Öðruvísi saga er þriðja bókin í seríu sem byrjaði með bókinni Öðruvísi fjölskylda (2002) og hélt síðan áfram í Öðruvísi dögum sem kom út árið 2004. Hér segir enn af Karen Karlottu, sem er sögumaður allra bókanna, og fjölskyldu hennar en þessi nýjasta bók hefst á 10 ára afmælisdaginn hennar. Það má með nokkrum sanni segja að Karen Karlotta, eða Kæja eins og hún er yfirleitt kölluð, sé svolítið öðruvísi stelpa, hún er mikill pælari og mjög opin fyrir umhverfi sínu bæði heima fyrir og í alþjóðlegu samhengi og veltir ýmsu fyrir sér af mikilli alvöru, aðallega eru það stríð og ill meðferð fólks á samborgurum sínum sem raska ró hennar. Ástandið í Palestínu er þráður í öllum bókunum og helförin gegn gyðingum er einnig áfram til umræðu, en nágrannakona fjölskyldunnar er gyðingur sem lifði af vist í fangabúðum Nasista.
Kæja er afar viðkvæmt barn, þjáningar annarra, illska og óréttlæti leggjast þungt á hana og hún getur ekki skilið hvað fær fólk til að valda öllum þeim hörmungum sem hún sér allt í kringum sig í hinum stóra heimi. Hér, eins og í fyrri bókunum, er jöfnum höndum litið á það samfélag sem er hverri manneskju næst, þ.e. fjölskylduna, og hið stærra samhengi heimsins og þannig er óbeint ýtt undir þá hugmynd að mannfólkið myndi eina stóra fjölskyldu sem eigi að láta sig varða líðan meðsystra og –bræðra, bæði heima og heiman. Í fjölskyldu Kæju eru það sársaukafullar tilfinningar ömmu hennar til afans sem eru í brennidepli í þessari bók, hann er breskur fyrrum hermaður sem dúkkar upp eftir margra áratuga fjarveru í Öðruvísi dögum, og Karlotta amma á mjög erfitt með að fyrirgefa honum þótt (eða vegna þess) að tilfinningar hennar til hans séu síður en svo kulnaðar. Í Öðruvísi sögu er hann kominn aftur til Bretlands eftir heimsóknina og nú hefur hann boðið allri fjölskyldunni í heimsókn til sín. Við sjáum ástir gamla fólksins með augum Kæju sem reynir að ráða í viðbrögð og látbragð ömmu sinnar án þess að hún átti sig til fulls á tilfinningum hennar, en lengi vel er ekki ljóst hvort þessi stolta kona muni þiggja heimboðið.
Undir lok bókarinnar kemur í ljós að afi Kæju er líka að skrifa sína sögu, frá sjónarhóli þess sem hefur í senn eignast og misst fjölskyldu fyrir tilstilli stríðs. Við fáum ekki að heyra þá sögu, en lesandinn veit að seinni heimsstyrjöldin hafði afgerandi áhrif á líf afans, ekki aðeins missti hann annan handlegginn í því stríði, sem liggur auðvitað beint við að lesa sem táknræna vísbendingu um að líf hans sé ekki heilt eftir stríðið, e.tv. vegna viðskilnaðarins við soninn og ástkonu á Íslandi, heldur virðast hörmungarnar hafa lamað hann að einhverju leyti andlega. Bók hans er þýdd á íslensku og fær þá sama titil og sú saga Kæju sem við erum að lesa, bein þýðing enska titilsins væri hins vegar Annað stríð. Báðar eru bækurnar því sögur af stríði, bæði einkastríði einstakra persóna við stór og smá persónuleg mál og þeim blóðugu stríðum sem þjóðir heyja hver gegn annari.
Eitt af því sem Kæja og bróðir hennar taka sér fyrir hendur er að hreinsa illgresi í garðinum heima hjá sér. Þá koma í ljós fallegar og smágerðar jurtir sem ekki fengu að njóta sín áður, en auk þess að minna á aðra sögu eftir Guðrúnu, verðlaunasöguna Undan illgresinu frá 1990, er hér enn slegið á þá strengi hversu hollt það er að rækta sinn garð en jafnframt að styðja við það viðkvæma líf sem hætta er á að kafni fái illgresið að taka völdin. Þetta er einfalt táknmál en Guðrún otar því aldrei að sínum ungu lesendum, það er þeirra að draga sínar ályktanir af textanum.
Frásögn Karlottu er nokkurs konar trúnaðarsamtal hennar við lesandann þar sem hún trúir honum fyrir hugsunum sínum um leið og hún segir frá atburðum og lífi fjölskyldunnar eitt sumar og fram eftir hausti. Ekki í formi dagbókarfærsla þó, en áhrifin verða svipuð þar sem Kæja segir frá atburðum jafnóðum og þeir hafa átt sér stað í réttri tímaröð. Frásögnin er einföld og blátt áfram, sem má segja að sé í samræmi við sjónarhornið, en það sem ég helst sakna er að staldrað sé lengur við einstaka atburði, frásögnin sé blæbrigðaríkari og að meiri leikur eða kraftur og ekki síst átök komi fram í textanum, því nóg er af þeim í sálarlífi Kæju. Það má jafnvel segja að þar geisi ekki síður stríð en úti í hinum stóra heimi, bæði er hún sífellt að reyna að bæta sjálfa sig og verða umburðarlyndari og betri manneskja og eins verður meðlíðan hennar með öðru fólki til að valda henni sársauka æ ofan í æ. Á köflum er ekki laust við að maður óski þess að stelpan taki lífinu aðeins léttar, þótt hún sé vissulega hressilega framtakssöm og úrræðagóð og láti sér detta margt skemmtilegt í hug.
Eftir stendur að sögurnar um Karen Karlottu eru allar til þess fallnar að vekja börn til umhugsunar um þjóðfélagsmál, samhjálp, réttlæti, stríð, samskipti fólks og tilfinningar, og það er vel til fundið að það sé rödd þessarar forvitnu og hjartagóðu 10 ára söguhetju (sem að vísu efast oft um eigin hjartagæsku) sem miðlar vangaveltum sínum til lesenda á svipuðu reki og fái þá til samræðu við sig. Guðrún hvikar aldrei frá þessu sjónarhorni, hún er trú sýn barnsins og gefur ekki meira upp en það sem þroski og vitneskja Kæju býður upp á, og þótt bókin sé vissulega mjög pólitísk eru svör við spurningum og vangaveltum hennar aldrei tilreidd ofaní lesandann. Öðruvísi saga getur þannig auðveldlega kveikt umræður sé hún lesin fyrir eða með börnum og að mínu viti hentar hún afar vel til þess að börn og fullorðnir njóti hennar saman.
Kristín Viðarsdóttir, desember 2006