Bók eins og Ógæfusama konan eftir Richard Brautigan á því miður á hættu að fara algjörlega framhjá manni á meðan jólabókaflóðið svokallaða stendur yfir. Þetta er lítið kver í kiljuútgáfu sem lætur ekki mikið yfir sér. Kápan er stílhrein og falleg, rauð og hvít að lit og skartar myndum af skáldinu á forsíðu og baksíðu eins og útgáfur verka Brautigan gera gjarnan. Bókin er gefin út af litlu forlagi á Akranesi sem kallast Uppheimar og hefur staðið sig einkar vel í útgáfu á vönduðum þýðingum síðustu ár. Gyrðir Elíasson þýðir bókina en þetta er fjórða bók Brautigan sem hann snýr á íslensku. Áður hafa komið út sögurnar Svo berist ekki burt með vindum (1989), Vatnsmelónusykur (1991) og Silungsveiði í Ameríku (1992). Ógæfusama konan er síðasta verk Brautigans sem lést árið 1984 en kom ekki út á ensku fyrr en árið 2000 en hafði áður komið út á frönsku 1994.
Þótt þetta kver láti ekki mikið yfir sér er það margslungið og það sem meira er; það býður lesandanum í ferðalag, sem kemur ekki á óvart þar sem kverið ber undirtitillinn „ferðalag“. Ferðalagið er þó ekki aðeins landfræðilegs eðlis því það má ferðast um verkið sjálft á margvíslegan hátt. Eins og á við um góð bókmenntaverk má nefnilega lesa Ógæfusömu konunaá marga vegu, eftir því hvað hverjum og einum hentar. Kverið má lesa blátt áfram án þess að velta sérstaklega fyrir sér öllum þeim hliðarstefjum og afkimum sem þessi sérstæða ferðasaga býður upp á. Því frásögnin er í grunninn færð í form dagbókar og stíllinn er látlaus, þægilegur og algjörlega áreynslulaus. Hliðarstefin eru auk þess skemmtileg þótt þau séu yfirleitt grátbrosleg og stundum raunar beinlínis sorgleg. En svo má líka leika sér að því að púsla brotakenndri frásögninni saman á meðan á lestrinum stendur og það er eiginleiki sem hvetur mann til að lesa aftur.
Það er því freistandi að leika sér aðeins með þetta púsluspil sem frásögnin er. Þetta er sem fyrr segir ferðasaga, sögumaður er 47 ára gamall karlmaður sem fæst við skriftir, fyrirlestrahald auk kennslu í skapandi skrifum. Hann á að baki fjöldann allan af misheppnuðum samböndum við konur sem margar hverjar eru yngri en hann og þessi sambönd koma hvað eftir annað upp í frásögninni. Lesendur horfa yfir öxlina á honum meðan hann skrásetur hugleiðingar sínar í litla minnisbók á ferðum sínum vítt og breitt um Norður Ameríku. Sjálfur lýsir sögumaður bókinni sem almanakskorti afmarkaðs hluta lífs síns sem vísar bæði til ferðalagsins og tímans. Því tíminn skiptir miklu máli í verkinu – í margvíslegum skilningi. Lesendur fylgjast beinlínis með skrifunum þegar þau eiga sér stað því sögumaður minnir sífellt á að skrifin fara fram í núinu: „Í þessari setningu er ég aftur farinn að búa í undarlega húsinu í Berkeley þar sem konan hengdi sig“ (bls. 79). Hér væri e.t.v. rétt að gera grein fyrir þessari konu sem hengdi sig, en ég læt það vera en get þess í staðinn að upplýsingar um hana eru einnig af skornum skammti frá hendi sögumanns. Konan sem hengdi sig í húsinu í Berkeley er þó trúlega sú sem titill kversins vísar til þótt önnur ógæfusöm kona komi einnig við sögu, en það er vinkona sögumanns sem liggur fyrir dauðanum af völdum krabbameins.
