Stundum er sagt að raunveruleikinn sé ýktari en allur skáldskapur. Þessu má reyndar líka snúa við því að stundum er mesta sannleikann að finna í skáldskap. Í sumum tilvikum er þar skírskotað til sannleikans í víðara samhengi og þá óháð tíma og rúmi. Hver kannast til dæmis ekki við að dæmi úr heimsbókmenntum horfinna alda séu dregin fram til að varpa ljósi á viðburði í samtímanum til að sýna fram á að mannlegt eðli sé alltaf eins og að sagan sé stöðug hringrás?
En skáldskap má líka nota til að höndla nærtækari og staðbundnari „sannleika“. Þá beitir sá sem á penna heldur (eða lyklaborð lemur, kannski frekar) skáldskapnum til að segja hluti sem hann þyrfti að tóna niður eða orða pent, til dæmis í aðsendri grein til dagblaðs. Hann hnikar til nöfnum og aðstæðum en öllum skilst hvað hann á við og undir þessum formerkjum getur hann gengið miklu hispurslausar til verks í lýsingu sinni á því sem við honum blasir.
Höfundar glæpasagna beita þessu bragði óspart, íslenskir ekki síður en erlendir. Ævar Örn Jósepsson er einn þeirra sem fléttar álitaefni úr samtímanum mikið inn í sínar sögur og beitir á köflum grimmri en um leið hressilegri þjóðfélagsádeilu.
Ég veit til dæmis ekki hvort harðir sjálfstæðismenn ættu endilega að óska sér nýjustu glæpasögu Ævars Arnar, Önnur líf , í jólagjöf. Alla vega ekki þeir sem eru í liði með mönnum eins og stjörnulögfræðingnum Brynjari Andra Gunnlaugssyni sem kemur fyrir í bókinni. Það má auðvitað ekki segja of mikið um söguþráð glæpasagna en óhætt er að orða það þannig að sagan sé alla vega ekki beint til þess falinn að peppa upp stemninguna á upplestrarkvöldum í Valhöll.
Sagan hverfist um tvær alvarlegar líkamsárásir sem stúlka verður fyrir og tengjast að nokkru leyti þætti hennar í mótmælunum á Austurvelli hrunveturinn 2008-2009. Málið verður lögreglukonunni Katrínu sérlega hugleikið, enda tengist hún fórnarlambinu fjölskylduböndum. Hún nýtur hins vegar framan af fremur takmarkaðrar aðstoðar félaga sinna þar sem Árni er í fæðingarorlofi og Stefán eyðir flestum sínum stundum með skrúflykil í hönd undir gömlum jeppa að jafna sig á andlegu áfalli. Og Guðni virðist fremur búa til vandræði en hjálpa til við að greiða úr þeim.
Eins og það væri yndislegt að geta sagt með sannfæringu í röddinni að þeir viðurstyggilegu glæpir sem eru í forgrunni þessarar bókar gætu ekki átt sér stað á sama hátt í íslenskum veruleika, þá vitum við betur. Þurfum ekki annað en að hugsa til eins fyrrverandi biskups. Hvort sem einhverjir liðsmenn tiltekins stjórnmálaflokks eiga skilið að vera í skúrkahlutverki í þessari bók, fremur en einhver önnur íslensk valdablokk, er aukaatriði. Meira máli skiptir að afhjúpun síðustu missera á gegndarlausri siðblindu íslenskra valdaafla gerir það að verkum að gríma sakleysisins er fallin.
Önnur líf er sjötta bók Ævars Arnar um lögregluteymið Stefán, Katrínu, Árna og Guðna. Löggulið Ævars Arnar er fremur vel heppnað persónugallerí, þó að klisjurnar séu vissulega til staðar, samanber duglegu og samviskusömu konuna sem alltaf er vanmetin á sínum vinnustað og svo dónakallinn og durtinn - svona „bad-cop“ - sem líka er álíka fastur liður í heimi glæpasagnanna. Ævari tekst allra best upp í persónugerð Stefáns, hann sneiðir þar algjörlega hjá klisjunum en býr þó um leið til dæmigerðan miðaldra kall, hæglátan kontórista, sem hvorki er með fullkomnunaráráttu né algjör gallagripur, bara svona einhvern veginn mitt á milli, eins og við flest.
Krimmaformið leikur í höndum Ævars Arnar. Honum fer það vel að skjóta föstum skotum á samfélagið, textinn er fullur af kaldhæðni og húmor en þó ekki á kostnað alvörunnar undir niðri og næmni fyrir mannlegum örlögum.
Sigurður Ólafsson, nóvember 2010.