Beint í efni

Olía

Olía
Höfundar
Þórdís Helgadóttir,
 Þóra Hjörleifsdóttir,
 Sunna Dís Másdóttir,
 Ragnheiður Harpa Leifsdóttir,
 Melkorka Ólafsdóttir,
 Fríða Ísberg
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Svikaskáld er skáldkvennahópur sem samanstendur af þeim Þórdísi Helgadóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Fríðu Ísberg, Melkorku Ólafsdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur og Þóru Hjörleifsdóttur. Olía er fyrsta skáldsaga Svikaskálda en þær hafa áður gefið út tvær ljóðabækur undir merkjum hópsins. Í Olíu er skyggnst inn í líf og hugarheim sex kvenna, sem takast hver á sinn hátt á við tilveruna og reyna meðvitað og ómeðvitað að veita hlutverkum sem samfélagið setur þær í viðnám. Sagan kemur út á hárréttum tíma og er gott innlegg í umræðu undanfarinna vikna og mánaða, þar sem konur hafa verið að kveða sér hljóðs og krefjast þess að á þær sé hlustað af alvöru.

Olía er nokkuð óhefðbundin skáldsaga, ekki eingöngu vegna fjölda höfunda sem að henni koma, heldur einnig vegna þess hvernig hún er uppbyggð. Bókin er rétt rúmar 180 blaðsíður og skiptist í sex kafla sem allir eru svipaðir að lengd. Hver höfundur skrifar einn kafla og setur þar fram svipmynd úr lífi einnar konu. Konurnar sex sem fjallað er um, Gerður, Mæja, Rannveig, Snæsól, Kristín og Linda eiga við fyrstu sýn ekki margt sameiginlegt. Þær eru á ólíkum aldri, í ólíkri stöðu í samfélaginu, með ólíkan bakgrunn og búa yfir mismunandi lífsreynslu. Smám saman kemur þó í ljós rauður þráður sem liggur í gegnum alla kaflana og tengir konurnar saman með margvíslegu móti. Þær eru allar sex, hver á sinn hátt, erfiðar konur sem vilja ekki þýðast kröfur annarra; þær eru hættar að finna sig í þeim hlutverkum sem þeim er ætlað að gegna, ef þær hafa þá einhverntíma gert það. Andóf þeirra gegn samfélagi þar sem þær eru valdalausar, ósýnilegar eða jafnvel afskrifaðar brýst út á mismunandi hátt og er misáberandi, en hefur víðtæk áhrif í lífi hverrar og einnar.

Frásögnin innan hvers kafla er tvískipt. Annars vegar er um að ræða ytri atburðarás, þar sem konurnar eru staddar í mismunandi aðstæðum, og hins vegar því sem hrærist innra með hverri og einni þegar rifjast upp ýmis atvik úr fortíðinni, sem hafa skipt sköpum í mótun sjálfsmyndar þeirra. Í fyrsta kafla situr Gerður á biðstofu og bíður eftir að komast að hjá lækni. Hún er orðin gömul og hittir yfirleitt fáa en hjá lækninum er oft fólk sem hún kannast við. Henni verður hugsað til liðinnar tíðar á meðan hún bíður, til dætra sinna og eiginmannsins, gamalla nágranna og þess hvernig hún hafði einu sinni ákveðið vald og vægi, sem fín frú í eftirsóknarverðri stöðu. Í næsta kafla arkar Mæja meðfram Miklubrautinni í reiðikasti. Hún hugsar um æsku sína, móður sína og systur, um vinnustað sinn þar sem ungir strákar fá hærri laun en hún fyrir minni vinnu og um það hvernig feðraveldið hefur skilyrt hana til að láta allt yfir sig ganga. Hún hugsar líka um sólarlandaferð sem hún fór í nýlega sem fór frekar óvænt á annan veg en hún átti von á. Þriðji kaflinn fjallar um Rannveigu og hann er aðeins frábrugðinn hinum, frásögnin blandast ljóðum og ýmis tákn eru fyrirferðameiri hér en í hinum köflunum. Rannveig hefur alltaf verið dugleg og passað upp á að öllum líði vel, líf hennar er í föstum skorðum og hún getur gert allt sem þarf án þess að hugsa, en innra með henni hefur eitthvað brostið. Vitund hennar er klofin frá líkamanum og hún horfir á duglegu konuna utan frá, þar sem hún leikur hlutverkið sem hún kann svo vel. Þessi nýja Rannveig hefur ákveðið að segja skilið við daglegt líf sitt og leggja upp í ferð sem mun færa hana langt út fyrir samfélagið. Snæsól er aðalpersóna fjórða kafla. Hún er ung kona í háskólanámi sem veit ekki alveg hvað hún vill, hún togast milli þess að hugsa stöðugt um gamla hjásvæfu og að vilja vera frjáls og kærulaus eins og vinkonur hennar. Hún reynir að vera meðvituð og hugsa um hluti sem skipta máli eins og henni finnst jafnaldrar sínir gera en finnst hún alltaf fara yfir strikið í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. Eftir heimsókn á ráðstefnu finnur hún lausn á því hvernig hún getur lagt sitt að mörkum til að bæta heiminn og gert eitthvað sem skiptir máli. Fimmti kafli segir frá Kristínu sem er listakona og lifir og hrærist í nánum tengslum við náttúruna. Hún býr ein í húsi foreldra sinna og einangrar sig þar frá umhverfi sínu, nokkur tími er liðinn síðan hún sagði nánast alfarið skilið við samfélagið og fjölskyldu sína, en nú er kominn tími til að sættast við fortíðina og snúa aftur. Hún leggur af stað að heiman en endurkoma hennar verður á hennar eigin forsendum. Í lokakaflanum er sagt frá Lindu, sem nýtur þó nokkurrar velgengni í viðskiptum. Hún er ekkja með tvær dætur og hún er ströng við dæturnar og við sjálfa sig, enda veit hún að ekkert er ókeypis og velgengni þarf að hafa fyrir. Samband Lindu við móður sína er stirt og hefur meiri áhrif á hana en hún myndi sjálf vilja, en þegar hún ferðast um heiminn á vegum vinnunnar og er fjarri öllum getur hún verið hún sjálf og slakað á. Viðskipti hennar eru þó ekki það eina sem drífur hana áfram, hún vinnur að áætlun fyrir framtíðina og ferðalögin reynast hafa annan tilgang undir niðri.