Kaflar kversins eru dagsettir, sem veitir lesandanum ákveðna línu til að fylgja. Þrátt fyrir það vísar sögumaður stöðugt fram og til baka í tíma, einkum innan skrásetningartíma verksins en einnig út fyrir hann. Strax í upphafi gefur hann upp einskonar yfirlit yfir ferðir sínar sem eiga að hefjast í Montana en enda í Chicago (með viðkomu m.a. á Hawai og í Alaska). Þetta yfirlit er hið svokallaða almanakskort en það stenst þó ekki nema að hálfu leyti því ferðin endar raunar þar sem hún hefst, í Montana. En hvaða máli skiptir þetta? Jú, þegar lesandinn fær þetta yfirlit strax í upphafi, situr sögumaður í Berkeley (einmitt í fyrrgreindu húsi þar sem konan hengdi sig) og bíður þess „að fara til Chicago um miðjan febrúar“ (bls. 14) þar sem hann hyggst ljúka skrásetningu sinni í minnisbókina (sem er 160 síður líkt og kverið sem lesandinn hefur í höndum). Þessi áform hans rætast hinsvegar ekki því: „... skyndilega er kominn 1. mars.“ og hann spyr: „Hvað varð um síðasta hálfa mánuð í þessari bók, sem er nú orðin svo augljóslega út undir sig í tímalegum skilningi og líkist sífellt meira því sem lífið sjálft á til?“ (bls. 90). Eitt einkenni sögunnar er að hún býður eðlilegri framrás tímans birginn, sem lýsir sér kannski best í því sem sögumaður segir á einum stað að sé yfirlýst markmið bókarinnar: „það er yfirlýstur og vonlaus tilgangur þessarar bókar að láta fortíð og nútíð haldast í hendur“ (bls. 97).
Sögumaður gefur oft í skyn að hann sé ekki að skrifa venjulega sögu. Til dæmis segir hann á einum stað um skrautlegan lögregluþjón sem hann hittir í Alaska: „Hann er maður af því tagi sem í venjulegri bók, en þetta er því miður ekki ein þeirra, yrði þróaður upp í eftirminnilegan karakter“ (bls. 73). Þetta er auðvitað laukrétt hjá sögumanni enda er bara einn eftirminnilegur karakter í þessari sögu og það er hann sjálfur. Hvað svo sem venjuleg saga er, og hvernig sem maður skilgreinir það fyrirbæri (ef það er þá til) er þessi saga sannarlega óvenjuleg og það er erfitt að setja á hana merkimiða. Hún er í einhverjum skilningi dagbók, endurminningabók eða brot úr ævisögu en fyrst og fremst er hún skáldsaga enda er skáldsagan miðill sem rúmar ólíkustu bókmenntagreinar.
Dauði konunnar sem hengdi sig hvílir á sögumanni eins og mara. Það sést trúlega best á því að hann á erfitt með að koma sér að því að segja frá henni. Þess í stað minnist hann öðru hvoru á þessa konu eins og í framhjáhlaupi og stundum formálalaust. Lesandinn getur ekki annað en reiknað með að titill bókarinnar vísi til hennar. Ósjálfrátt hvarflar hugur lesandans samt til sögumanns sjálfs í þessu samhengi. Maður veltir því fyrir sér hvort ógæfusama konan sé ekki einhverskonar leppur fyrir hann, hvort titillinn ætti ekki fremur að vera Ógæfusami maðurinn. Þessi hugsun sækir jafnvel enn frekar á mann þegar á lesturinn líður, ekki síst ef maður hefur lesið stuttan texta á innanverðri kápu um höfund bókarinnar, en þar segir: „Á fertugasta og níunda aldursári, haustið 1984, stytti Brautigan sér aldur með skammbyssukúlu í húsi sínu í Bolinas í Kalíforníu.“ Þessar vangaveltur skemma samt síður en svo lesturinn, það væri nær að segja að þær dýpki hann.
Aðstandendur þessarar útgáfu eiga þakkir skyldar fyrir að færa íslenskum lesendum þetta litla kver. Þýðing Gyrðis Elíassonar er afbragð og án þess að nákvæm athugun liggi að baki þori ég að fullyrða að honum takist að fanga þann grátbroslega, afslappaða og látlausa stíl sem einkennir söguna. Að endingu verð ég líka að taka hatt minn ofan fyrir því að bókin skuli koma út í vandaðri kiljuútgáfu – vonandi ratar hún til fleiri lesenda fyrir vikið.
Ingi Björn Guðnason, nóvember 2006