Beint í efni

Óeirðin innra með okkur

Óeirðin innra með okkur
Höfundur
Jónas Reynir Gunnarsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Þórunn Hrefna

Helstu persónur skáldsögunnar Kákasus-gerilsins, Bára og Eiríkur, hittast aldrei þó að á milli þeirra sé strengur sem lesandinn finnur sífellt sterkar fyrir eftir því sem líða tekur á söguna. Bæði eru þau fólk sem neitar að sætta sig við að fá ekki svör við þeim spurningum sem sækja á þau. Þau leggja upp í leit að merkingu og vinna þannig gegn óeirð og tilbreytingarleysi.

*

Vindur fram tveimur sögum. Bára er háskólanemi í leiðinlegri sumarvinnu, en í frítíma sínum viðar hún að sér efni í hlaðvarpsþætti um helsta hugðarefni sitt, sem er neysla fólks á ýmsum efnum sem eru til þess fallin að breyta líðan þess, efnum á borð við koffín, nikótín, fæðubótarefni og jafnvel hörð fíkniefni. Strax í æsku varð Bára heltekin af því hvernig fólk hafði í sífellu áhrif á sjálft sig með því að drekka ákveðna drykki, borða ákveðinn mat eða reykja. Hún velti því fyrir sér hvers vegna við værum alltaf að reyna að breyta okkur og spurði sig hvort óbreytt útgáfa væri í raun og veru til.

Hlaðvarpsþættirnir hafa vinnuheitið Eitur í flösku. Því eins og segir á titilsíðu bókarinnar og er eignað Paracelsus, þá er allt eitur og ekkert án eiturs – aðeins skammtastærðin veldur því að eitthvað er ekki eitur. Efnin sem við notum til þess að breyta líðan okkar eru ekki eitur nema þau séu notuð í óhóflegu magni. Og efni sem eru okkur lífsnauðsynleg og teljast ekki til eiturs geta líka drepið okkur. Vatnið - lífgjafinn ljúfi – getur valdið vatnseitrun, það má nota það til pyntinga og síðan getur það meira að segja drekkt okkur.

Sjálf lifir Bára að eigin mati tilbreytingarlausu lífi – en „dreifir huganum með ástarsambandi“ til þess að „trufla sig frá því sem hefur fylgt henni úr bernsku, þessari óþægilegu tilfinningu sem var alltaf þarna í bakgrunninum, eins og suðið í útvarpinu, krananum, ísskápnum eða kaffivélinni“ (43).

Atvinna Báru er henni áminning um að endurtekningarnar stýra lífi okkar. Í vinnunni eru öll símtölin eins, sömu brandararnir linnulítið sagðir á kaffistofunni og hún fer með sama strætó í vinnuna og aftur heim á hverjum degi.

*

Eiríkur Mendez finnur snemma á lífsleiðinni fyrir einhverri óeirð, líkt og Bára, en hjá honum birtist hún sem ótti og vanmáttur sem víkur fyrir reiði og gremju þegar hann eldist. Hann sættir sig ekki við útskýringar annarra og í æsku trúði hann yfirleitt ekki því sem honum var sagt. Hann var vantrúaður á allt sem hann lærði í skólanum og pirraður við þá sem reyndu að segja honum til. Það var ennfremur holur hljómur í öllu því sem hann hafði lesið í von um að líða betur.

Eiríkur vill helst stara á fólk - til þess að taka inn sjónrænar upplýsingar og lesa úr þeim einhvers konar merkingu. En það er dónalegt að stara, eins og móðir hans bendir honum á, þannig að hann fer að taka myndir. Löngum stundum dvelur hann í myrkraherberginu þar sem þögn og myrkur voru einu svörin, eina meðalið við óeirðinni.

Eiríkur vill ekki að myndirnar sem hann tekur sýni fullkomnun – heldur gerir hann uppreisn gegn því að reyna að standa sig vel og velur bara misheppnaðar myndir til framköllunar. Hann gengur lengra og reynir að gera það sem á myndunum er óþekkjanlegt. Starfar beinlínis að því að gera veruleikann óraunverulegan, enda líður honum oft eins og hann sé staddur í bíómynd og að hugmyndin um hann sjálfan sé blekking.