Aðalpersónur Olíu eru afar ólíkar týpur og afstaða þeirra til umheimsins eftir því. Gerður hugsar þannig til dæmis með sér að aðalatriðið sé „að tempra sig og slétta úr misfellunum. Eins og að renna straujárni yfir dúk svo hann liggi fallega“ (25) en Mæja tekur gagnstæða afstöðu og ákveður að láta ekki vaða yfir sig lengur heldur vera alltaf með vesen þegar hún telur þörf á því. Ýmis tákn sem eru gegnumgangandi í lífi kvennanna sex varpa ljósi á sameiginlega reynslu þeirra og eru til þess fallin að tengja sögur þeirra saman. Tákn sem tilheyra óstýrilátri náttúru, hinu villta sem er á jaðri samfélagsins eða jafnvel utan þess eru áberandi og konurnar sækja hver með sínum hætti kraft og vellíðan í náttúruna. Kristín grefur hendurnar í mold og sáir trjám, Rannveig geymir mosa í skrifborðsskúffunni sinni og strýkur hann reglulega en Snæsól les greinar um sveppi og rótarkerfi trjáa svo dæmi séu tekin. Líkaminn er einnig veigamikið tákn og hlutverk hans í sjálfsmynd kvennanna. Gerður reynir að temja hann og halda í skefjum, Mæja hefur áhyggjur af því uppfylla ekki fegurðarstaðla samfélagsins því hún sé ekki nógu grönn, líkami Rannveigar umbreytist og verður villtari og stjórnlausari því lengra sem hún fer frá borginni og Snæsól upplifir sig sem hluta af einum stórum líkama þegar hún finnur sér loks tilgang með lífinu. 

Olía er marglaga saga sem er ekki úr vegi að lesa oftar en einu sinni til að fletta öllum lögunum í sundur. Smáatriði í einum kafla, sem auðvelt er að láta fram hjá sér fara, geta skipt miklu máli í þeim næsta. Þrátt fyrir að höfundarnir séu margir smella kaflarnir sex og sögur kvennanna fullkomlega saman í eina heild, tengingar og samspil þeirra í milli eru margvísleg og virkilega vel útfærð, stundum augljós en þess á milli alveg óvænt. Í gegnum aðalpersónurnar sex er rýnt í samfélagið á óvæginn og stundum óþægilegan hátt. Hlutverk mæðra er krufið, systrasambönd, heimur viðskipta, tilfinningar og lífsskilningur ungra kvenna jafnt og þeirra sem eldri eru. Greina má togstreitu innra með persónunum, milli þess að vilja tilheyra og passa inn og þess að vilja upplifa frelsið sem er fólgið í að vera sönn sjálfri sér. Höfundum tekst í Olíu að koma róti á tilfinningarnar, ýta lesandanum út fyrir þægindaramman og hrista auk þess rækilega upp í honum.
 

María Bjarkadóttir, desember 2021