Bók norska rithöfundarins Toms Egeland, Við enda hringsins, kom út á íslensku í fyrra og vakti nokkra athygli. Var henni í auglýsingum líkt við Da Vinci lykilinn. Hægt er að láta sér detta í hug ýmsa aðra höfunda en Dan Brown sem skrifa á svipuðum nótum og eru flestir þeirra allnokkuð betri en hann. Aðallega eru það bandarískir höfundar sem leggja rækt við spennutryllinn en breskir eiga það til líka, sérstaklega þeir sem fást við njósnasögur. Má nefna Frederick Forsyth og Ken Follett. Frekar á Egeland eitthvað sammerkt með þeim heldur en Brown. Af bókum bandarískra höfunda sem Nótt úlfanna svipar til má nefna Hostage eftir Robert Crais, Critical Mass eftir Steve Martini og Lee Child kemur einnig upp í hugann. Efni bókarinnar er tekið beint upp úr samtímanum; hryðjuverkamenn, gíslatökur, bein sjónvarpsútsending, sjálfstæðisbarátta Tsjestjena og vafsöm afskipti Rússa af landi þeirra. Jafnvel eins og höfundur hafi snert af spádómsgáfu þegar morðið á rússnesku blaðakonunni Önnu Politskovskaju er skoðað. Hún skrifaði einmitt mikið um framferði Rússa í Tséstjeníu. Lát fyrrum njósnarans Alexanders Lítvínenkó af völdum dularfullrar eitrunar nýverið, sýnir einnig svo ekki verður um villst að höfundar njósna- og spennusagna eru oftar en ekki með fingurinn á púlsi alþjóðastjórnmála. Misjafnt er þó eftir höfundum hversu mikil áhersla er lögð á þá hlið mála eða spennuþáttinn.
Le Carré er náttúrlega einn af meisturum njósnasögunnar en atburðarásin hjá honum er sjaldan með því tryllingsyfirbragði sem ýmsir aðrir, og þar á meðal Tom Egeland í umræddri bók, nota til að grípa athygli lesenda sinna. Breski höfundurinn Robert Wilson fjallar í síðustu bók sinni, The Hidden Assassins, um sprengjuárás í Sevilla sem virðist vera á ábyrgð múslímskra öfgamanna en ýmislegt annað spilar inn í og málin flækjast heldur betur og niðurstaðan öll önnur en búist var við. Wilson er líkur le Carré að því leiti að frásögnin er tiltölulega hæg og pælingar miklar um ástand heimsins og persónanna. Það er minna um það í Nótt úlfanna. Þótt reynt sé að byggja upp einhverjar persónulýsingar þannig að helstu persónur séu aðeins meira en pappadúkkur er kannski ekki hægt að koma miklu í verk í sögu sem gerist á nokkrum klukkutímum. Það er þó óþarfi að kvarta. Það tekst sem í var ráðist.
Eins og bent hefur verið á er efniviður sögunnar einkar trúverðugur. Hinum friðsömu Norðmönnum er allt í einu fleygt inn í útsendingar sjónvarps og útvarps um allan heim líkt og gerist umsvifalaust í sambandi við helstu heimsviðburði. Sjálfstæðisbaráttu Tsjestjeníu er komið þokkalega vel til skila í stuttu máli og, líkt og gerst hefur í sambandi við dauða Politskovskaju og Lítvínenkó, þá er ekki gott að segja hver ber sökina á þeim glæpum sem framdir eru; ríkisstjórn Rússlands, rússneska mafían, ólígarkarnir, eða olíugúrkurnar eins og þeir eru kallaðir a.m.k. tvisvar í þessari bók, eða einhverjir enn aðrir. - Þetta er ágætur spennutryllir, alveg upplögð saga fyrir hvíta tjaldið og kemur ekki á óvart að ákveðið hafi verið að kvikmynda hana. Þýðing Kristínar R. Thorlaciusar og Áslaugar Th. Rögnvaldsdóttur virðist prýðilega af hendi leyst. Það er helst til galla að telja að lesandinn á ekki alltaf erfitt með að giska á hvernig söguþráðurinn þróast, hvað í raun býr undir.
Ingvi Þór Kormáksson, desember 2006