Söguhetjunum finnst báðum eins og þau lifi í einhvers konar tómi eða ofurraunverulegum óraunveruleika. Það kemur líka yfir Báru að henni þyki tíminn líða óvenjulega hægt, að hann líði eins og kvikmynd og það hafi hægst á sýningartækinu.

*

Kákasus-gerillinn skiptist í átta kafla. Sagt er frá Eiríki og Báru á víxl á mismunandi skeiðum og á einum stað dvelur sjónarhornið hjá Agnesi móður Eiríks. Skipt er áreynslulaust á milli tímaskeiða og sjónarhorna og spennan byggist upp þegar Bára sökkvir sér á kaf í rannsóknir, m.a. á kákasusgerlinum (sveppi sem átti að vera flestra meina bót) og kemst að tilvist Eiríks, en hann lést ungur um tuttugu árum fyrr.

Sögur þeirra Báru og Eiríks tvinnast þá enn frekar saman og spennan eykst eftir því sem Bára kemst lengra inn í heimildarvinnuna, enda reyndist Eiríkur Mendez hafa gert tilraunir með körtueitrið 5-MeO-DMT, sem af mörgum er talið sterkasta hugvíkkandi efni sem völ er á. Körtueitrið er náskylt psilocybin (virka efninu í mörgum sveppategundum) og mál manna er að það leyfi fólki að upplifa dauða og endurfæðingu. Sumir halda því jafnvel fram að slík ferðalög komi á milliliðalausri tengingu við guðdóminn sjálfan.

Þessar pælingar Jónasar Reynis eru skrifaðar beint inn í okkar samtíma, þar sem byltingarkenndustu skrefin í geðlæknisfræðunum eru einmitt tengd tilraunum með psilocybin. Sífellt fleiri halda því fram að bót við hvimleiðustu kvillunum sem hrjá okkur – fíkn, þunglyndi og áfallastreitu – sé að finna í hugarferðalögum sem farin eru með aðstoð psilocybin, undir handleiðslu sérfræðings.

*

Ýmsar aukapersónur Kákasus-gerilsins eru forvitnilegar og luma á heilræðum sem eru í skemmtilegri andstöðu við hyldýpi pælinga Eiríks og Báru, enda hafa allir hugmyndasmiðir þörf fyrir heilbrigt og uppbyggilegt andóf. Kærasti Báru deilir með henni sárgrætilegri en einkar mannlegri reynslu sem hann lenti í og kenndi honum að það borgar sig að hafa ekki of miklar áhyggjur af hlutunum. Að í raun skiptir ekkert nokkru einasta máli og því er manneskjan fullkomlega frjáls.

Fyndnasta persóna sögunnar hlýtur svo að vera Marek, kunningi Eríks, sem þaggar niður í honum þegar hann segir uppnuminn að hann hafi séð í gegnum blekkinguna sem líf hans er. „Nei, lífið væri ekki blekking. Eiríkur væri bara fastur í skítahrúgu sem hann hafði sjálfur skitið út úr rassgatinu á sér“ (202). Samkvæmt Marek er lífið reyndar það eina sem ekki er blekking.

*

Kákasus-gerillinn er skemmtileg stúdía á því hvernig við pössum inn í þau hlutverk sem okkur eru ætluð og til hvaða vopna manneskjur þurfa stundum að grípa til þess að þagga niður í „þessari óþægilegu tilfinningu sem alltaf er þarna í bakgrunninum“.

Jónas Reynir er ekki höfundur sem lónar á grunnsævinu. Eins og sögupersónur Kákasus-gerilisns kafar hann í verkum sínum djúpt, leitar stöðugt að merkingu og hrífur lesandann með sér í afar áhugavert ferðalag.

 

Þórunn Hrefna, nóvember 2022