sumrin á meginlandinu eru skelfileg. Eitt sumarið dóu þúsund manns í búðunum á tveimur sólarhringum. Gamla fólkið og börnin þola hitann verst“ (279). Indra er gagnrýnin á margt sem Ölmu hefur ekki dottið í hug að efast um áður og hefur róttækar skoðanir. Náttúruþemu eru einnig til staðar í myndmáli bókarinnar einsog greina má í lýsingu á því tilfinningaróti sem Indra veldur Ölmu:

Alma var eins og uppvakningur.

Maturinn bragðaðist ekki eins. Allir litir voru daufir. Meira að segja litríku blómin í gróðurhúsinu og skært hreistur fiskanna sem skutust um í tjörninni voru eins og lögð grárri slikju. Það var eitthvað horfið með Indru. Eitthvað stórt og mikilvægt.

Alma var tómt hismi. Frækornið innan í var farið. (183)

Serían sem byrjaði með Ljóninu og heldur áfram í Norninni segir sögu kynslóða sem upplifa loftslagshamfarir á ólíkum stigum. Í Ljóninu eru samtímaáhyggjur okkar í forgrunni. Mamma Kríu, aðalsöguhetju Ljónsins, er að vinna skýrslu um hækkun sjávar og Kría grínast með hvort þau eigi öll eftir að búa í Breiðholtinu eftir að miðbærinn og Lækjargatan, sem er í miðju sögusviðs Ljónsins, verði farin á kaf. 79 árum síðar býr Alma einmitt í Breiðholtinu, sem sýnir skemmtilega hvernig Hildur undirbýr framhaldið í fyrstu bókinni. Alma er aðeins eldri en Kría. Eins og títt er í ungmennabókum eru því ákveðin þroskamerki á þessari annarri bók í seríunni. Það er líka meiri þungi í ástarsambandinu í seinni bókinni en við sjáum í Ljóninu, þar sem við fylgjumst með Kríu fyrsta árið hennar í Menntaskólanum í Reykjavík á meðan hún býr ennþá hjá foreldrum sínum og vinkonusamböndin eru þau mikilvægustu í lífi hennar. Í heimi Ölmu hafa hinsvegar þær loftslagshamfarir sem enn eru í mótun fyrir Kríu sett varanlegt mark á veröldina. Þetta gefur seinni bókinni mun alvarlegri og víðsýnni tón sem teygir sig til heimsins utan Íslands. Þrátt fyrir þessar aðstæður lifir fólkið í Norninni flest venjulegu lífi. Háskólavinir Ölmu eru týpískir háskólanemar og Alma sjálf er upptekin við sín daglegu störf í gróðurhúsinu. Persónurnar eru þó plagaðar af erfiðum samviskuspurningum um hlutverk sitt í heiminum, sér í lagi Indra sem segir á einum stað við Ölmu: „Heimurinn er í rugli. Fólk er að deyja. Það er allt að deyja. Og hvernig getum við lifað þegar allt í kringum okkur er að deyja?“ (246) Nornin er sérstaklega áhrifamikil þar sem við erum nú þegar farin að finna fyrir loftslagsbreytingum og að nú sé tími til að bregðast við þó að það sé ekki auðvelt.

Kría er amma Ölmu og kemur fyrir í því hlutverki í Norninni. Því fær lesandi að vita eitt og annað um það sem á daga hennar hefur drifið eftir atburði Ljónsins. Á svipaðan hátt vísaði Ljónið einnig aftur til fortíðar, til voveiflegra atburða sem gerðust þegar móðuramma Kríu var ung. Bækurnar tvær hverfast því um kvenlegg ættarinnar og það er áberandi að þær fjalla öðrum þræði um sambönd eða sambandsleysi ungra kvenna við ömmur sínar og sem veldur því að erfitt er að hindra að óheillavænlegar atburðarrásir endurtaki sig. Hildur vinnur áfram með hið óhugnarlega í Norninni, það býr ennþá á sama stað, í húsi í kvosinni sem kemur lítið við sögu fyrr en í lok bókar en tengir þá skýrt saman örlög ömmu Kríu og Kríu sjálfrar sem gamallar konu. Húsið er á margan hátt hefðbundið draugahús. Inni í því er að finna ýmislegt sem ekki fylgir lögmálum okkar heims þótt ekki sé kafað ofan í það í þessum fyrstu tveimur bókum í seríunni. Framandleiki og ankannaleiki er líka notaður í persónusköpuninni á áhrifamikinn hátt. Það verður mjög spennandi að sjá hvort þau óhugnanlegu öfl sem tengja Ljónið og Nornina komi frekar út úr skápnum í næstu bók(um).  

Í Norninni vinnur Hildur með ólíka þræði í plottinu og eftir því sem líður á bókina fléttast þessir þræðirnir saman á mjög áhrifaríkan hátt. Lesandinn gerir sér grein fyrir ýmsu áður en Alma gerir það, enda vill hún eða getur ekki horfst í augu við ákveðna hluti. Lesandi sem kemur að Norninni eftir að hafa lesið Ljónið skilur einnig margt varðandi það hvernig sagan þróast. Þó eru nægilegar vísbendingar til staðar til að þeir lesendur sem byrja á Norninni ættu ekki að finna neinar gloppur í söguþræðinum. Nornin stendur fyrir sínu sem sjálfstæð saga þó að úrlausn Nornarinnar vísi skýrt í atburði fyrri bókarinnar á sama tíma og ótal spurningum lesanda er enn ósvarað!

 

Elín Björk Jóhannsdóttir, desember 2019